Sunday 4 November 2007

Ljúffengar lambakótilettur með salsa verde og bragðgóðu couscous

lambakótilettur Þetta er búið að vera ansi ljúf helgi. Nokkrir kollegar héldum skvassmót lækna og læknanema á föstudag og skemmtum okkur vel. Á eftir fórum við á Hornið að borða og svo á útgáfutónleika Jagúar á NASA. Þeir voru helvíti góðir. Funk fram í fingurgóma. Dagurinn í dag hefur verið heldur rólegur. Fór í tvö barnaafmæli

Fólk hefur væntanlega tekið eftir því að rjúpnatímabilið er hafið. Það hefst yfirleitt með einhverjum hryllingssögum um yfirgang veiðimanna á hinum ýmsustu svæðum landsins. Miðað við hve margir eru að skotvopnaleyfi á landinu þá held að ég að þorri veiðimanna séu almennilegir og stundi skynsamlegar sportveiðar. Sjálfur ætla ég að ganga til rjúpna á morgun. Maður fær næstum því samviskubit með að opinbera það - það láta allir hljóma að eins og maður sé á höttunum eftir síðasta geirfuglinum ... þeim allra síðasta.

Ég fékk nýverið sendingu frá Amazon í Englandi, þar hafði ég pantað nýjustu bækur Nigel Slater, Rick Stein og síðast en ekki síst síðustu bók Jamie Oliver. Allar eru þær ágætar nema hvað Jamie kemur sérstaklega á óvart. Ansi góð bók. Hugmyndin af þessum rétti er fengin úr þeirri bók,: Jamie at home - Cook your way to the good life.

Ljúffengar lambakótelettur með salsa verde og bragðgóðu couscous

lambakótillettur Það var ekki erfitt að elda lambakóteletturnar. Þær voru saltaðar og pipraðar og steiktar úr smá hvítlauksolíu, 1 mínúta á hvorri hlið, svo settar í ofn í 10-12 mínútur við 180 gráðu hita.

Borið fram með salsa verde sem er að miklu leyti byggt á uppskrif Jamie Oliver; einum smátt söxuðum hvítlauk er blandað saman við 2 tsk af söxuðum kapers, fimm litlum söxuðum súrum gúrkum, 3-4 flökum af smátt skornum ansjósum, 1/2 búnti af brytjaðri ferskri steinselju, basil og myntu. Útí blönduna er sett 1-2 msk af rauðvínsediki, 1-2 tsk af Dijon sinnepi, salt, pipar og jómfrúarolíu þar til að salsað verður eins og pestó að þykkt.

Með matnum var couscous sem var í fyrstu útbúið á hefðbundinn hátt. 300 gr af couscous leyst upp í soðnu vatni, skv. leiðbeiningum. Þegar það var tilbúið var það steikt upp úr hvítlauksolíu og við það var bætt hálfri niðurskorinni papriku, 1/2 tsk kóríander dufti, 1/3 niðurskorinni agúrku, 100 gr af grænum baunum, salt og pipar, 1/2 búnti af ferskri couscous steinselju.

Einnig var einfalt ferskt salat með matnum. Afar ljúffengt.

Bon appetit.

 


No comments:

Post a Comment