Saturday 7 April 2007

Grilluð hreindýrasteik með rauðvínssósu

Við fjölskyldan erum í sumarbústað hjá foreldrum mínum við Meðalfellsvatnið. Hérna er yndislegt að vera og veðrið lék við okkur í dag. Pabbi, Valdís og ég fórum að veiða út á bát seinnipartinn í dag fengum tvo dágóða urriða - held bara að þetta séu stærstu fiskar sem við feðgar höfum náð upp úr vatninu.

Ég og pabbi höfðum lagt línurnar fyrir kvöldið í gær og ég byrjaði að undirbúa kvöldverðinn um hádegisbilið í dag. Ákveðið var að elda hreindýrasteik. Ég fór á hreindýraveiðar með Bergþóri kollega mínum og vini síðastliðið haust og við deildum bráðinni. Ég hef ekki verið nógu duglegur að elda hreindýrið og mun reyna að bæta þar úr - byrjaði um daginn með hreindýrahamborgurunum sem voru meiriháttar.

 Grilluð hreindýrasteik með rauðvínssósu hreindýrasteik marinering

Tók klump - sem er vöðvi nokkuð vel útlítandi - sem að ég held að vöðvinn sé neðan við innra lærið. Hann er ekki fituríkur vöðvi en fallega útlítandi - kannski myndi hann henta betur sem ofnsteik en á grillið en annað kom daginn.

 Eins og ég nefndi þá byrjaði matseldin um hádegið í dag. Ég sneiddi klumpinn niður í ca 2,5 cm sneiðar og lagði í skál. Svo var sex mörðum hvítlauksrifjum, 8 msk af extra jómfrúarolíu, 2 glösum af rauðvíni, 3 cl af Larsens koníaki, laufum af fjórum greinum af fersku rósmaríni, 2 msk af timian, 1 msk af þurrkuðu óreganó, hálf handfylli af íslensku blóðbergi, Maldon salt og nýmalaður pipar. Þetta fékk svo að standa útí í vorveðrinu fram að kvöldmat. Þá var steikin grilluð á rjúkandi grilli þar til hún var miðlungssteikt.

Með þessu var ágætissósa. Ég steikti fimm smátt skorinn hvítlauksrif, 1/4 af hvítum lauk í 15 g af smjöri og 1 msk af jómfrúarolíu. Þegar laukurinn var orðin gljáandi setti ég 6 niðursneiddasveppi út í og steikti þar til þeir voru mjúkir og fallegir. Þá setti ég 800 ml af vatni útí og Oscars nautakraft skv leiðbeiningum og 300 ml af góðu rauðvíni, eina grein af rósmarín útí sem og salt og pipar og sauð í um 30-45 mínútur í opnum potti. Við þetta sauð sósan aðeins niður. Svo var smjörbolla útbúinn í öðrum potti. 30 gr af smjöri hitað í potti og smávegis af hveiti sáldrað yfir þar til að blandan verður eins og mjúkur leir. Þá er sósunni blandað varlega saman við. Við þessa meðferð þykkist sósan og verður fallega gljáandi. Þá er smakkað til og sósan djössuð til. 2 tsk af bláberjasultu bætt útí, svo 1 tsk af gráðaosti og svo ca 100 ml af matreiðslurjóma. Söltuð og pipruð eftir smekk - perfecto. kartöfluréttur

Með matnum voru grillaðar kartöflur og sætar kartöflur með rauðlauk, tómötum og sveppum. Kartöflurnar voru fyrst forsoðnar í 15 mínútur og svo flysjaðar. Raðað í álpappír með niðursneiddum rauðlauk, tómötum og sveppum. Jómfrúarolíu sáldrað yfir og saltað með Maldon salti og nýmöluðum pipar. Ferskri steinselju, timian, og hvítlauk dreift yfir. Álpappírnum svo lokað og grillað í 20-30 mínútur við háan hita. Snúið einu sinni á eldunartímanum.

Með þessu var einfalt salat. Klettasalat, flysjaðar og niðursneiddar perur, blár kastali og niðursneiddir tómatar. Dressingin var samansett úr einn hlutur jómfrúarolíu, 1/4 hlutur rauðvínsedik, 1/4 hlutur sítrónusafi, eitt mulið hvítlauksrif og smávegis af fersku dilli.

Með þessu var uppáhalds vínið mitt - Montes Alpha Cabernet Sauvignion frá 2005. Það er frá Chile og var lengi vel flutt inn í trékössum sem voru ákaflega eigulegir. Þetta er ekki alveg það besta vín sem ég hef smakkað en það er alltaf mitt uppáhald vegna þess að það var fyrsta vínið sem ég keypti sem svona "flott" vín á mínum yngri árum og það hefur einhvern veginn haldið sess sínum síðan þá. Svíkur aldrei!!!

hreindýrasteik


No comments:

Post a Comment