Tuesday 3 April 2007

Sjávarréttapasta á þriðjudagskvöldi

Var á vakt í gærkvöldi - landspítalinn bauð upp á sinn hefðbundna mötuneytismat sem er eldaður fyrir 2000-5000 þúsund manns. Hver á von á góðu þegar svo er. Maður sér þetta hálfpartinn fyrir sér - kokkurinn (eða bara starfsmaðurinn) stendur fyrir framan mörghundruðlítra sósupott, smakkar aðeins til, finnst eitthvað vanta, og bætir svo við 5 kg af sósukraft eða salti eða einhverju. Ekki beint girnileg nákvæmniseldamennska. Þetta fær mann til að elska skyr, salatbarinn (sem er allaf eins - amk síðastliðinn 4 ár) og auðvitað júmbó samlokur. Borðaði hrökkbrauð með osti í kvöldmat í gær og fannst í staðinn að ég ætti eitthvað gott inni á móti í kvöld.

Ég var að spá í að ofngrilla einhvern hvítan fisk með kartöflum og fersku salati en þegar komið var í fiskbúðina kom í ljós að ég hafði gleymt veskinu mínu einhversstaðar. Það var því ljóst að eitthvað annað þyrfti að vera í matinn í kvöld.

Þetta reyndist verða en besta ískápsredding í háa herrans tíð. Ég átti til dálítið af ágætum smárækjum í frystinum og það var grunnurinn af matnum.

 Sjávar(rækju)réttarpasta á þriðjudagskvöldi.

Tveir litlir skarlottulaukar voru skornir niður smátt ásamt fjórum hvítlauksrifjum og hitaðir á pönnu í ca. 15 gr af smjöri og 2 msk af hvítlauksolíu. Þegar laukurinn og hvítlaukurinn var farinn að glansa var 5 niðursneiddum sveppum bætt á pönnunna og steiktir í smástund. 1 glas af hvítvíni bætt á pönnunna og soðið aðeins niður. 50-70 ml af rjóma er hellt útá og ca 2 glösum af vatni bætt útá og suðunni leyft að koma upp. Saltað aðeins og piprað. Svo var 1 1/2 msk af humarsoðskrafti bætt útá og soðið áfram í nokkrar mínútur. Því næst var 3 tsk af niðurskorinni ferskri bergmyntu bætt út í, sem og 1 msk af rjómaosti. Soðið áfram niður. Þegar 3-5 mínútur voru eftir af eldunartímanum var rækjunum bætt við og leyft að sjóða með í nokkrar mínútur (ekki mikið meira en 3-5 mínútur - annars verða rækjurnar seigar). Sósan var svo þykkt með maizenamjöli og afgangi af gratínosti sem ég átti til inni í ísskáp. Saltað og piprað eftir smekk.

Á meðan var 350 gr af de Cecco penne pasta soðið í miklu söltuðu vatni. Þegar pastað var tilbúið - al dente - var vatninu hellt frá og sósunni blandað saman við. 4-5 tsk af saxaðri ferskri basil sáldrað yfir og borið fram með heimagerðu ólívubrauði sem hafði verið grillað í ofni með hvítlauksolíu og osti.

Sökum leti var ekkert salat með matnum. En afraksturinn var engu að síður ljúffengur.


No comments:

Post a Comment