Saturday 10 November 2007

Pasta Gigolo með heitu brauði og góðu salati

Aftur pastaréttur með fráleitu nafni, en í þetta sinn er það ekki bara úr lausu lofti gripið heldur hefur það einhverja tilvísun í eitthvað sem fyrir er. Hugmyndin af þessum rétti er Pasta Puttanesca sem er frægur pastaréttur og er í fjölmörgum matreiðslubókum. Þessi réttur er svona millileið á milli þess réttar og svo réttar sem ég hef áður skrifað um á blogginu.

Mamma og pabbi voru að bjóða okkur í mat, þau voru eitthvað sein á ferðinni og stoppuðu í Nóatúni og keyptu tilbúinn kjúkling. Eins og áður sagði þá hef ég áður eldað úr tilbúnum kjúklingi, sem er hráefni sem er ansi gott í ýmsa rétti - eins og pastarétt sem þennan. 

Var á vakt á sjúkrabílnum í nótt; vaktin var rólegri en oft áður en samt var svona tutl í gangi - þurftum tvisvar að fara sækja fólk á vinsælan skemmtistað borgarinnar sem hafði lent í einhverjum óhöppum. Þegar maður er ekki sjálfur undir áhrifum er fullt fólk það aleiðinlegasta sem fyrir finnst. Skelfing vorkenni ég fólki sem þarf að umgangast fullt fólk að atvinnu; barþjóna, dyraverði, lögreglumenn, leigubílstjóra og heilbrigðisstarfsfólk á helgarvöktum.

Pasta Gigolo með heitu brauði og góðu salati. 

Þetta er eins einfaldur réttur og hugsast getur. Ég fékk kjúklinginn í hendurnar og reif allt kjötið af beinunum og setti í skál. Fjögur smátt skorin hvítlauksrif eru steikt upp úr 4 msk af hvítlauksolíu, því næst er 1 smátt skornum lauk bætt á pönnuna og steikt þar til mjúkt. Þá er 150 gr. af kirsuberjatómötum skornir í tvennt, 40 svörtum ólívum bætt á pönnuna og steiktir í 1-2 mínútur. Þá er 4 msk af rjómaosti bætt á pönnuna ásamt salti og pipar og blandað vel saman. Kjúklingurinn er svo settur saman við sósuna og þvínæst er einu glasi af hvítvíni, 1 glasi af vatni, 2 msk af fljótandi kjúklingakrafti bætt á pönnuna. 1/3 búnti af ferski steinselju, og 1/6 búnt af smátt söxuðum graslauk bætt saman við og saltað og piprað eftir smekk. 

Gott pasta er soðið skv. leiðbeiningum í söltuðu vatni og þegar pastað er orðið al dente er sósunni blandað saman við. Ferskum kryddjurtum er svo sáldrað yfir ásamt nýrifnum parmesan osti (faður minn skammast alltaf þegar ég nota þetta enska heiti á þennan ost sem ætti auðvitað að heita Parmaostur á íslensku! Einnig gætum við notað ítalska heitið Parmigiano).   

Borið fram með heitu baguette og einföldu salati; grænum laufum, tómötum, papriku, fetaosti með einfaldri salatdressingu úr olíu, balsamik ediki, dijon, salti og pipar.

Með þessu var drukkið bæði ljúfengt hvítvín og Wyndham Estate rauðvín bin 555.

Bon appetit. 


No comments:

Post a Comment