Tuesday 17 April 2007

Endurtekning í eldhúsinu - ljúffeng endurtekning

Búinn að vera á vöktum undanfarna viku eins og fram hefur komið á blogginu mína. Það þýðir að lítið er búið að vera í eldhúsinu. Síðasta vaktin í bili var í gærkvöldi og það var fremur mikið að gera á vaktinni. Hvað um það, svaf lítið í dag eftir vaktina og svo vaknaði í algeri stemmingu fyrir steik og bernaise sósu - sem hefur lengi verið uppáhald okkar hjóna. Það varð úr.

Ég er að fara að baka köku fyrir brúðkaupsveislu vinahjóna. Dögg vinkona mín og kollegi og unnusti hennar Grímur eru að fara að ganga í hjónaband 12. maí næstkomandi og báðu mig um að sjá um desertinn í veislunni. Mín verður ánægjan. Þau komu í svona prufukeyrslu á kökuna með kvöldkaffinu.

Þau hafa áður komið í mat hjá okkur hjónum og fengið Pavlovu í desert. Ég hef áður sett inn blogg um þessa uppskrift undir heitinu eftirmatur guðanna. Eins og mér sjálfum fannst þeim þessi marenskaka alveg frábær...sem hún er. Venjulega hef ég gert tvöfalda uppskrift af þessari köku þar sem ég hef oftar bakað hana fyrir stór matarboð en núna gerði ég einfalda uppskrift og þau komu í svona desertsmakk til að undirbúa brúðkaupið. Einföld uppskrift dugir sennilega fyrir 10-12 manns - en oftar skiptir engu máli hve stóra uppskrift maður gerir - hún virðist alltaf klárast sama hvað fáir eða margir eru um hítuna.

Eftirmatur guðanna - endurtekning - þó með aðeins minna sniði.

4 eggjahvítur eru þeyttar í skál, með smá salti, þartil þær fara að freyða vel. Þá er 250 gr af sykri bætt útí - ekki allt í einu - gott að setja eins og 50g í einu, og þeyttar þartil marensinn er orðin stífur og gljáandi. Því næst er 1/2 tsk af vanillu dropum, 2 matskeiðar af maizenamjöli, 1 tsk af hvítvínsediki og hrært blandaðsamanvið. Bökunarpappir er lagður á ofnplötu og marensinum dreift yfir plötuna. Ofn er forhitaður í 180 gráður og þegar marensinn er settur inni er hitinn lækkaður í 150 gráður og marensinn er bakaður í 1 klst 15 mínútur - 1 klst 30 mínútur. Marensinn mun blása út og verða gullinn og fallegur. Þegar marensinn er tilbúinn er marensinn tekinn út og leyft að kólna. Nigella slekkur á ofninum eftir 1 klst og korter og leyfir marensinum að kólna í ofnunum. Ég hef venjulega tekið kökuna út úr ofninum og leyft henni að kólna á borði undir viskastykki.

 250- 500 ml af rjóma er þeyttur og dreift yfir marensinn (marensinn mun aðeins falla saman við þetta - og það er allt í lagi). Því næst er einhverjum fallegum berjum stráð yfir. Ég hef gert þessa köku með ástaraldinum, jarðaberjum, brómberjum, hindberjum og þetta hefur aldrei klikkað. Í þetta sinn var 300 gr af niðurskornum jarðaberjum dreift yfir. Þetta var alveg frábært sem endranær.

 


No comments:

Post a Comment