Tuesday 17 December 2013

Kraftmikil fyllt eggaldin með nautahakki, chili, tómötum og fetaosti með ríkulegu salati

Ég hóf þessa viku á rannsóknarvinnu - en ég er að reyna eins og rjúpan við staurinn að sinna doktorsverkefninu mínu! Það gekk ágætlega framan af dagi, sótti gögn og las í gegnum þau og reyndi að skrá niður það sem máli skipti. Planið var að halda þessari vinnu áfram út vikuna en útgefandinn minn hringdi í mig eftir hádegið og spurði hvort ég væri til í að skreppa til Íslands til að taka þátt í sjónvarpsþætti Loga Bergmann - Logi í beinni. Það hélt ég nú. Þannig að restin af deginum fór svona fyrir ofan garð og neðan. Bóka flug, redda gistingu, losa mig við eina bakvakt, skipuleggja smá matseðil! Þetta verður gaman! 

Verð því að halda vel á spöðunum næstu tvo daga svo mér verði fyrirgefin þessi ferð. Sem betur fer er ég í rannsóknaleyfi og hef engar klíniskar skyldur þannig að þetta ætti allt að ganga. Dóttir mín, Valdís Eik, verður þrettán ára á föstudaginn og fær að koma með mér heim til Íslands og vera mér andlegur stuðningur í sjónvarpssal. Hún var ekkert lítið ánægð að fá að fara þessa óvæntu ferð. Svona tveimur mínútum eftir að henni voru sagðar fréttirnar var hún búin að þaulskipuleggja daganna tvo með frænku sinni og vinkonu! 

Ætli ég nái ekki að redda jólamatnum með þessari óvæntu heimsókn! Í síðustu tveimur ferðum hef ég haft svo mikið fyrir stafni að ég hef klikkað illilega á því að kaupa inn fyrir jólin. Ég hafði treyst á að foreldrar mínir myndu ná að bjarga þessu fyrir horn eins og svo oft áður en að þessu sinni lögðu þau lykkju á leið sína og fóru viku fyrr af stað og eru núna að heimsækja gamla vini sína í Saarbrucken í Þýskalandi. Þau munu koma til okkar um næstu helgi og halda með okkur jól eins og þau hafa gert síðastliðin fimm ár! Við hlökkum mikið til að fá þau til okkar.

Kraftmikil fyllt eggaldin með nautahakki, chili, tómötum og fetaosti með ríkulegu salati


Þessi réttur varð til þegar ég var að hreinsa út úr ísskápnum núna í síðustu viku. Þar kenndi þó ýmissa grasa, fann tvö eggaldin, átti nautahakk inní frysti sem ég hafði keypt lífrænt frá bónda í Ängelholm núna fyrir nokkrum vikum, hálfaskja af tómötum úti í glugga og svo á ég oftast til nokkrar lauktegundir í skál á eyjunni minni! 

Innihaldslýsing

2 eggaldin
400 gr nautahakk
150 gr tómatar
2 smáir rauðlaukar
1 rauð papríka
4 hvítlauksgeirar
3 rauðir, smáir, chilipiprar
1 msk tómatpuré
250 ml af kjötsoði
1 msk smátt saxað ferskt basil
2 tsk þurrkað oregano
1/2 krukka af fetaosti í kryddolíu

Þetta er það sem fannst inn í ísskáp! Ekki svo slæmt, stundum eru svona "naglasúpur" bara nokkuð góðar!


Skerið laukinn, hvítlaukinn og sveppina niður smátt. 


Þegar laukurinn, hvítlaukurinn, papríkan og sveppirnir hafa fengið að steikjast í nokkrar mínútur á pönnunni bætið þið hakkinu saman við. 


Bætti síðan chilipiparnum saman við - hann var heldur lítill þannig að ég lét kjarnann fylgja með.


Þegar nautahakkið var brúnað þá setti ég tómatana saman við - sem ég hafði skorið í helminga - ásamt tómatpúréinu. Setti svo oreganoið.


Næst kjötsoðið, sem ég hitaði að suðu, og leyfði síðan að krauma þannig að það sauð niður í minnst um helming - þannig að sósan væri þykk og falleg.


Næst skar ég eggaldinið niður í helminga og hreinsaði innihaldið út en skildi nóg eftir þannig að það væri líklegra til að halda formi sínu þrátt fyrir að vera bakað í ofni. 


Steikti síðan innvolsið af eggaldininu í jómfrúarolíu. Saltaði vel og pipraði. Að lokum hellti ég eggaldininu saman við kjötsósuna. Bætti síðan basilinu saman við. 


Síðan fyllti ég eggaldinið með kjötsósunni. 


Stappaði svo niður fetaostinn. 


Og dreifði ríkulegu magni af honum yfir.


Bakaði svo inni í ofni í 35 mínútur. 




Með matnum drukkum við síðan örlítið tár af ljúffengu frönsku víni frá E.Guigal. Þetta er Cotes du Rhone vín frá því 2010. Þetta vín er blanda úr þremur þrúgum, Syrah 60%, grenache 30 % og svo 10% mourvedre þrúgur. Liggur í eikarfati í eitt ár áður en það er sett á flöskur og selt í verslanir. Þetta er ljómandi góður sopi, fallega rautt, lyktar af villtum berjum, kryddað. Langt eftirbragð, eikað og með góðu jafnvægi. Þetta vín hefur oft fengið háa einkunn í víndómum!


Þetta varð mjög gómsætt. Eggaldin umbreytist við eldun frá því að vera biturt á bragðið yfir í að vera djúpt og arómatískt. Hitinn af chiliinum kom líka vel í gegn - fyrir krakkana hefði ég kannski átt að kjarnhreinsa, en mér fannst þetta frábært. Bárum bara smá hreina jógúrt fram með matnum. Meira að segja Ragnhildur Lára var kampakát með matinn! 

Núna er kominn tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment