Thursday 12 April 2007

Fyllt veislubrauð og ólívubrauð

Er á vöktum þessa vikuna og því verður lítið um að vera í eldhúsinu mínu þessa daganna. Mötuneyti landspítalans mun halda í mér lífinu þessa næstu daga? Það hefur lítill metnaður verið í mér síðustu kvöld- sennilega hefur það eitthvað með það að gera að maður var í stanslausu veisluhaldi um páskana. Það var nú ekki lítið borðað af góðum mat og með því drukkin góð vín.

Ég og konan mín fórum með dóttur mína á skíði í gær - eftir skíðaferðina fórum við heim í foreldrahús þar hafði Kjartan bróðir minn eldað fyrir okkur. Hann hafði útbúið bragðgóða tómatsósu með ólívum og beikoni sem var borið fram með góðu pasta, hvítlauksbrauði og einföldu salati - afar ljúfengt hjá Kjartani ...hann er eins og restin af fjölskyldunni - metnaðarfullur í eldhúsinu - hann er þó ekki eins montinn og ég sem sett allt á netið. Kannski að hann leggi til uppskriftina að þessari ljúfu pastasósu.

Við hjónin höfum nokkrum sinnum haldið veislur á okkar heimili, afmæli, útskriftir og svoleiðis. Ég hef fengið hjálp frá pabba og mömmu þegar um stórar veislur er um að ræða og við höfum séð um mest af veitingunum, í smærri veislum höfum við hjónin nú klárað okkur sæmilega. Ég hef alltaf verið hrifnari af brauðréttum í svona veislum frekar en kökum og tertum og hef því reynt að leggja áherslu á að vera með heimagerð brauð, gott úrval af ostum og pylsur og mikið af heitum réttum - ég algerlega elska brauð og heita rétti.

Ég hef nokkrum sinnum gert þetta brauð - það byggir eins og svo oft áður á svipaðri uppskrift og ég hef oft gert áður, hlutföllin breytast ekki - bara magnið. Svo er gott að láta svo brauð hefast vel - þá verða þau létt og bragðgóð.

Fyllt veislubrauð og ólívubrauð

Fyrst er gerið vakið í ylvolgu vatni. 2-3 tsk af þurrgeri er sett í 400 ml af ylvolgu vatni og við það er bætt 30-40 gr af sykri eða 4 tsk af hunangi. Hrært vel saman og beðið þar til vatnið fer að freyða og þá er gerið tilbúið. Þá er 800-1000 g af hveiti sett í skál og við það blandað 4 msk af jómfrúarolíu og 40 gr af salti. Svo er gervatninu blandað hægt saman við og þegar vökvinn er allur kominn saman við er deigið hnoðað. Stundum þarf að bæta smávegis af vatni ef deigið er of þurrt eða hveiti er of blautt. Hnoðað í nokkrar mínútur og svo látið standa í 2 klst til að hefast. Á þeim tíma mun það tvöfaldast að stærð. fyllt brauð1

Þegar deigið hefur hefast er það barið niður og flatt út í langan - rúman meter á lengd og sirka 20 cm á breidd. Þegar svo er komið við sögu er byrjað að raða á deigið. Nú er bara að setja í brauðið það sem manni lýst best á, ég hef sett pepperoni, skinku, góða osta, þistilhjörtu, pestó, hvítlauksolíu, lauk, sveppi - bara það sem passar vel saman. Stundum hef ég haft breytilegt álegg á 25 cm millibili þannig að hægt er að fara nokkrar ferðir í brauðið og það er samt breytilegt.

Svo er deigið brotið saman og snúið í hring þannig að það passi á ofnplötu, pennslað með jómfrúarolíu, og bakað í 30-40 mínútum við 180 gráður þar til gullið og fallegt. Berist fram heitt.

 Ólívubrauðið er ekki eins glamorous og því sem lýst að ofan. Hægt er að nota sömu uppskrift af brauði og svo þegar verið er að hnoða deigið er 2 krukkum af ólífum blandað saman við. Svo er brauðinu annað hvort rúllað upp eða fléttað og ólívur settar í allar fellingar brauðsins. Bakað við 180 gráður í 30-40 mínútur þar til gullið. Borið fram með pestó og ostum.

fylltbrauð

ólívubrauð


No comments:

Post a Comment