Saturday 19 June 2010

Grasekkill bloggar: Spaghetti con burro e salvia e un bicchiere di vinobianco

IMG_0531

Eins og stendur er ég grasekkill. Snædís og börnin mín fóru til Íslands núna á miðvikudaginn heilli viku á undan mér! Ég er með hefðbundna afsökun - ég þurfti að vinna. Mér bauðst í vor að vinna aftur í Helsingborg í íhlaupum sem nokkurskonar uppdubbaður sérfræðingur. Það var erfitt að hafna tilboðinu og í staðinn fékk ég ekki sumarfríið sem ég hafði hugsað mér að taka - en það er nú gaman í vinnunni. Nóg er  af krefjandi verkefnum!

Sjálfur kem ég á til Íslands núna í næstu viku og ég er farin að hlakka mikið til. Ég var á Íslandi seinast í október í fyrra og gafst þá tækifæri til að hitta vini og ættingja og  til að bregða mér á rjúpnaveiðar. Núna er aðeins annað upp á teningnum. Yndislegu foreldrar mínir, Lilja og Ingvar, ætla að halda upp á sextugs afmælið sitt upp í Kjós. Mamma varð sextug í janúar og pabbi verður  sextugur í nóvember. Ég er alveg viss um að þetta verður glæsileg veisla. Ég fæ að aðstoða kokkinn og svo var ég fengin til að sjá um veislustjórn. Vonum það besta.

Ég held annars að ég hafi aldrei verið svona lengi einn heima síðan að ég gifti mig. Ég hef nokkrum sinnum farið einn í hérað - en það er einhvern vegin öðruvísi. Það er tómlegt að vera einn í húsinu. Ég ætla samt að reyna að vera duglegur. Elda góðan mat - fyrir einn. Það er í raun að mörgu að hyggja - garðurinn er fullur af verkefnum: slá grasið, reyta arfa, vökva, taka til í bílskúrnum og svo þrífa húsið. Ég verð ekki iðjulaus.

Spaghetti con burro e salvia e un bicchiere di vino bianco

Þessi réttur er eins einfaldur og hugsast getur. Hann er fullkominn fyrir þann sem er að elda fyrir einn!

Fyrst er að rölta út í garð (eða búð) með skæri og klippa nokkur salvíulauf af búntinu sem vex í einu af kerjunum mínum. Síðan er bara að skella sér inn í eldhús og setja yfir vatn í stórum potti. Salta vel. Sjóða handfylli af pasta þar til al dente - Það er sérstaklega mikilvægt að pastað sé eldað al dente (aðeins undir tönn), það þarf að klára sína eldun í pönnunni og hafa getu til að sjúga upp smjörið/olíuna - þannig að það má alls ekki vera alveg mettað vatni.

IMG_0532


Fimmtíu grömm af smjöri og skvetta af jómfrúarolíu er hitað á pönnu þangað til að smjörið freyðir og tekur örlítið að brúnast - þó ekki brenna. Þá er salvíunni hennt útí og henni leyft að "djúp" steikjast í smjörinu í nokkrar sekúndur. Þá er að bæta pastanu á pönnuna og blanda vel saman þannig að pastað hjúpist vel olíunni. Saltað vel og piprað. Fært yfir á disk og nóg af parmaosti rifin yfir heitt pastað. Njóta strax.

Þar sem ég var einn heima þá var ekkert annað að gera enn að fá sér hvítvínstár með. Eins og oft áður þá átti ég ágæta búkollu í ísskápnum - Drostdy Hof Chardonnay Voigner sem mér finnst vera alveg ansi vel lukkuð búkolla. Þetta er ekki flókið vín - langt í frá - en þetta er skarpt, þurrt, ávaxtaríkt og jafnvel aðeins smjörkennt - alveg eins og Chardonnay eiga að vera. Frábært til að fá sér tár þegar maður er hálfeinmanna einn heima!

IMG_0533

Bon appetit!

5 comments:

  1. Kolbrún Sigurðardóttir21 June 2010 at 15:17

    Þessi einfaldi réttur er lostæti (átti að vísu ekki hvítvín en ískalt vatn dugði vel í hádeginu;) - takk fyrir að kenna mér að matreiða salvíu á þennan hátt - snilld ;)
    Sumarkveðja úr Leirársveit frá "aðdáanda" :)

    ReplyDelete
  2. Hildur Guðný25 June 2010 at 20:00

    En skemmtilegt að rekast á þig gamli skólabróðir.... ég var að "gúggla" salviu, ég á svo mikið af henni í garðinum og kann barasta ekkert á hana.... og upp kemur þessi síða.
    Næst á dagskrá er að prófa réttinn, hljómar vel.

    Kv. Hildur Guðný

    ReplyDelete
  3. [...] uppskrift er mjög einföld og ótrúlega góð. Smellið hér og njótið! ← [...]

    ReplyDelete
  4. Gerði skv. leiðbeiningunum og fór í búðina að klippa salvíu, fæ víst aldrei að koma í Føtex aftur :o(
    En takk fyrir æðislegt blogg, það er alltaf einhver snilld hér inni fyrir botnlausa maga ;)

    ReplyDelete
  5. Ragnar Freyr Ingvarsson30 July 2012 at 21:51

    Sæll Júlli

    Takk fyrir heimsóknina! Njóttu vel!

    mbk, Ragnar

    ReplyDelete