Thursday 23 June 2016

Dásamlegar andabringurúllur með kúrbít og sætum kartöflum

Ég og bróðir minn sátum á nærlægum pöbb í Brighton í gær og fylgdumst með leiknum. Allir gestir knæpunnar héldu með Íslandi og sumir höfðu meira segja veðjað á niðurstöðu leiksins! Skemmtilegast var að sjá að presturinn hoppaði hæð sína þegar íslenska liðið skoraði mark á lokasekúndunum og tryggði okkur sigurinn. Mikið rosalega var gaman að fylgjast með leiknum!

Ég verð þó að játa að ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af fótbolta en á stundum sem þessum er erfitt annað en að hrífast með - og þó að íslenska liðið eigi allan heiður skilinn fyrir frammistöðuna finnst mér eiginlega skemmtilegast að fylgjast með myndum af íslensku aðdáendunum - frábærar myndir af glöðu, samheldnu fólki að syngja saman - það nær sérstaklega til mín! Maður verður stoltur að tilheyra þessum hópi!

Við hjónin hlökkum mikið til helgarinnar. Við erum á leiðinni til Íslands þar sem Snædís er að fara að sjá húsið okkar í fyrsta sinn með eigin augum. Við ætlum að reyna að mála neðri hæðina og vonandi fáum við gáminn okkar á mánudaginn og getum tæmt hann inn í húsið áður en við setjumst niður yfir fótboltaleiknum!

Þessi uppskrift er úr bókinni minni - Grillveislan - og birtist einnig á síðum Morgunblaðsins fyrir rúmum mánuði síðan. Þá gefur það auga leið að maður verður að deila þessu!
 
Dásamlegar a
ndabringurúllur með kúrbít og sætum kartöflum


Andabringur þykja með fínni hráefnum. Þær eru oft eldaðar til hátíðabrigða – en þær henta eins vel á grillið. Látið því ekki hefðbundinn hátíðleika hindra ykkur. Hér er ein leið til að djassa þær aðeins upp. Með því að skera þær langsum í þunna strimla og vefja þær svo upp með grænmeti má létta aðeins á þeim – og kannski gera þær aðgengilegri og jafnvel minna hátíðlegar.

Eins mætti auðvitað gera með kjúkling, kalkúnabringur og gæs. Sleppið ímyndunaraflinu bara lausu. Með þessari ofureinföldu köldu sinnepssósu verður rétturinn ennþá ljúffengari.

Fyrir fjóra

4 andabringur
½ kúrbítur
¼ sætar kartöflur
¼ gulrót
4 tsk dijonsinnep
salt og pipar


Skolið og þerrið andabringurnar og skerið þær með beittum hníf í þunna strimla langsum.
Flysjið grænmetið og skerið í þunnar sneiðar langsum. Leggið andabringusneiðar á skurðarbretti, tvær í lengju. Látið endana mætast þannig að þeir liggi aðeins hvor ofan á öðrum. Smyrjið með þunnu lagi af sinnepi. Leggið grænmetissneiðar ofan á, svo andabringusneið, haldið áfram þar til komin eru tvö til þrjú lög af önd og tvö til þrjú lög af grænmeti.


Rúllið lengjunni upp í vöndul og bindið um þannig að hún haldist í gegnum eldamennskuna. Saltið og piprið.


Endurtakið fjórum sinnum.


Hitið grillið og eldið í þrjár til fjórar mínútur á hvorri hlið á beinum hita og setjið svo til hliðar á grillinu og eldið á óbeinum hita þar til kjarnhiti hefur náð að minnsta kosti 60°C.


Bæti við auka mynd af öndinni á grillinu - bara af því að mér finnst það svo fallegt!


Ég á í erfiðleikum með að þykja þetta eitthvað annað en gullfallegt! 


Besta sinnepssósan sem passar með öllu

Þessi sósa er ekki bara fljótleg, heldur er hún stórkostlega góð. Hún passar mjög vel með ýmsum grillmat - kjúklingi, nautasteik eða jafnvel andabringu!

Þegar verið er að gera einfaldar sósu gildir í raun bara ein regla, að hráefnið sem er notað sé gott. Ég mæli með því að kaupa gott, gróft sinnep, sjálfur er ég afar hrifinn af Edmond Fallot sinnepi frá Dijon í Frakklandi sem hefur veri framleitt síðan 1840.

3 msk majónes
3 kúfaðar msk sýrður rjómi
1 msk gróft sinnep
1 msk hlynsíróp
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar

Setjið majónes í skál og hrærið sýrða rjómanum saman við.
Blandið sinnepinu saman við (það má vel auka magnið).
Smakkið síðan til með hlynsírópi, sítrónusafa, salti og pipar.

Geymist í ísskáp í nokkra daga.


Ég segi það og skrifa - þessi sinnepssósa passar með næstum því öllum grillmat. Ég hef 100% rétt fyrir mér 60% af tímanum! :)



Með mat eins og þessum væri fullkomið að njóta góðs rauðvíns eins og til dæmis þessu frá Chile, Montes Pinot Noir frá 2012. Ég hef lengi verið hrifinn af vínum frá þessum framleiðenda. Þetta er ljúft og gott rauðvín með ljúffengum berjakeim sem passar svona ljómandi vel með öndinni.


Njótið vel!

No comments:

Post a Comment