Tuesday 8 June 2010

Gómsæt ofnbökuð þykkvalúra (lemon sole) með nýjum kartöflum, salati og hvítvínstári

IMG_1677


Erum með frábæra gesti frá Íslandi um þessar mundir. Vigdís og Bassi vinir okkar og yndisleg dóttir þeirra Úlfhildur Ragna komu í heimsókn á föstudaginn var og verða hjá okkur í viku. Við erum mikið búin að hlakka til þessarar heimsóknar. Vigdís á alltaf sérstakan sess í hjörtum okkar hjóna því án hennar hefðum við aldrei kynnst. Við Vigdís urðum vinir í menntaskóla og hún kynnti mig síðar fyrir æskuvinkonu sinni, elskunni minni, Snædísi. Kann ég henni bestu þakkir fyrir - enn þann dag í dag!

Við elduðum góðan mat á föstudaginn í glampandi sólskini - grilluðum nautasteik og gerðum bernaise sósu með fáfnisgrasi úr garðinum - gerðu úr íslensku smjöri og skánskum eggjum. Á laugardaginn skelltum við okkur í  ferð um Skán, fengum lánaðan bíl hjá nágrönnum okkar og keyrðum til Simrishamn, þaðan í gegnum  Brantevik og stoppuðum síðan á Kylsstrand rétt austan við Skillinge á suðaustur hluta Skánar. Þar vorum við næstum ein á ferðinni - einstaka hræða gekk framhjá. Sólin skein og ljúfur gustur blés yfir okkur frá Eystrasaltinu. Konurnar okkar sváfu í sandinum á meðan við strákarnir lékum við börnin í sandinum. Dásamlegt alveg!  Um kvöldið grilluðum við flatbökur og drukkum rauðvín úti á palli. Á sunnudaginn drösluðum við okkur framúr og keyrðum á markað í Veberöd. Þar var mikið af drasli, en inn á milli má finna ýmsar gersemar. Við hjónin keyptum gamaldags upptrekta klukku til að hengja á vegginn inn í stofunni og síðan fann ég skál - sennilega vaskafat - til að hafa undir ávöxti í eldhúsinu - skálin er frá Rörstrand - kannski 30 ára gömul. Um kvöldið grilluðum við Bjäre-kjúkling með bjórdós í rassinum með rjómasósu og baguette.

Í gær var svo  mánudagur og þarf að byrja að greiða fyrir syndir helgarinnar. Og þá finnst mér sæmandi að hafa fisk. Ekki satt? Eins og ég nefndi áður þá var búið að vera svo góð helgi að við urðum að hafa fisk. Ekki að það að elda fisk sé einhver kvöð - hvað þá einhver refsing fyrir syndir helgarinnar. En það er samt alltaf einhver spartanskur fílingur að elda fisk. Eitthvað úr fortíðinni. Kannski var það ýsan sem hér forðum sem risti þessar tilfinningar í mig. En hvað um það. Fiskur er góður og hreinsandi og þannig hlýtur hann að reiknast á móti öllu öðru. Hann smakkast líka oft betur með hvítvínstári og þannig friðar maður sálina enn frekar.

Gómsæt ofnbökuð þykkvalúra (lemon sole) með nýjum kartöflum, salati og hvítvínstári


maturundirbundingur


Þykkvalúra heitir á ensku lemon sole og er algengur fiskur í Norður Evrópu. Ég hef fundið margar uppskriftir í bókum Rick Stein með ýmsum tegundum skyldum þessum flatfisk.

Ég hafði keypt mikið af fiski nýverið frá fyrirtækinu Ishavsexpressen - þeir selja mikið af fiski frá Íslandsmiðum og reynar víðar. Ég keypti þorkshnakkastykki frá Íslandi, skötusel og síðan þessa lúru frá Noregi.

Fyrst skar ég 6-8 vorlauka, 2 skarlottulauka, 2 heilagan hvítlauk og setti í ofnskúffu. Síðan lagði ég  fiskinn yfir. Síðan setti ég meiri lauk, ferskt oregano, ferska steinselju, niðurskorna kirsuberjatómata, svartar olífur sem við keyptum í delicatessu í Simrishamn, skvetti síðan olíu yfir, hvítvíni, sítrónusafa, saltað og piprað. Bakað í blússheitum ofni í 12-15 mínútur.

Gerðum kalda hvíta sósu með úr sýrðum rjóma, safa úr hálfri sítrónu,  1-2 hvítlauksrif, smá graslauk, 1 tsk síróp og salt og pipar. Við vorum einnig með ný uppteknar kartöflur frá Brandby. Moldin hreinsuð af. Soðin. Í skál. Olíu sáldrað yfir salt og pipar og svo nóg af fersku dilli. Við vorum einnig með salat með lambakáli, papríkum, tómötum og haloumiosti -sem er í miklu uppáhaldi.

IMG_1737


Og Semifreddo í desert. Þetta gerði Vigga eftir einhverri góðri uppskrift. Fyrst eru 300 gr af heslihnetum bakaðar í ofni í 5 mínútur til að ná af þeim hýðinu. Síðan er 200 gr af sykri ásamt 4 msk vatni hitað á pönnu þar til maður er kominn með ljósbrúna karamellu. Þá er hnetunum bætt saman við. Hrært - hellt á smurt  fat og látið kólna. Þegar kaldar er helmingurinn hakkaður í matvinnsluvél.

Ein vanillustöng er hreinsuð fræum sínum og hrært saman við 50 gr af sykri og fjórar eggjarauður. Hvíturnar eru þeyttar þar til þær fá á sig hvíta toppa. Síðan er hálfum lítra af rjóma þeyttur. Þá er rjómanum, eggjarauðunum með vanillunni og þeyttar hvíturnar hrært varlega saman - passa sig að slá ekki loftið úr hvítinum og þvínæst er hnetunum blandað saman við - bæði mylsnunni og grófu hnetunum. Sett í form og sett í kæli. Borðað með hindberjum tveimur klukkustundum síðar.

IMG_1744


Með matnum drukkum við hvítvín - bara úr búkollu. Það þarf ekki að vera neinn lúxus á mánudagskvöldum. Ég hafði sótt nokkrar kusur í Danmörku um daginn. Við drukkum Drostdy-Hof Chardonnay Voigner úr búkollu. Þetta er vín frá Suður Afríku. Þetta er ljómandi gott vín á búkollu - mildur gulur litur, ávaxtaríkt og fremur þurrt. Ísskalt og frískandi.

Virkilega góður kvöldverður með góðum vinum.

2 comments:

 1. Sæll, er þessi réttur bara með lúrunni eða öllum þessum fiskum sem þú taldir upp hér að framan? Einnig: hvaða fiskur, sem fæst á Íslandi, líkist Þykkvalúru?

  ReplyDelete
 2. Sæl Kef
  Ég myndi geta hugsað mér að nota rauðsprettu eða smálúðu. Einhvern flatan fisk sem eldast hratt!
  Svo er bara að rabba við fisksalann - þeir eru margir hverjir helvíti fróðir.
  Ragnar

  ReplyDelete