Tuesday 19 August 2008

Syndagreiðsla: Stórgóður ofnbakaður lax með kapers, fetaosti og rósahvítlauk, léttu salati og hrísgrjónum

laxundirbúningur Komum frá Frakklandi í morgun. Í stuttu máli - MÖGNUÐ FERÐ! - hef verið að vinna að færslu sem ég mun setja á netið á næstunni - Ferðasaga nautnaseggs um matgæðingaland - ætli hún verði ekki að nokkrum færslum í máli og myndum. Þetta var ótrúlegt. Maður skilur núna ýmislegt um Frakka - sumir segja að þeir séu hrokafullir, aðrir segja að þeir setji sig á háan hest - kannski myndum við gera það líka ef maður gerði svona margt svona rosalega vel - Sagan, listir, arkitektúr, vínið og maturinn! Þvílíkt og annað eins.

Jæja, nú er maður kominn á Frónið, en rétt aðeins til að kveðja. Við hjónin ákváðum að ég og Valdís færum út þann 1. sept. næstkomandi og undirbyggjum komu Snædísar og Villa sem myndu koma viku síðar. Þá fengi Snædís aðeins lengri tíma til þess að klára ritgerðina sína - mastersverkefni í sálfræði. Þetta er allt að gerast - flutningurinn allur að bresta á. Sænska lækningaleyfið barst á meðan ég var úti og Villi fékk inngöngu í Anne Garden leikskóla sem er við hliðina á skólanum hennar Valdísar. Þetta verður raunverulegra með hverjum deginum.

laxtilbúinn Ég var með bleikjurétt á blogginu seinast. Stundum er þetta bara svona. Þessi réttur var hugsaður til að stangast á við allt decadensið sem gekk á í Frakklandi - ostar, smjör, salt, vín, meira vín, svo aðeins rauðvín, foie gras, steikur, grísir, kjúklingur, pylsur - nefndu það. Þessi réttur innihélt ekkert smjör - engan rjóma. Bara lax, reyndar smá feta ost, en að öðru leyti mjög hollur. Fór í fiskbúðina í Vogunum - þar var mikið að gera enda mánudagur og ljóst að fleiri en ég voru á því að fiskur væri það rétta á diskinn í dag! Þetta er virkilega aðlaðandi búð - því miður er meira úrval af krydduðum fiski en ferskum - ég er ekki hrifinn af því að láta krydda matinn minn fyrir mig.

Syndagreiðsla: Ofnbakaður lax með kapers og fetaosti, léttu salati og hrísgrjónum

c_users_ragnar_freyr_pictures_lax_me_kapers_lax_closup.jpg Eins og ég segi nær alltaf - þetta var einfalt. Fersk falleg laxaflök eru lögð á bökunarpappír eða álpappír og pensluð með góðri jómfrúarolíu. Þá er handfylli af kapers dreift yfir, og svo stöppuðum fetaosti og svo örþunnum sneiðum af hvítlauks - Ail de Rose frá Lautrec - besti hvítlaukur í heimi - í þessum bæ í Suður-Frakklandi er árlega haldið hvítlauksfestival. Þetta er bústin hvítlaukur - með rauðum pappír utan á - lyktar yndislega (það er náttúrulega ekki nauðsynlegt að nota þennan hvítlauk en það er ábyggilega betra). Þá er saltað og piprað og örlítið af hvítvini er sáldrað yfir fiskinn. Bakað í ofni í 15 mínútur við 180 gráður.

Borið fram með fersku salati; klettasalati, þunnum sneiðum af kúrbít, kirsuberjatómötum, skornum í helminga, líka smátt skorin papríka, agúrka, ristuð graskersfræ, niðursneidd basillauf og svo var vinagrettu dreift yfir í lokin - olía, salat balsamikedik, 1 Ail de Rose hvítlauksrif, 1 tsk gróft Dijon sinnep, salt og pipar. Hrist vel saman og dreift yfir.

Gerði einnig létta sósu - hálf dós af sýrðum rjóma, hálf jós hrein jógúrt, afgangurinn af vinagrettunni og svo smá hunang. Einnig vorum við með smábrauð og svo hrísgrjón með matnum.

Með matnum nutum við tveggja prýðisvína - annað var ég að prófa í fyrsta sinn, Labouré-Roi Chablis Premier Cru Vaillons frá því 2006 - virkilega gott vín, með léttum sítónu og eplakeim sem ég keypti í fríhöfninni. Langt en milt eftirbragð. Það fær góða einkunn á Wine Spectator um 89 punkta. Það seinna er klassíker sem ég hef oft bloggað um áður, Wolf Blass Presidents Selection Chardonnay sem ég fíla virkilega vel. Það er smjörkennt og ávaxtaríkt.

Við vorum á einu máli um að þetta var ákaflega vel heppnaður laxaréttur - að mínu mati einn sá besti sem ég hef matreitt. Hvet ykkur til að prófa hann.

matarborðið


No comments:

Post a Comment