Sunday 20 May 2007

Thaifusion kjúklingur með basmati hrísgrjónum

Er er alltaf að reyna að færa mig meira í átt til Austurlanda í matseld minni. Það gengur en fremur hægt. Á alltaf erfitt með að slíta mig upp úr gamla farinu. Svo þegar ég loksins tek skrefið og elda eitthvað sem að ég held að sé austurlenskt eða eftir austurlenskri uppskrift finnst mér það alltaf meiriháttar.

Þessi uppskrift er innblásin af Kristni, vini okkar hjóna. Einhvern tíma þegar ég var að sækja Valdísi dóttur mína til þeirra var hann að elda rétt sem er kannski ekki ósvipaður þessum. Ég fékk að smakka hjá honum og rétturinn var alveg frábær - kókósmjólk, kóríander, kjúklingur, gult karrí, ferskur ananas - ljúffengt. Þessi réttur hjá mér í gærkvöldi var tilraun til að endurskapa þann rétt.

Ég keypti um daginn kókóshnetur - ég hafði hugsað mér að nota þær í salat - skafa ferskan kókós yfir en ákvað að bæta honum frekar útí réttinn - eftir á að hyggja hefði ég sennilega átt að skafa kókós eða raspa hann yfir matinn því að hann varð ansi stífur við eldunina, hafði bitana full stóra.

Thaifusion kjúklingur með basmati hrísgrjónum.

Fyrst voru kjúklingabringur, ca 500 gr, þvegnar og þurrkaðar og skornar niður í munnbitastóra bita. Bitarnir voru svo lagðir í smá marineringu sem samanstóð af smávegis af ferskum rauðum chilli, smá ferskum brytjuðum engifer, nokkrum skvettum af nam pla (fiskisósu), flatlaufssteinselju, salti og pipar. Látið standa í um klukkustund. Þá er nægur timi til að undirbúa afganginn af hráefninu og gæða sér á einu hvítvínsglasi á meðan - í þetta sinn Anakena chardonnay 2004 - afar gott.

Einn skarlottulaukur er skorinn smátt niður sem og 4 hvítlauksrif Svo er 4 cm af engifer skorinn smátt niður auk 2 rauðum chillipiparávöxtum sem hafa verið kjarnhreinsaðir. Olía er hituð í wok pönnu og þegar hún er heit er lauknum, hvítlauknum og engiferinu skellt á pönnuna ásamt einni tsk af túrmerik og einni tsk af muldu coríander. Þetta er steikt í smástund og þá er kjúklingum og chillipiparnum bætt saman við og steikt þar til kjúklingurinn hefur tekið lit.

Þá er 1 1/2 dós af kókósmjólk og 150 ml rjómi bætt útí ásamt niðurskornum kókós úr einni hnetu og 1/2 ferskur niðurskorinn ananas. Suðan var látin koma upp og svo var lokið sett á leyft að sjóða í 30-40 mínútur. Sem er ágætt því þá er tími fyrir annað hvítvínsglas - common, það er laugardagskvöld.

Þegar það fer að nálgast lok eldunartímans eru hrísgrjón soðið skv. leiðbeiningum á pakkanum og einfalt salat útbúið með. Borið fram með fersku kóríander sem hver og einn getur sáldrað yfir matinn sinn eftir smekk.

Rétturinn reyndist vera ansi sterkur þrátt fyrir talsvert magn af kókósmjólk, rjóma og ananas. Hann var mjög bragðgóður en ég hefði sennilega átt að matreiða kókósinn öðruvísi, skafa hann yfir í lokin eða eitthvað á þá leið - reyni það næst.


No comments:

Post a Comment