Wednesday 23 May 2007

Pasta tricolore á fallegu vorkvöldi

Þessi uppskrift er samruni tveggja meiriháttar rétta. Annars vegar ítalska tricolore - basillauf, tómatur, ferskur mozzarellaostur, góð jómfrúarolía, salt og pipar og svo ein af uppskriftum Nigel Slater úr bók hans - the kitchen daires - bók sem ég eignaðist í fyrra og hefur reynst mér afar vel. Nigel skrifar frábærar bækur og það sést langar leiðir að hann er nautnaseggur fram í fingur góma - hann er svona karlkyns Nigella Lawson.  Uppskriftirnar hans eru einfaldar og gott hráefni látið bera uppi réttinn.

 Tricolore er svona réttur þar sem einfaldleiki er í algeru fyrirrúmi. Basil er uppáhalds kryddið mitt, ilmurinn, bragðið, áferðin - I love it! - djöfull er einfalt að gleðja mig!!! Þessi réttur verður sérstaklega góður þegar hann er gerður eins og á að gera hann - með buffalamozzarellaosti - en hann fær maður ekki hér á landi amk ekki svo ég viti til. Sá er mikið bragðmeiri, mýkri...svona flaueliskenndari heldur en íslenskur mozzarellaostur sem er frekar stamur, og bragðlítill - en honum má alveg bjarga með góðri jómfrúarolíu, Maldon salti og nýmöluðum pipar.

Ég hef áður bloggað um réttinn hans Nigels - en það var einhverntíma í vetur - sennilega í janúar. Hann er alveg frábær. Ég eldaði hann fyrst í fyrra þegar ég var í feðraorlofi - eftir uppskrift úr matardagbókinni hans - gerði hann nærri því á sama degi og hann gerði sinn. Flottur.

Pasta tricolore

Þessi réttur er mjög einfaldur - bragðið af honum alveg frábært og það sem góða er að það tekur lítin tíma að elda hann. Þennan rétt hentar samt best að elda að sumri til þegar tómatauppskeran stendur sem hæst. 

Eitt kíló af af íslenskum plómutómötum eru skornir niður og raðað í eldfast mót. 4 msk jómfrúarolíu er hellt yfir og 8 smátt söxuðum hvítlauksrifjum dreift yfir. Saltað með Maldon salti og nýmöluðum svörtum pipar. Tómtötunum og hvítlauknum er velt rækilega upp úr olíunni. Ofn er hitaður í hámark og kveikt á grillinu. Eldfastamótið sett ca 15 cm frá og eru tómatarnir grillaðir í nokkrar mínútur þar til þeir taka lit. Sumir verða gullbrúnir, sumir örllítið dekkri. Eldfastamótið er tekið út og tómatarnir stappaðir með gaffli - misvel. Einum smátt skornum ferskum mozzarellaosti, 30 rifnum basilikulaufum og 1/2 búnti af niðurskorinni ítalskri (flatleaf) steinselju er blandað saman við og 4 msk af rjóma sömuleiðis. Saltað og piprað eftir smekk. Hrært vel og sett aftur í ofninn í nokkrar mínútur.

Gott pasta (Fabrizzia di Rustichella) er soðið í miklu söltuðu vatni skv leiðbeiningum. Þegar pastað er tilbúið - la dente - er vatninu hellt frá og pastað sett saman við tómatsósuna og blandað vel saman þannig að pastað er vel þakið af sósu. Parmisanostur er raspaður yfir og leyft að bráðna.

Með þessu var ágætt salat; nokkur græn blönduð lauf, tveir niðurskornir tómatar, þrjár niðurskornar radísur, nokkrir skafningar af primadonnaosti, nokkrum ristuðum graskersfræjum sáldrað yfir. Dressingin er einföld; smá jómfrúarolía, salt, pipar og nokkrar línur af crema di balsimico.

 Borið fram með góðu brauði - helst heimagerðu foccacia, með ólívum, góðu salati. Mikilvægt er að hafa nóg af parmesan osti - og ekki sakar að fá sér gott rauðvín með þessu.


No comments:

Post a Comment