Saturday 13 October 2007

Ofnbakaður kjúklingur í tómatsósu með pasta og brauði

Það er búið að vera talsvert að gera í vikunni - kannski ekkert meira en oft áður nema hvað að ég er á næturvöktum og þá einhvern veginn hverfur tíminn bara. Síðast þegar ég leit upp var mánudagsmorgunn - núna virðist vera að koma helgi. Þetta einhvern veginn þýtur áfram.

Ég hef verið heldur latur við að sinna blogginu og finnst það miður. Ekki það að ég sé ekki að elda...því mun ég nú seint hætta. Stundum er maður bara það bundinn að það taka sér 15-20 mínútur til að vélrita nokkur orð verður manni einhvern veginn ofviða. Svo þegar maður sest við er þetta náttúrulega ekki nokkuð mál.

Ég var á milli næturvakta á þriðjudaginn og ákvað að gera vel við fjölskylduna. Ég keypti tvo ferska kjúklinga og gott pasta og skundaði heim. Ég hef áður bloggað um ítalska kjötsósu hérna á netinu (sem þið verðið að prófa), þetta er svona mun fljótlegri útgáfa þar sem kjúklingur er notaður í stað nauta eða lambakjöts (sem styttir eldunartíma) og í stað þess að sjóða í potti er þetta eldað í ofni. Þannig að ekkert líkt en samt keimlíkt...og bragðgott.

Ofnbakaður kjúklingur í tómatsósu með pasta og brauði

Eins og ég greindi frá að ofan keypti ég tvo kjúklinga sem ég þvoði og skolaði og klippti í sundur. Fyrst í tvennt í gengum bringubeinið og bakið og svo á milli lærisins og bringunnar þannig að ég var með hvern kjúkling í fjórum bitum. Ég lagði kjúklinginn í ofnskúffu sem ég hafði bleytt með smá skvettu jómfrúarolíu. Því næst hellti ég heilum smátt söxuðum hvítlauk, heilum smátt söxuðum lauk, meiri jómfrúarolíu, salt, pipar og svo tómatsósu (3 dósir af hökkuðum tómötum, 1 stór dós af tómatpure, 4-5 msk af tómatsósu, heilt búnt af saxaðri steinselju, 1 msk af þurrkuðu oregano, salt, pipar) sem var hellt yfir kjúklinginn. Þessari blöndu var svo dreift vel yfir kjúklinginn. Í lokinn var svo fersku timian sáldrað yfir. Þetta var svo bakað inní 200 gráðu heitum ofni þar til kjúklingurinn var yfir 82 gráðu heitur (ca. 35-40 mínútur). Þegar eldunartímanum var lokið og rétturinn kominn úr ofninum var fersku niðurskornu basil og smávegis af osti sáldrað yfir.

Gott pasta var soðið (í brúnu pökkunum ...di Rustichella) soðið samkvæmt leiðbeiningum. Þegar pastað er orðið al dente er vatninu hellt frá og smávegis af tómatsósunni hrært saman við. Þannig dregur þetta bragðið í sig.

Einnig var gert brauð. Baguette var opnað á lengdina og í annað var smurt rautt pestó og hitt hvítlauksolía. Bakað í ofni í 15 mínútur.

Með þessu var eins og oft áður einfalt salat; græn lauf, tómatar, papríku, fetaostur, ólífur.

Hefði drukkið með þessu gott rauðvín nema ég var að fara á vakt á sjúkrabílnum um nóttina og því var því sleppt - damn it. En maturinn var góður.


No comments:

Post a Comment