Sunday 8 April 2007

Foccacia fyllt með karmelliseruðum rauðlauk

Snædís konan mín gaf mér frábæra bók í jólagjöf núna síðastliðin jól. Það er bók eftir Giorgio Locatelli sem er ítalskur kokkur sem rekur veitingastað í London. Hann hefur einnig gert sjónvarpsþætti sem eru alveg þokkalegir. Bókin er miklu betri en sjónvarpsþættirnir. Bókin heitir Italian food and stories og er "auðvitað" matreiðslubók - sem leggur mikla áherslu á að fara í uppruna réttanna. Í bókinni rekur hann skemmtilegar sögur um hvernig hann lærði að elda réttina sem hafa haft áhrif á hann og eldhúsið sem hann rekur.

Það er sérstaklega gaman að lesa hvernig hann fer í gegnum hverja uppskrift og kennir manni hvernig matreiðslan, hvert skref fyrir sig, hefur áhrif á réttinn sem verið er að elda. Þessi bók er virkalega eiguleg og á eftir að verða mér innblástur áfram.

Hann fer í gegnum gerð ítalskra brauða mjög ýtarlega. Eitt af brauðunum sem hann tekur fyrir er foccacia sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan að ég sá Jamie Oliver elda það í fyrstu sjónvarpsseríu sinni The Naked Chef...meiriháttar. Georgio fyllir sitt brauð með ferskum lauk - en ég leyfi mér að breyta þessu aðeins - eldamennska gengur nú út á svoleiðis lagað!

 Foccacia fyllt með karmelliseruðum lauk.

500 gr af hveiti er sett í skál með 30 gr af salti og 3 msk af jómfrúarolíu. Svo er 300 ml af ylvolgu vatni blandað saman við 15-20 gr af geri og 30 gr af sykri. Gerinu er svo leyft að vakna í vatninu, sem sést best á því að vatnið freyðið hressilega. Þegar gervatnið er tilbúið er því síðan blandað hægt og rólega við hveitið og hnoðað vandlega saman í mjúkan deighnött. Deiginu er svo leyft að hefast í 1-2 klukkustundir eftir því sem tíminn leyfir.

 Tveir rauðlaukar eru skornir niður í sneiðar. 15 gr af smjöri ásamt smá skvettu af olíu er hitað á pönnu og svo er rauðlaukurinn steiktur rólega þar til að hann er mjúkur og glansandi. Gætið þessa að brúna ekki laukinn. Svo er hálfu glasi af rauðvíni hellt yfir og saltað og piprað. Rauðvínið er soðið nær alveg niður þannig að það rétt eymir eftir af því. Í lokin er svo 2 msk af Agave sírópi hellt yfir og steikt í smástund í viðbót - eins og áður gæta sín að brúna ekki laukinn.

Þegar deigið er búið að hefast vel er það lamið niður og flatt vel út. Karmelliseraði rauðlaukurinn er svo dreift yfir helminginn af deiginu og svo er hinn helmingurinn af deiginu breitt yfir. Pressað vel saman. Pennslað með olíu og saltað með Maldon salti. Bakað í ofni í 15-20 mínútur við 180 gráðu hita, einnig má gera tilraun og grilla á grilli eins og ég gerði í bústaðnum á fimmtudaginn en þá væri rétt að hluta foccociað niður í minni brauðhleifa svo auðveldara sé að elda það.

Þetta brauð var borið fram með Spaghetti Bolognese sem mamma útbjó - mamma gerir rosalega góða kjötsósu - kannski sendir hún mér uppskriftina þegar hún sér að ég er búinn að monta mig af henni.


No comments:

Post a Comment