Monday 8 October 2007

Miðjarðarhafs saltfisksréttur með hvítlaukskartöflumús og ágætis hvítvíni

Við hjónin vorum í brúðkaupi í gær. Góðir vinir okkar, Ólafur Hólm og Elva Brá, gengu að eiga hvort annað. Athöfnin var í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ og Séra Bjarni Karlsson gaf hjónin saman. Tónlistin var stórkostleg; Andrea Gylfadóttir, Björn Jörundur, Matthías Matthíasson og Pétur Örn sungu. Veðrið lék við okkur. Þessi athöfn verður lengi í minnum höfð. Svo var veisla um kvöldið. Ég hafði verið beðinn að vera veislustjóri og svo var dansað fram á rauða nótt. Það var því heldur lágt á manni risið í morgun og maður var lítið til stórræðanna í eldhúsinu. Ég var hinsvegar duglegur að elda í vikunni og átti eftir að snara þeim réttum á netið.

Ég hef áður eldað saltfisk og greint frá því hér á netinu. Ég fékk talsvert af úrvals saltfisk að gjöf í sumar sem ég hef geymt í frystinum. Þetta eru afbragðs hnakkastykki og hafa verið alveg ljúffeng í hvert sinn sem ég hef eldað þau. Ég setti fyrir nokkrum mánuðum síðan færslu sem var að miklu leiti byggð á uppskrift Sigga Hall - Saltfiskur í Xeres sósu, var alveg frábær!

Hugmyndin að þessum rétt er sótt til Miðjarðarhafsins eins og nafn réttarins gefur til kynna. Ætli hún sé ekki mest spænsk með svolítlum grískum lokahnykk. Kartöflumúsin er allavega innblásinn frá Grikklandi. Fyrir löngu síðan var ég í matarboði og fékk kartöflumús þar sem notað var geysilega mikið af hvítlauk, rétturinn hét eitthvað á þessa leið - Skorðalía - örugglega skrifað á einhvern annan hátt. Mikill hvítlaukur - mikið gott!

Miðjarðarhafs saltfisksréttur með hvítlaukskartöflumús og ágætis hvítvíni saltfiskur yfirlit

800 gr af saltfiski var velt upp úr hveiti og piprað vel. Smá smjör og hvítlauksolía var hituð á pönnu og saltfiskurinn svo steiktur í örstutta stund á hvorri hlið - bara rétt til að loka honum. Hann var svo fluttur í eldfast mót sem hafði verið penslað með hvítlauksolíu. Ætli þetta hafi ekki verið ein 6 stykki. Svo var söxuðum tómötum (1 dós) hellt yfir bitana, 1/6 úr dósinni á hvert stykki. Svo var svörtum ólívum, kapers, 1 niðurskornum rauðlauk dreift yfir. Í lokin var svo dreift smávegis af fetaosti yfir réttinn. Þetta var svo bakað í 180 gráðu heitum ofni í 10-12 mínútur.

Ég sauð nýjar íslenskar kartöflur, kannski 1 kíló, í söltuðu vatni eins og lög gera ráð fyrir. Þegar þær voru tilbúnar þá voru þær flysjaðar og hrærðar í potti með heilum krömdum hvítlauk, 10 rif, salti og pipar. 2 msk af rjómaosti bætt útí og smávegis af mjólk til að fá rétta þykkt á músina.

saltfiskur closeup Þetta var svo borið fram með einföldu salati. Með matnum var svo drukkið El Coto Rijoa blanco frá 2006. Saltfiskurinn var alveg ljúffengur.

Bon appetit.


No comments:

Post a Comment