Sunday 4 May 2014

Frábært súkkulaði pannacotta með hindberjacoulis og ferskum berjum

Það hefur verið gaman að sjá þættina fara í gang og heyra kveðjur frá vinum og ættingjum. Ég vona að sem flestir hafa gaman af þáttunum! Ég er sjálfur búinn að fá að sjá fjóra þætti og hlakka mikið til að sjá restina. Það er sérstaklega gaman að sjá hvað Gunnhildi og Ómari tekst vel til með leikstjórn og myndatöku - en ég er nú kannski dáldið hlutdrægur, eða hvað?

Annars hafa bókaskrifin gengið vel síðustu vikurnar og hér hefur verið eldað nótt sem nýtan dag. Það er rosalega gaman að hafa svona verkefni fyrir stafni og hafa alltaf eitthvað til að hlakka til að gera. Ég er á leiðinni í stutt frí aftur til að leggja lokahönd á verkið og mun síðan snúa aftur í mína venjulegu dagvinnu - sem læknir á gigtardeildinni. Einhver sagði einhvern tíma - "if you want something done, ask a busy man" - og ég hef, sko, nóg fyrir stafni um þessar mundir! 

Ég veit að það var viðtal við mig í Smartlandinu fyrir nokkrum dögum þar sem ég nefndi að maður ætti helst að forðast sykur, en stundum er í lagi að gera leyfa sér að syndga smávegis. Bara ekki of oft! Sagði ekki einhver að allt væri gott í hófi! Veðrið hefur leikið við okkur í Lundi síðustu daganna og mér hefur gefist tækifæri til að elda úti á palli. Það er ótrúlega ljúft - grísirnir að leika sér í garðinum á meðan maður saxar niður grænmeti og sýslar eitthvað við grillið. Sú yngsta, Ragnhildur Lára, vill eiginlega bara vera úti og uppáhaldið hennar er að leika sér á trampólíninu. Það er gott net umhverfis það svo það er engin hætta á að hún detti framaf. Og þarna getur hún svo sannarlega unað sér vel. Hún er orðin lunkin að hoppa sjálf og svo fara í kollhnís! 

Frábært súkkulaði pannacotta með hindberjacoulis og ferskum berjum

Þetta er dásamlegur eftirréttur. Það má alveg auka magn súkkulaðsins í eftirréttinum og auðvitað velja hvaða súkkulaði sem er – jafnvel bragðbætt súkkulaði. Ég gæti t.d. vel ímyndað mér að þessi réttur myndi njóta sín vel með súkkulaði, bragðbættu með appelsínu – en þá þarf kannski að huga aðeins að sósunni sem höfð er með réttinum.

Fyrir sex

200 gr súkkulaði
5 dl rjómi
3 dl nýmjólk
1 vanillustöng
150 gr sykur
5 gelatínblöð


1. Bræðið súkkulaðið í potti.
2. Hellið rjómanum, mjólkinni og sykrinum samanvið og blandið vel saman.
3. Skerið vanillustöngina eftir miðjunni og skafið vanillufræin út með hníf og setjið saman við súkkulaðimjólkina ásamt sjálfri vanillustönginni. Hitið að suðu.
5. Leggið gelatínblöðin í kalt vatn og látið liggja þar þangað til að suðan er komin upp á súkkulaðimjólkinni.
6. Þegar suðan er komin upp, takið þið pottinn af hitanum og látið kólna í nokkrar mínútur.
7. Takið gelatínblöðin upp úr vatninu og kreistið vatnið úr þeim áður en þeim er svo blandað saman við súkkulaðimjólkina.
8. Hellið súkkulaðimjólkinni í ákjósanleg form.Hindberjacoulis

Coulis er tegund af ávaxta- (eða grænmetis) sósu sem er gerð er úr maukuðum ávöxtum sem er síðan þrýst í gegnum sigti til að fjarlægja öll fræ og misfellur. Niðurstaðan er þykk og glansandi sósa sem er sérstaklega ljúffeng.

250 gr frosin hindber
175 gr sykur
200 ml vatn

1. Setjið berin, sykurinn og vatnið saman í pott og hitið að suðu.
2. Lækkið undir og látið krauma og leyfið sósunni að sjóða niður um þriðjung.
3. Hellið sósunni í gegnum sigti og kælið niður. Nú er, sko, kominn tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment