Monday 23 April 2007

Sírópssinnepsgljáður lax með hrísgrjónasalati

Fremur rólegur dagur í dag. Svefndagur eftir vakt og allt gerist fremur hægt á svoleiðis dögum. Ég verð alltaf dáldið myglaður eftir næturvaktir. Ætli það sé ekki aldurinn að segja til sín. Náði að skreppa á fund með undirbúningshóp fyrir árshátið lyflækningasviðs I á LSH sem verður á föstydagskvöldið næstkomandi og svo skella mér í skvass. Kunningi minn Benedikt fékk að flengja mig rækilega í dag...ekkert nýtt þar á ferðinni.

Maturinn í kvöld var svona samsuða úr ólíkum áttum. Við vorum með lax í matinn í kvöld og bauð bróður mínum í mat, svo átti bara að hafa hrísgrjón og ferskt salat með. Hrísgrjónin breyttu aðeins um stefnu á síðustu stundu og urðu talsvert betri en til stóð - pössuðu kannski ekkert sérstaklega vel með laxinum en það kom þó ekki við kaunin á neinum, ætli væntingar manns til veislumáltíða séu ekki minni á mánudögskvöldum.

Laxauppskriftin er ekkert ósvipuð því og ég bloggaði um fyrir nokkrum mánuðum sem var undir nafninu - Lax á fjóra vegu - þar notaði ég hunang í stað síróps núna. Hrísgrjónasalatið er þó nýtt á nálinni. Pabbi er mjög lúnkinn við að gera hrísgrjónasalöt - hefði ég ekki nefnt hann á nafn í sömu andrá og ég geri hrísgrjónasalat hefði ég fengið símtal - í það minnsta tölvupóst til áminningar.

Sírópssinnepsgljáður lax með hrísgrjónasalati

Eitt kíló af sjóöldum laxi var hreinsaður og bein plokkuð út með flísatöng. Svo er rósmaríni, í þetta sinn þurrkuðu (ferskt er betra, þó er rósmarín ein af þeim kryddjurtum sem nokkuð vel heldur bragði sínu við þurrkun) sáldrað yfir laxaflakið. Því næst er sírópssinneps gljáinn útbúinn, 2 msk af Djion sinnepi er blandað saman við 3 msk af hreinu hlynsírópi. Svo er sírópssinnepsgljáanum dreift yfir laxinn. Laxinn er svo bakaður við 180 gráðu hita í 12 mínútur.

Með þessu átti að vera hrein Basmati hrísgrjón - en svo fór ég í einhvern gír og fór að reyna að hressa aðeins upp á þetta. Á meðan ég sauð hrósgrjónin þá skar ég niður einn lítil lauk, 3 hvítlauka, 3 cm af engifer fremur smátt og hitaði í jómfrúarolíu. Svo var 1/3 af niðursneiddum kúrbít, 10 sveppum sneiddum í fjórðunga, 1/3 af niðurskornum blaðlauk, og heil rauð papríka í fremur smáum bitum bætt á pönnuna og steikt í smástund. Saltað og piprað. Svo var 4 bollum af soðnum basmati hrísgrjónum bætt á heita pönnuna og velt samanvið grænmetið. 2-3 msk af kikkoman soya sósu var svo hellt útí, saltað og piprað, 1/6 búnt af smátt skorinni ferskri steinselju bætt við og 1-2 tsk af hvítum sykri. Í lokin er 1 hrært egg blandað saman við og steikt í smástund. Fært á disk og skreytt með ferskri steinselju.

Borið fram með einföldu salati, blönduð grænlauf, tómatar og fetaostur. Einfalt. Laxinn heppnaðist afar vel en hrísgrjónasalatið var meiriháttar gott - hefði í raun getað verið máltíð í sjálfu sér.


No comments:

Post a Comment