Tuesday 30 October 2007

Fimmosta-rjómapasta, brauð og einfalt salat

Haustveðrið er eitthvað farið að mildast - sennilega vegna þess að það er vetur í loftinu. Allar færslur byrja núna á einhverjum veðurlýsingum eins og maður sé einhver áhugamaður um slíkt. Það er nú samt þannig að þegar maður ferðast mikið um á hjóli þá man maður eftir veðrinu. Veðurfræðingarnir í sjónvarpinu eru alltaf að lýsa einhverjum vindáttum, en þegar maður er á hjóli þá virðist alltaf bara vera ein vindátt - mótvindur.

Það hafa sumir haft orð á því að ég noti stundum dálítið smjör og osta í matargerð mína. Uppskriftin sem ég er að birta í dag er eiginlega óður til rjóma og osta - en hóflega notað af hverju. Þetta er það sem sumir myndu kalla "comfort food". Án þess að vilja hljóma eitthvað þunglyndislega, þá er það stundum alveg nauðsynlegt ... sérstaklega þegar dagarnir fara að styttast.

Ég hef áður birt á netinu pastarétt þar sem ég notaði gorganzolaost og spergilkál með pasta. Þessi réttur var ekkert svo frábrugðinn nema hvað þessi réttur er ekkert ósvipaður nema to the extreme! Í þessum rétti var rjómi og svo fimm tegundir af ostum. Það hljómar nánast eins og vitleysa nema hvað ég var að hreinsa út úr ískápnum og þurfti að koma ýmsum hráefnum í lóg sem voru að nálgast sínar dagsetningar. Það skýrir þetta ostamagn - en kannski voru þetta örlögin, því að maturinn var frábær, í góðu jafnvægi, ekki of bragðmikill og heldur ekki of þungur, ólílkt því sem maður myndi halda.

Fjögurraostarjóma pasta og einfalt salat

Þrjú hvítlauksrif eru steikt upp úr smá jómfrúarolíu, þegar þau eru farin að mýkjast þá er 150 ml af rjóma hellt á pönnuna og soðið upp. Svo er hálfum niðurskornum gullosti, 1/3 af bláum höfðingja (hvíta fjarlægð af mygluostunum), 50 gr af parmaosti, 2 msk af rjómaosta, 50 gr af rifnum goudaosti er brætt í rjómanum. Svo er 100 gr af spergilkáli sem var aðeins forsoðið í söltuðu vatni bætt saman við ásamt 1/3 búnti af flatlaufssteinselju og 1/3 búnti af basil og hitað aðeins áfram.

500 gr af góðu pasta er soðið skv. leiðbeiningum í söltuðu vatni. Þegar pastað var nærri tilbúið var vatninu hellt frá og pastanu svo dempt saman við sósuna. Þar fær pastað að klára sína eldun og nær að soga í sig vökvann úr rjómasósunni. Maturinn er svo færður yfir í skál og skreyttur með ferskum kryddjurtum. Pastað er alls ekki að drukkna í sósu - þvert á móti hjúpar sósan pastað og myndar svona lag utan um það.

Með matnum var einfalt salat, klettasalat, tómatar, agúrka - bara rétt svona til að fá eitthvað létt með, annars fremur þungum mat. Einnig var ég með brauðhleif með matnum. Auðvitað fékk maður sér síðan rauðvínstár með - bæði passar það með ostunum og til að verja kransæðarnar (ef það þá virkar - í það minnsta er það dásamleg blekking).


No comments:

Post a Comment