Thursday 31 May 2007

Einfaldur ofnbakaður lax með bökuðum sveitakartöflum

Snædís ætlaði að sjá um matinn í kvöld þar sem ég þurfti að vinna aðeins frameftir. Dóttir mín var ásamt vinkonum sínum og þjálfara í Ármanni að undirbúa fimleikasýningu og þegar Snædís kom til að sækja hana um sexleytið var allt á eftir áætlun og það kom í mínar hendur að undirbúa matinn. Snædís hafði keypt lax og hafði áformað að grilla hann. Ég var eitthvað í litlu stuði til að standa yfir grillinu í kvöld - já þrátt fyrir veðrið - var bara ekki í neinu grillstuði.

Eitthvað varð að þó að gera. Ég hef í tvígang bloggað um laxarétti áður. Þeir hafa verið heldur flókari en þessi sem var alveg í það einfaldasta. Svo var næstum hreinsað út úr ískápnum til að útbúa meðlætið. Meðlætið varð svo að ansi bragðgóðum rétt sem ég á örugglega eftir að gera aftur.

 Einfaldur ofnbakaður lax með bökuðum sveitakartöflum.

Eitt laxaflak var lagt á álpappír. Safa úr einni sítrónu sáldrað yfir og svo saltað með Maldon salti og nýmöluðum pipar dreift yfir. 60 gr af smjöri var klipið niður í bita og dreift yfir flakið. Bakað í 180 gráðu heitum ofni í 12 mínútur. 1/2 búnti af niður graslauk skorið niður í litla bita og sáldrað yfir tilbúið laxaflakið.

Meðlætið var eins og áður sagði samsafn úr mat sem ég fann ísskápnum. Álpappír var lagður í ofnbakka og brotið upp á hliðarnar. Smá jómfrúarolíu skvett á pappírinn og dreift með bursta. Tíu kartöflur voru skornar niður í átta bita og lagðar, hýðið niður, á álpappírinn. 250 gr af sveppum var dreift á milli kartaflanna, einum rauðlauk skornum í átta bita, einum hvítum lauk skorinn niður eins. 10 hvítlauksrifjum var dreift á milli og svo laufum af 2-3 greinum af rósmaríni. Smávegis af jómfrúarolíu skvett yfir og svo saltað og piprað. Bakað í ofni í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar verða gullinbrúnar og stökkar. Þessi réttur þar náttúrulega að fara á undan laxinum í ofninn.

Þegar ég setti laxinn í ofninn - kippti ég kartöflunum út í smástund og lagði nokkra beikon bita (kannski 5-6 sneiðar sem ég hafði skorið í þrennt) ofan á kartöfluréttinn og skellti aftur í ofninn og leyfði að klárast með laxinum

Einfalt salat var með matnum, nokkur lauf af ísbergssalati, hálf rauð papríka í bitum, einn niðurskorinn plómutómatur og nokkur rauðvínber skorinn í helminga.

Ljúfeng og einföld máltíð.


No comments:

Post a Comment