Wednesday 25 April 2007

Reykt laxa penne carbonara

Það virðist vera eitthvert laxaþema í gangi í eldhúsinu síðustu tvo sólarhringa. Það varð hálft flak af reyktum laxi afgangs frá því á Færeyingakvöldinu á laugardaginn sem mér datt í hug að koma í not á þennan hátt. Ég hef ekki eldað svona áður a.m.k. ekki svo að ég muni eftir. Ég hef hinsvegar einhvern tíma gert reykt laxapasta en þá í einhverskonar rjómasósu - man þó ekki uppskriftina - það var fyrir tíma bloggsins eða annarar vitrænnar skráningar á eldamennsku minni.

Bróðir minn kom aftur í mat, hann hefur verið mikið erlendis undanfarin ár og það er gott að fá hann heim. Hann er eins og komið hefur fram á vefnum ansi liðtækur í eldhúsinu ... bæði flinkur kokkur og flottur í uppvaskinu!

Spaghetti Carbonara hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá minni fjölskyldu, ætli það hafi ekki verið mamma sem eldaði þennan rétt fyrst fyrir mig þegar ég var unglingur - ljúffengur. Ég hef gert þó nokkrar útgáfur af spaghetti carbonara, með beikoni auðvitað, með og án rjóma, með túnfisk í stað beikons, með kjúklingi í stað beikons og einnig grænmetisútgáfu af þessum rétt. Enginn þeirra náttúrulega eins góður og orginalinn.

Þessi var hinsvegar ansi ljúfengur. Reyktur lax og beikoni er vart hægt að kalla lík hráefni en þau deila einum eiginleika og það er seltan, sem er alveg nauðsynleg til að gera gott carbonara ... og auðvitað hellingur af nýrifnum parma osti og nýmuldum svörtum pipar - jippí.

Reykt laxa penne carbonara

400 gr af góðum reyktum laxi er skorið niður í fremur litla bita. Svo er fjórum stórum eggjum hrært saman í skál ásamt 50-70 gr af parma osti, kannski smávegis af venjulegum rifnum osti, Maldon salti, hellingi af möluðum pipar og skvettu af mjólk (eða rjóma - það má líka sleppa mjólkinni og reyndar rjómanum líka). Í lokin er 1/3 búnti af smátt skorinni ferskri steinselju bætt saman við.

Því næst er penne pasta soðið skv. leiðbeiningum í miklu söltuðu vatni þar til það er orðið al dente (sem þýðir að það er smá bit í miðjunni á pastanu). Þegar pastað er soðið er vatninu hellt frá og eggjablöndunni og reykta laxinum blandað saman við og hrært vandlega saman þannig að pastað sé vel þakið með eggjasósunni. Mikilvægt er að hafa hraðar hendur svo að pastað kólni ekki um of því að það er hitinn frá pastanu sem á eftir að elda egginn. Lok er svo sett á pottinn og látið standa í mínútu eða tvær.

Borið fram með hvítlauksbrauði, baguette smurðu með heimagerðri hvitlauksolíu og smávegis af rifnum osti og fersku salati - ég er þessa daganna með fremur einföld salöt; í þetta sinn var notast við klettasalat, nokkur spínatblöð, 1 niðurskorinn tómat, 1/3 smátt skorna agúrku, fetaost og svo nokkur ristuð graskersfræ og hálfa handfylli af furuhnetum.

Þetta var alveg ljúfeng máltíð og fljótleg að elda, tók sennilega innan við 30 mínútur frá því hafist var handa þar til máltíðin var borin á borð. Vesgú


No comments:

Post a Comment