Thursday 25 October 2007

Hreindýragúllas veiðimannsins á vindasömu haustkvöldi

Það er ekki bara komið haust - það er haust magna grada - rok og rigning...mikið rok og mikil rigning. Það stefnir allt í reykvískan vetur. Á svona dögum vill maður eiginlega bara hlýja sér undir teppi með heitt gúllas og mögulega rauðvínsglas. Það gleður hjartað!

Tengdamóðir mín, Mágkona og svilkona og sonur þeirra komu í heimsókn og borðuðu með okkur. Svilkona mín var alveg kominn á steypirinn. Hvað sem því leið höfðu allir bestu lyst, það er eitthvað við svona veður sem eykur hjá manni matarlystina (veit varla hver þarf á því að halda - en svona er það bara).

Ég leyfði kássunni að krauma vel og lengi á hlóðunum þannig að allt bragð fékk að taka sig vel og blandast saman. Ætli kássan hafi ekki fengið rúmar fjórar klukkustundir á suðu, þá fer kjötið að liðast aðeins í sundur og gúllasið verður sérstaklega kraftmikið. Það hefur komið fram áður á blogginu mínu að ég fór á hreindýraveiðar seinasta haust og ákvað að það væri kominn tími til að ganga aðeins á veiðifangið. Ég tók stóran pakka af gúllasi og leyfði að þiðna í rólegheitunum.

Hreindýragúllas veiðimannsins á vindasömu haustkvöldi

Þetta var í raun einfalt gúllas - eina sem var frábrugðið var hreindýrakjöt í stað venjulegs nautagúllas og svo suðutíminn.

Tvær gulrætur, 1 stór rauðlaukur, 5 hvítlauksrif og 2 sellerísstangir eru skornar smátt niður og steiktir í 3 msk af jómfrúarolíu þar til mjúkt og gljáandi. Þá er 700 gr af hreindýragúllasi bætt saman við og brúnað að utan. Þá er 2 stórum glösum af rauðvíni bætt útí ásamt 4 dósum af tómötum og jafnmikið af vatni. Saltað og piprað. Lauf og þremur stöngum af rósmarín, 3 lárviðarlauf, smávegis villikraftur, ein stór dós af tómatpuré einnig bætt saman við. Hrært vel saman. Suðunni leyft að koma upp og sjóða með lokið á í 2-3 klukkutíma. Þá er lokið tekið af og sósan er soðin niður um helming. Þegar sósan er orðin þykk og fer að verða tilbúinn er hún smökkuð til og söltuð og pipruð eftir smekk.

Borið fram með hrísgrjónum og heitu brauði og jafnvel góðum osti. Þessi réttur væri einnig tilvalinn til að útbúa heimagert hafrakex og bera fram með - slíkt passar einstaklega vel.

Með svona mat er næstum því skylda að fá sér gott rauðvín.

Bon appetit.

 


No comments:

Post a Comment