Friday 16 November 2007

Gómsætt Spaghetti Ragnarese (bolognese) með hvítlauksbrauði og rauðvínssopa

Nýjasta blað gestgjafans kom út núna í dag. Ritstjóri blaðsins, Sólveig Baldursdóttir, bað mig í haust að vera með villibráðaveislu fyrir blaðið sem er að koma út núna. Mín var ánægjan. Þetta var alveg stórgaman að vera með þeim í þessu. Ég eldaði fjórréttaða villibráðarveislu og var með foreldra mína, bróður minn og tengdó í mat. Vínráðgjafi var með í ráðum og kvöldið var meiriháttar. Blogga ábyggilega um það síðar.

En þessi færsla fjallar ekkert um það, heldur meiri pasta. Eiginlega allir sem gefa út matreiðslubækur eru með einhverskonar útgáfu af þessum rétt, Spagetti bolognese, í bókum sínum. Aldrei ber þessum bókum saman um hvernig uppskriftin á að vera.  Samkvæmt The Silver Spoon(sem almennt er talað um sem biblía ítalskar matargerðar) er mjög lítið af tómötum í uppskriftinni. Ég nota fullt af tómötum í mína uppskrift þannig að kannski ætti hún að heita eitthvað annað þar sem hún hálfgerður bastarður. Sósan er hinsvegar soðin mikið niður þannig að kjötið fær mikið að njóta sín - ég hugsa hinsvegar að Bolognabúar myndu ekki vilja kenna mína sósu við borgina sína...kannski gætu þeir kyngt henni með nýju nafni...Ragnarese!

Í fyrsta skipti sem ég bauð konunni minni í mat, þá verðandi konunni minni, þá eldaði ég Spaghetti Bolognese (héðan í frá Spaghetti Ragnarese). Hún virtist afar ánægð með mig - hún endaði með því að giftast mér - en sagði mér síðar að þetta hefði ekki verið neitt sérstakt. Ég var náttúrulega niðurbrotinn og hef reynt að þróa betri uppskrift til að gleðja hana. Þetta er í stöðugri þróun og vona bara að henni líki maturinn. Ég held að núna hafi mér tekist að slá í gegn með þennan rétt.

Spaghetti Ragnarese með hvítlauksbrauði og rauðvínssopa.

Einn stór laukur, 2 gulrætur, 2 sellerísstangir og 2 noble hvítlaukar er skornir smátt niður og steiktir (saute'd) í nokkrar mínútur í heitri olíu í stórum potti. Þá er 5 sneiðum af niðurskornu beikoni bætt saman við og steikt um stund. Saltað og piprað (til að ná bragðinu úr grænmetinu). Þegar grænmetið er orðið mjúkt er nautahakkinu ca. 500 gr bætt saman við og steikt þar til það er orðið brúnt. Þá er tveimur dósum af niðursoðnum tómötum bætt úti og jafnmiklu vatni (ca 700 ml) ásamt glasi af rauðvíni. Saltað og piprað. Núna er einnig góður tími til að bæta kryddum saman við sem þola suðu; 2 tsk af þurrkuðu oregano, 1 tsk þurrkað timian og laufum af einni grein af rósmarín smátt niðurskorið. Soðið í 2 klst með lokið á. Svo er lokið tekið af og leyft að sjóða niður. Þegar þetta fer að nálgast það að verða tilbúið er 1/2 búnti af ferski steinselju bætt saman við.

Gott pasta, t.d. Rustichella d'abruzzo (í brúnu pökkunum) er soðið skv leiðbeiningum í miklu söltuðu vatni þar til aldente. Þá er vatninu hellt frá og pastað fært aftur í pottinn og sósunni hellt saman við og látið standa í 2-3 mínútur.

Borið fram með góðu hvítlauksbrauði, salati; græn lauf, plómutómatar, góðar ólívur og camenbert sneiðum. Að sjálfsögðu með góðu rauðvíni Masi Campofiorin 2004.


No comments:

Post a Comment