Thursday 22 November 2007

Gnocchi di patate (kartöflupasta) með tómatsósu og brauði

gnocchiádisk

Hvernig væri að byrja færslu án veðurlýsinga. Þetta verður þá fyrsta sinn í þó nokkrar færslur sem ég byrja bloggið mitt ekki á einhverjum hugleiðingum um veðrið. What a bore! Var að ljúka við að horfa á Jóa Fel þátt og þar ferðast hann um Ítalíu og fær hugljúfa Ítala til að elda fyrir sig mat. Það er eitthvað pínulítið bogið við að sjá ítalskt hráefni í íslenskum umbúðum í ítölskum eldhúsum.

Það er langt síðan að ég gerði gnocchi síðast. Þessum rétti kynntist ég þegar við hjónin vorum í fyrsta sinn á ferðalagi um Ítalíu fyrir 8 árum síðan. Þá vorum við í brúðkaupsferð í Piemonte en gnocchi er algengur matur á norðanverðri Ítalíu. Það var alger tilviljun að ég smakkaði þetta í fyrsta sinn, ég hélt að ég væri að panta venjulegt pasta. Fyrir þá sem hafa ekki borðað þetta áður þá er þetta pínulítið eins og mjúkt deig undir tönn. Afar ljúffengt.

Í þetta skipti gerði ég hefðbundið kartöflupasta en það má gera eins og þessi uppskrift kveður á um með kartöflum og hveiti en það er vel hægt að blanda við pastadeigið, ricottaosti, sætum kartöflum, spínati, kryddjurtum eða það sem manni dettur í hug. Ég hef einhvern tíma fyrir mörgum árum gert þetta með ricottaosti og spínati og það var mjög ljúffengt.

gnocchióeldað Gnocchi di patate (kartöflupasta) með tómatsósu og brauði

Eitt kíló af mjölmiklum kartöflum er soðið eins og vant er í söltuðu vatni. Þegar kartöflurnar eru soðnar er vatninu hellt frá og kartöflurnar flysjaðar og stappaðar. Við kartöflurnar er bætt 2 eggjum, 1 msk af jómfrúarolíu, smá Maldon salti og nýmöluðum pipar, 2 msk af nýrifnum parmesan osti og síðan 150 gr af hveiti (stundum þarf að bæta við meira hveiti til að deigið verði þétt). Hráefnunum er svo blandað vel saman og hnoðað í fremur þykkt deig. Smá bútar er klipnir af deiginu og hver bútur rúllaður út í langa pulsu, skorinn niður í munnbitastóra bita og rúllað varlega með gafli.

gnocchiípotti Kartöflupastað er soðið í miklu söltuðu vatni, pastað sekkur til botns og þegar það er tilbúið flýtur það upp á yfirborðið. Þá er það veitt upp úr (helst með götóttri skeið - þannig að vatnið lekið af.

Pastanu er því næst blandað saman við sósuna. Sósan var í raun bara einföld tómatsósa. 1 rauðlaukur, 1 noble hvítlaukur, 1 stöng af sellerí og 1 gulrót eru skorin smátt niður og steikt í 2 msk af jómfrúarolíu (saute'd) þar til það er orðið mjúkt, saltað og piprað. Þá er tveimur dósum af niðursoðnum tómötum bætt saman við, 100 ml af vatni og grænmetisteningi. Soðið í 20 mínútur. Þá er sósan þeytt saman með töfrasprota og soðin áfram í nokkrar mínútur. Því næst er 150-200 ml af matreiðslurjóma bætt saman við ásamt handfylli af ferskri steinselju og basil.

Borið fram með heitu baguette. Nóg af parmesanosti er sáldrað yfir og svo salti og pipar.

 


No comments:

Post a Comment