Thursday 10 May 2007

Einfaldur tex-mex matur á Eurovision

Það er hálfeinkennilegt en Eurovision er svona eins og jólin ættu að vera. Á Eurovisiondögum er alltaf skemmtileg stemming - næstum svona hátiðarbragur - sem fjölskyldan sameinast í kringum einhverja skemmtun. Á jólunum eru kaupmenn hins vegar búnir að eitra stemminguna með  endalausum auglýsingum og tilboðum - Jólin eru hálfeyðilögð af þessum sökum. Maturinn góður en aðdragandinn heldur dapurlegur og ekki er eftirleikurinn betri með jólagleði 1. febrúar þegar Jóla-VISA minnir á sig.

Á mínu heimili hefur alltaf verið fjör á Eurovisionkvöldum - þessi undankeppni er hinsvegar dáldill stemmingarbani þar sem undankeppnakvöldið (þar sem við erum annað árið í röð) er á virkum degi og vinna daginn eftur - takmarkar allverulega það magn rauðvíns sem hollt er að innbyrða. Maður var nú stoltur af okkar manni á sviðinu. Þegar maður horfði á Eirík gat maður vel ímyndað sér að Íslendingar hafi lítið breyst á 1000 árum - maður sér alveg fyrir sér rauðhærðan víking klæddan í leður að herja á Evrópskar þjóðir. Vona að lagið komi okkur áfram.

Við erum að fara í brúðkaup á laugardaginn næstkomandi - þetta verður massívur dagur - Kosningar, Evróvision og brúðkaup Daggar og Gríms vinafólks okkar. Maður sér nú alveg fyrir sér að kosningarnar eigi alveg eftir að fara alveg í vaskinn. Fólk á eftir að standa inn í kjörklefunum og reyna að gefa Framsókn 2 stig, Frjálslyndaflokknum 4 stig, Sjálfstæðisflokknum 6 stig, Vinsti grænum átta, Samfylking 10...þið skiljið hvert ég er að fara - fjölda auðum/ógildum á aukast töluvert.

 Jæja hvað um það. Það er Evróvisionkvöld í kvöld og fólkið heima var í stemmingu fyrir góðan en fljótlegan mat. Mín fjölskylda hefur lengi verið að gera tex-mex mat - pabbi byrjaði á þessu fyrir löngu síðan og ég hef lengi verið að gera þennan mat. Ég hef áður verið með færslu - mexíkósk terta - sem var fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þessi er ennþá einfaldari.

Tex-mex matur á Eurovision

Að þessu sinni notaði ég kjúklingabringur. Fjórar kjúklingabringur eru pennslaðar með hvítlauksolíu, saltaðar og pipraðar og svo Pimenton (sætur chillipipar) sáldrað yfir. Grillað á heitu grilli þar til kjarnhiti hefur náð 82 gráðum. Skorið svo í þunnar sneiðar og borið fram á flötum disk.

Með þessu var einfalt guacamóle - 1 avókadó, 1/2 rauðlaukur, 3 tómatar, 2 hvítlauksrif og safi úr einni límónu er blandað saman í matvinnsluvél og rifið saman í nokkur mínútubrot þar til vel blandað. Saltað, piprað og sætt eftir þörfum.

Jafnframt var svona tómatsósubræðingur (varla að maður þori að segja frá þessu - þetta var svo aðkeypt eitthvað). Einn krukka af El Miriachi salsasósu, 1 dós af niðurskornum tómötum,  var hellt saman í pott - bragðið jafnað með salti og pipar og hitað upp.

Með þessu var ansi fjölbreytilegt hráefni til að raða á Burritokökurnar (keyptar tilbúnar - og hitaðar á grillinu). Niðurskornir tómatar, græn paprika, rauð paprika, rauðlaukur, kóríander, niðurskornir sveppir, ferskt grænt salat, niðurskorin agúrka, rifinn ostur, refried baunir, gular baunir, og sýrður rjómi.

Þessu er svo öllu raðað saman og vafið inn í Burríto kökur - borðað með höndunum - og skolað niður með köldu öli. Góður matur sem vel hæfir þessu tilefni - Evróvision.

 

 

 


No comments:

Post a Comment