Sunday 26 March 2017

Ljúffenga skúffukakan hennar Röggu - ný kynslóð í eldhúsinu, allir geta bakað!



Þegar ég var lítill, ætli ég hafi ekki verið um átta ára gamall, lærði ég að gera skúffuköku ekki svo ólíka þessari. Það var hún móðir mín, Lilja María, sem kenndi mér að gera uppskrift af skúffuköku sem að vissu leyti tryggðu mér sess í annars nokkuð stormasömum grunnskólabekk í Æfingaskólanum (núna Háteigsskóli). Það var nokkuð auðveld leið inn að hjörtum bekkjarfélaga minna að geta auðveldlega snarað fram skúffuköku að loknum skóladegi.

Sú uppskrift er svo sannarlega ljúffeng en í henni er óheyrilegt magn af sykri! Ég hef greint frá henni áður á blogginu, en þá var það elsta dóttir mín, Valdís, sem bakaði hana í það skiptið, sjá hérna. Ég hef því í gegnum árin verið að prófa uppskriftir sem innihalda minni og minni sykur. Ég byrjaði á því eftir að einhver lesandi benti mér á þá augljósu staðreynd að kakan innihélt hvorki meira né minna en 450 g af sykri. Sem er fáranlega mikið.

Hér er því tilraun til að minnka strásykurinn og setja eitthvað annað sem gefur sætu, í þetta skipti meira af dökku súkkulaði sem er skömminni skárri en hvítur sykur. Auðvitað má skipta konsúm súkkulaði út fyrir en dekkra súkkulaði - en þessi, eins og margar aðrar uppskriftir eru í stöðugri þróun.

Og það er gott að koma heim eftir göngutúr í Elliðaárdalnum og gæða sér á volgri skúffuköku og mjólkurglasi, eða hvað?

Ljúffenga skúffukakan hennar Röggu - ný kynslóð í eldhúsinu, allir geta bakað!

375 g hveiti
150 g sykur
2 tsk lyftiduft
1 tsk natron
3 msk kakó
1 1/2 tsk salt
300 g konsúm súkkulaði
200 g smjör
3 egg
1 eggjarauða
3,5 dl mjólk

fyrir kremið

80 ml rjómi
100 g konsúm súkkulaði
1 msk smjör


Fyrst er að blanda þurrefnunum saman; hveitinu, sykrinum, saltinu, natróni og lyftidufti í skál.


Ragga Lára er að læra að brosa fyrir myndavélar. Bætið svo kakóinu saman við.


Bræðið svo smjörið og súkkulaðið saman í potti.


Til að gera kökuna aðeins ríkari notaði ég þrjú egg og eina eggjarauðu tilviðbótar.


Röggu Láru tókst að blanda þessu vandræðalítið saman við ásamt mjólkinni og súkkulaðibráðinni. 


Hrært vandlega saman og svo sett í smurða ofnskúffu.


Kakan var bökuð í 30 mínútur við 180 gráður.


Kremið var einfalt. Bræddi súkkulaði í rjómanum og blandaði svo smjörinu saman við. Til að kæla það niður hraðar (Ragga var orðin óþreyjufull að smakka) var kremið kælt útí í snjónum.


Ragga Lára var alveg á því frá upphafi að það þyrftu að vera hvít korn á kökunni því þá væri hún best.


Kakan varð safarík og ljúffeng. Mikið súkkulaðibragð. 


Mér tókst að fá dóttur mína til að staldra við í smástund til að fá að smella mynd af henni með kökuna. Henni lá á að smakka.



Enda er leikurinn gerður til þess.

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment