Saturday 12 May 2007

Hunangsdijon marineraðar kjúklingabringur

Grillmatur er í eiginlega í eðli sínu einfaldur matur, en undirbúningurinn er misflókinn. Ég kom seint heim í dag til að undirbúa kvöldmat, bæði vegna þess að við hjónin vorum að fá okkur nýjan bíl og einnig fór ég í seinna fallinu í skvass.

Kom heim um að verða sjö og þá var allt í fullu gangi í eldhúsinu. Mágkona mína og svila og sonur þeirra komu í mat - jæja - svilkona mín eiginlega eldaði matin með aðstoð Snædísar konunnar minnar. Við höfðum ákveðið að hafa kjúklingabringur í matinn vegna þess að við keyptum of mikið fyrir gærkvöldið og áttum afgang.

Við höfum lengi verið að gera þennan rétt. Við gerðum hann fyrst fyrir nokkrum árum síðan uppi í sumarbústað þegar við höfðum fyrir klúðurs sakir gleymt talsvert af hráefni og vorum að reyna að redda málunum. Þetta heppnaðist vel og síðan þá hefur þessi matur verið í talsverðu uppáhaldi - ekki bara vegna bragðsins heldur einnig svona nostalgíu element síðan við vorum þessa helgi í bústaðnum.

Hungansdijon marineraðar kjúklingabringur

Átta kjúklingabringur eru lagðar í marineringu sem er gerð úr hálfri krukku af dijon sinnepi og 4 msk af góðu hunangi. Látið liggja í þessu um stund. Svo eru bringurnar grillaðar á heitu grilli þar til kjarnhiti er orðin 82 gráður. Saltaðar og pipraðar á meðan þær eru á grillinu.

Með kjúklingum var köld sýrðrjómasósa sem var gerð úr 1 1/2 dós af 10% sýrðum rjóma, 1/2 búnti af niðurskornu basil, 2 msk góðu hlynsírópi, 1/2 tsk af oregano, 1/2 niðurskornum chillipipar og hálf smátt niðurskorin agúrka. Saltað og piprað eftir smekk.

Sætar kartöflur, kartöflur og eggaldin var skorið niður í skífur, pennslaðar með hvítlauksolíu, saltaðar og pipraður og grillað þar til stökkar.

Með þessu var einnig ferskt salat; græn lauf, niðurskorin papríka, niðurskorin akúrka, mozzarellaostur, olía og balsamicedik.

Borið fram með góðu hvítvíni. Gott kvöld - heitt á svölunum - rétt svona til að syrgja tapið í Evróvision.


No comments:

Post a Comment