Saturday 21 April 2007

Roastbeef ala Kjartan ÞórFórum í mat til foreldra minna í kvöld. Bróðir minn sá um eldamennskuna. Kjartan bróðir er kokkur af guðs náð. Hann hefur eins og restin af fjölskyldunni mjög gaman af því að elda. Hann er listamaður - búið mikið erlendis við kröpp kjör - og hann kann að búa til veislu úr litlu...Bull fighter's beef stew, indverskan korma með nautakjöti (indverjar myndu æsast úr öllu valdi ef þetta kæmist í hámæli - þannig að við skulum halda þessu bara á þessari vefsíðu). En hvað um það hann stóð fyrir þessari meiriháttar veislumáltíð á kveldi fyrsta sumardags. Konan mín gerði sína rómuðu Bernaise sósu og allir voru glaðir.

Roast beef ala Kjartan Þór
2 kg af fallegum nautavöðva eins og innralæri er smurt með blöndu af 1 msk af hveiti, 2 msk af Dijon sinnepi og 1/2 tsk af Maldon salti. Kryddar kjötið svo ríkulega með nýmuldum svörtum pipar. Svo er ofn forhitaður í 230 gráður og þegar hann er orðin heitur þá er vöðvinn steiktur í 15 mínútur. Þá er ofnhitinn lækkaður í 200 gráður og kjötið steikt í 25 mínútur í viðbót. Því næst er kjötið tekið út ofninum og lagt til hliðar vafið í álpappír og látið standa í 15 mínútur.

Búinn var til variant af Bernaise sósu Snædísar. Konan mín er ansi föst á því að nota Knorr Hollandaise sósugrunn í Bernaise sósuna sína en í 1011 var bara til Toro og því fannst henni allt vera upp á móti sér hvað sósugerðina snerti, þetta heppnaðist samt alveg frábærlega hjá henni enda kominn af fjölskyldu mikilli sósusnillinga. Snædís er ekki hrifinn af því að ég sé að blogga mikið um sósuna hennar - henni finnst eitthvað lousy að gera sósu úr pakka - en ég hef verið að reyna að segja henni að það er sama hvaðan gott kemur - þessi sósa er meiriháttar. Ég hef áður bloggað um sósuna hennar - henni ekki til mikillar ánægju!!!

Ég held að hún hafi gert úr 1 sósupakka - sósan í pökkunum er gerð eftir leiðbeiningum - með smjöri og mjólk og tilheyrandi en svo þarf að djassa hana upp. Bernaise essens, salt, pipar, fersk steinselja og svoleiðis. Til þess að sósan fengi á sig fallegri lit hræðri hún einnig tvær eggjarauður saman við...svona aðeins til að vera trú upprunanum. Sósan var svo soðin upp og var alveg meiriháttar. Ég vona að Snædís láti mig fá nákvæmari leiðbeiningar.

Með þessu voru svo katalónskar kartöflur - ættu raunverulega að heita kjartanþórskar kartöflur þar þar sem hann gerir þær best. Kartöflur eru flysjaðar, sneiddar niður þunna báta. Olía er hituð á pönnu og kartöflurnar eru steiktar þar til þær verða gullnar og fallegar. Þá er byrjað að hella smávegis af vökva á pönnuna (auðvelt er að nota bara vatn en einnig má nota blöndu af hvítvíni og vatni....eða bara hvítvíni (hef bloggað um það áður)) og steikt um stund með lokið á. Við og við þarf að róta í kartöflunum svo að þær festist ekki við pönnuna. Svo er saltað ríkulega með sjávarsalti og piprað með nýmöluðum pipar.

Með þessum rétt var ljúffengt salat; klettasalat, tómatar, vínber, mulin fetaostur í kryddolíu og balsamic edik og smávegis salt og pipar.

Með matnum var drukkið Beringer Founder's Estate Merlot frá 2004 - ljúfengt og passaði mjög vel með matnum.


No comments:

Post a Comment