Wednesday 18 April 2007

Kjúklinganúðlur með litskrúðugu grænmeti

Við hjónin vorum eiginlega búin að skipuleggja matinn fyrir kvöldið. Ég var - eins og svo oft áður - búinn að taka það að mér að sjá um matinn. Planið var að hafa kjúklinganúðlur í matinn, það er langt síðan að við höfum eldað núðlur í matinn - ég held að það hafi seinast verið í nóvember - allavega man ég ekki eftur því að hafa bloggað um svoleiðis.

Ég var hins vegar alltof seinn heim þar sem ég tafðist á fundi Læknafélags Reykjavíkur. Snædís var því byrjuð að elda - og eiginlega það langt komin að hún verður að fá heiðurinn af máltíðinni. Ég fékk þó að taka við í lokin - rétt svona til að halda andliti. Tengdaforeldrar mínir komu í mat. Þau eru nýkomin úr tveggja vikna páskafríi á Spáni og voru ansi brúnn og sælleg miðað við okkur hin sem komum grá og guggin undan íslenskum vetri.

Kjúklinganúðlur með litskrúðugu grænmeti. núðlur

Fyrst voru 600 gr af kjúklingabringum sem höfðu verið skornar í strimla marineruð í 100ml soya sósu með sex mörðum hvítlauksrifjum og 2 msk sírópi í tvær klukkustundir. Svo var grænmetið; 1 kúrbítur, 4 gulrætur, 1 laukur, 1/2 paprika, 1/2 blaðlaukur - flysjað, skolað og þurrkað eins og lög gera ráð fyrir - og skorið í munnbitastóra bita. 3 egg voru hrærð saman og við þau bætt 1/4 búnt af ferskri niðursneiddri steinselju. Þá er fyrsti hluti matseldarinnar kominn.

Því næst er eggjablandan steikt á pönnu þar til hún er tilbúin og svo er eggjakakan lögð til hliðar. Svo er kjúklingurinn steiktur með allri marineringunni á blússheitum wok þar til hann er steiktur í gegn og síðan lagður til hliðar. Því næst var grænmetið steikt í stutta stund og lagt til hliðar. Þá er annar hluti matseldarinnar tilbúinn.

Næst eru 3 plötur af núðlum soðnar í 4 mínútur og þegar þær eru tilbúnar er vatninu hellt af. Þá er allt tilbúið til að setja réttinn saman.

Þrír sentimetrar af engilferrót skorið smátt niður og einnig 4 hvítlauksrif. 2 msk af olíu er hitað á pönnu og hvítlaukurinn og engiferrótinni bætt útí og steikt þar til gljáandi. Þá er kjúklingnum, grænmetinu, núðlunum bætt á pönnunna og blandað vel saman. Mikilvægt er að pannan sé vel heit. 40-50 ml af soya sósu er bætt útí og svo 2-3 skvettum af sætu sherríi. Steikt saman í skamma stund og svo fært yfir á flatan disk.

Skreytt með eggjakökunni sem hefur verið skorin í bita og rifnu fersku kóríander. Bon appetit.


No comments:

Post a Comment