Thursday 2 June 2016

Keisaraafbrigði á grillinu; kjúklinga- og beikonsalat með sítrónuaioliSumarið er rétt að byrja og spáin lítur vel út. Þó að það sé gaman að grilla allt árið getur það stundum verið ansi krefjandi á veturna - þegar vindurinn kemur úr öllum áttum og kuldinn sækir að. En nú er komið sumar og útlitið fyrir næstu daga er lofandi. Og þá er ekkert annað en að grípa gæsina þegar hún gefst. 

Þessi uppskrift er ótrúlega einföld. Hún varð eiginlega til þegar var verið að róta í ísskápnum á mánudagskvöldið! En sama kvöld viðraði einnig vel til grilleldamennsku. Sól, smá rok - en hægt að finna skjól í garðinum. 

Og uppskriftin sem var höfð til fyrirmyndar var Cesarssalat - en það vantaði eiginlega það helsta til elda það almennilega - þess vegna verður þetta bara kallað keisaraafbrigði. Og fljótlegt var það - en það sem er mikilvægara, það var alveg einstaklega ljúffengt. 

Keisaraafbrigði á grillinu; kjúklinga- og beikonsalat með sítrónuaioli

Hráefnalisti 

Fyrir sex

6 kjúklingabringur
10-12 beikonsneiðar
100 g blandað salat
2 papríkur
300 g tómatar
jómfrúarolía
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar

Fyrir aiolið

2 eggjarauður
1 tsk djion
2 hvítlauksrif
200 ml góð jómfrúarolía
safi úr heilli sítrónu 
handfylli fersk steinselja


Að gera aioli er einfaldara en margur heldur. Og það sem skilur aiolið frá mayjónesinu er í raun bara hvítlaukurinn. Og byrjið á því að hræra eggjarauðurnar, hvítlaukinn, sinnepið og smá salt og pipar saman vandlega þannig að það sé vel blandað og farið að aukast aðeins í rúmmáli. 


Það skiptir máli að blandan sé farin að "taka sig" áður en byrjað er að hella olíunni. Henni er síðan hellt varlega saman við og þeytt af áfergju. Ein eggjarauða getur fituþeytt (emulsify) ansi mikilli olíu, jafnvel meira en einum lítra. Ég setti tvær eggjarauður bara til að gefa aiolíinu meiri fyllingu, gera það ríkulegra.
Ragga Lára, yngsta dóttir mín, lét sig ekki vanta við eldamennskuna - en hún hefur mikin áhuga á því að hjálpa föður sínum í eldhúsinu. Hér sat hún og gaf góð ráð við grillmennskuna. 


Kjúklingurinn er penslaður með jómfrúarolíu, saltaður og pipraður og svo skellt á heitt grillið, brúnaður að utan á báðum hliðum og svo látinn eldast við óbeinan hita til að elda í gegn. 


Svo var bara að steikja beikonið á grillinu. Beikon verður einhvern veginn ennþá ljúffengara á grilli, sérstaklega þegar það er grillað yfir viðarkolum. 


Og það var ekki af verri endanum vínið sem við smökkuðum með matnum. Baron de Ley Tres Vinas frá 2010. Þetta er spánskt Rioja sem er gert úr þremur mismunandi þrúgum. Það er fallega gullið í glasi, ilmurinn heldur eikaður, með þéttum ávexti á tungu, smá vanillu og eik á tungu, með löngu eftirbragði. Ekki skrítið að þessu víni hefur verið vel tekið!


Svo var bara að raða öllu saman. Setja kjúklingabringurnar á salatið á milli niðursneiddra tómata og papríku, dreifa beikoni á milli og svo aioli yfir.

Mánudagsgrillið getur líka orðið að veislu!

Njótið vel!


No comments:

Post a Comment