Friday 13 April 2007

Ofngrilluð ýsa á þriggja lauka beði

Átti frídag milli vakta í dag, þetta eru alltaf súrir dagar. Vaknar seint eftir næturvaktina - ekki alveg útsofinn. Einhvern vegin er allt ansi grátt á svona dögum. Reyndi þó að hressa mig við og skreppa í skvass með kollega mínum. Vorum báðir hálfdasaðir - en þetta hressti við, nóg til þess að ég nennti að elda kvöldverð.

Ég og konan mín erum að reyna að venja son okkar á alvöru mat. Hann borðar allan mat hjá dagmömmunni sinni, hjá frænkum og ömmum en ekki hjá okkur. Við höfum klárlega verið að klúðra uppeldinu og nú á að fara að taka á honum stóra sínum. Snædísi datt í hug að maturinn væri kannski fullframandi - ég veit nú ekki um það - en við ákváðum að tóna þetta niður alveg. Og ekki er hægt að tóna matseld meira niður en að sjóða ýsu. Ég hef einu sinni áður soðið ýsu. Þá gufusauð ég ýsuflak og það var bragðlaust og minnti hreinlega á mötuneytismat, dapurlegan.

Nú var ýsan soðið í söltuðu vatni fyrir drenginn en ég breytti þessu aðeins fyrir restina af fjölskyldunni. Rétturinn var huxaður sem twist á soðna ýsu með kartöflum sem er leiðinlegasti matur sem borin er á borð - við réttu kringumstæðurnar getur þessi matur verið bragðgóður - en aldrei girnilegur, hvaðþá eitthvað sem mig langar til að elda.

 Ofngrilluð ýsa á þriggja lauka beði ofnbökuð ýsa

Einn púrrulaukur, 5 hvítlauksrif, 2 litlir skalottulaukar voru skornir í sneiðar og lagðir í eldfast mót með 1 msk af jómfrúarolíu. Saltað og piprað og svo 5-6 mjög litlum klípum af smjöri lagt með. 600 gr af ýsu beinhreinsuð en samt með roðinu var lagt ofan á laukinn þannig að roðið snéri upp. Roðið var pennslað með smá hvítlauksolíu, saltað og piprað og svo ofngrillað við 250 gráður í 8-10 mínútur. Maður sér alveg hvernig fiskur verður gljáandi hvítur og roðið stökkt og girnilegt.

Með þessu bar ég fram soðnar kartöflur ca. átta miðlungsstórar kartöflur. Eftir suðu voru þær flysjaðar og lagðar í skál. Ég útbjó dressingu sem samanstóð af 2 msk 10% sýrðum rjóma, 1 tsk Dijon sinnep, 2 tsk síróp, salt og pipar og svo 1/5 búnt af gróf skornu fersku dilli. Dressingunni var svo hellt yfir kartöflurnar og þær hjúpaðar með henni.

Með matnum var einfalt salat, blönduð grænlauf, 3 niðurskorin jarðaber, 1/2 avócadó og nokkrir bitar af muldum kryddfeta osti. kartöflur með dressingu

Alveg ljúffengur matur.


No comments:

Post a Comment