Friday 17 June 2016

Þjóðlegt og ljúffengt; Moðsoðið kryddlegið lambalæri með rósmarínkartöflum


Síðustu dagar hafa verið annríkir. Um helgina fórum við til Svíþjóðar þar sem við pökkuðum niður föggum okkar og settum í gám. Það hefði ekki verið hægt nema með hjálp góðra vina - það hlýjar manni um hjartarætur að eiga vini sem erum manni innan handar þegar á þarf að halda. Ástarþakkir fyrir alla hjálpina og stuðninginn!

Og við skiljum sátt við Svíþjóð - eins og ég nefndi í síðustu færslu - héðan eigum við gnægð af góðum minningum, höfum eignast fullt af vinum sem við eigum eftir að halda góðu sambandi við - það verður gaman að fá þau í heimsókn og sýna þeim landið okkar.

Ég hlakka meira og meira til að flytjast heim. Þar bíða heilmikið af spennandi verkefnum. Og við fáum líka hjálp frá vinum og vandamönnum við heimkomuna. Mág- og svilkona mín hafa hjálpað okkur að undirbúa húsið í Ártúnsholtinu áður en við komum heim, málað loftið og tekið niður eldhúsið - þvílíkir englar. Tengdamútta sló meira segja grasið í garðinum núna um síðustu helgi. Guðmundur var líka innan handar í niðurrifsstarfssemi í eldhúsinu. 

Fyrir utan að byrja að vinna á Íslandi á Landspítalanum og á Klíníkinni, ætli ég hlakki ekki mest til að útbúa nýja eldhúsið mitt. Það er næstum því 30 fermetrar, opið inn í stofu og svo aðgengi út á pall þar sem ég verð með útieldhús. Ég er búinn að panta borðplötur frá Fanntófell en ég er að láta sérsmíða fyrir mig plötu á innréttinguna og þá sérstaklega eyjuna mína. Við þurftum að kaupa öll raftæki - þar sem öll tæki fylgja húsum í Svíþjóð - og því áttum við ekki nein tæki í nýja húsið. Eftir smá rannsóknarvinnu á netinu ákvað ég að taka alla línuna frá Bosch - ísskáp, frysti, uppþvottavél, háf, örbylgjuofn, spanhelluborð og svo gufuofn sem ég er mjög spenntur fyrir því að prófa. Sýni ykkur græjurnar þegar fram líða stundir. 

Þjóðlegt og ljúffengt; Moðsoðið kryddlegið lambalæri með rósmarínkartöflumÍ grunninn er hér um að ræða gamalkunna en jafnframt frábæra íslenska leið til að elda lambalæri. Moðsuða var gjarnan viðhöfð á heimilum á öldum áður þegar eldiviður var af skornum skammti. Á mörgum heimilum voru moðsuðukassar úr tré þar sem hey, ull, hálmur, fiður, segl eða tjöld voru notuð til einangrunar, eða hvaðeina sem mátti nota til að spara eldiviðinn. Maturinn var settur í einangraðan kassann og kassinn nálægt hitagjafanum. Og svo var bara beðið.

Þessi aðferð er enn einfaldari – lambalærið er umlukt ferskum kryddjurtum, pakkað inn í álpappír, sett beint á kolin og grasþaka lögð yfir. Einfalt.

Fyrir fjóra til sex
1 lambalæri
1 hvítlaukur
1 msk ferskt timían
1 msk ferskt/þurrkað blóðberg
½ msk rósmarín
½ msk majoram
5 msk jómfrúarolía
salt og piparBrjótið álpappírinn saman nokkrum sinnum þannig að hann þoli að liggja á berum kolum.Nuddið lambalærið upp úr olíu og saltið og piprið. „Spekkið“ lærið með hvítlauknum með því að stinga nokkur göt í það með stuttum hníf og troða hvítlauknum í sárið. Leggið þriðjung af kryddjurtunum á álpappírinn og svo lambalærið ofan á jurtirnar. Setjið þriðjung af jurtunum ofan á lærið og síðasta þriðjunginn með hliðunum.Pakkið lærinu vandlega inn og grillið á heitum kolum í 1½-2 klst eftir stærð lærisins. Snúið á hálftíma fresti.


Leggið grasþöku ofan á lærið - og moðsjóðið.

Takið svo lærið af grillinu og látið það hvíla í 30 mínútur áður en þið opnið álpappírinn. Á meðan lambið hvílir blússhitið þið grillið.


Penslið lambið að 30 mínútum liðnum með smáræði af jómrúarolíu, saltið aðeins og brúnið það síðan að utan á funheitu grillinu. Það þarf ekki nema mínútu á hvorri hlið þar sem það er þegar eldað í gegn. Gætið þess að halda vökvanum í álpappírnum til haga og nota í sósuna!

Fyrir rósmarínkartöflurnar

800 g nýjar kartöflur
4 msk góð jómfrúarolía
2-3 greinar ferskt rósmarín
1 hvítlaukur
sjávarsalt og pipar

Rósmarínkartöflurnar


Takið hvítlaukinn sundur í geira, setjið með kartöflunum í eldfast mót (eða álbakka) og veltið upp úr olíunni. Raðið rósmaríngreinum á milli og saltið vel og piprið.  Bakið við óbeinan hita í um klukkustund þar til kartöflurnar eru gullnar að utan.


Það er eitthvað fallegt við þessar kartöflur - nett stökkar að utan, mjúkar, fluffí, að innan. 


Með þessum mat myndi ráðleggja þetta ljúfenga Cabernet Sauvignion frá Chile - Marques Casa Concha frá 2013. Þetta vín passar vel með lambi eins og þessu. Það kröftugur ilmur af berjum og eik, þétt á tungu - með svipuðum tónum og á nefi - mjúkt með ríkulegu eftirbragði. 

Til hamingju með afmælið Ísland! 

Hægt er að finna þessa uppskrift og margar aðrar ljúffengar grilluppskriftir í bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan. 

1 comment: