Tuesday 16 January 2007

18 manna matarboð - framhald

Það er best að halda áfram að greina frá þessu matarboði. Ég er afar stoltur af því hvað það heppnaðist vel - hef aldrei áður eldað fyrir svona marga - og hvað þá fimm réttað.

Í aðalrétt var ég með grillaðar andabringur. Þær voru eldaðar á eins einfaldan máta og hugsast getur. Látnar þiðna í rólegheitum í ískáp. Þvegnar, þurrkaðar. Því næst saltaðar og pipraðar og steiktar á grillpönnu þar til fitan varð karmelliseruð og knassandi (2-3 mínútur) og svo aðeins á hinni hliðinni. Svo var bringunum skellt í ofn sem var um 170 gráðu heitur í rúmar 10 mínútur. Var með hitamæli í kjötinu.

Með þessu var ágætis villisvepparauðvínssósa sem var elduð á þessa leið; niðurskorinn hvítlaukur, laukur, sellerí og gulrætur steiktar í potti í ólívuolíu. Ég keypti tvennskonar þurrkaða sveppi sem ég lagði fyrst í volgt vatn og svo sjóðandi vatn í nokkrar mínútur. Þegar grænmetið er farið að mýkjast er vatninu af sveppunum hellt í pottinn (ca 1 L), auk þess setti ég hálfa flösku af Vicar's choice Pinot Noir útí og suðan fékk að koma upp. Saltað og piprað. Villibráðakraft að hvaða tagi sem er er sett ofan í og svo meira vatn.  Suðan fær að koma upp og svo soðið niður á nýjan leik. Þetta fékk að sjóða með lokið á í rúma 2 tíma. Næst er grænmetið skilið frá og soðið sett aftur í pott og látið malla. Villisveppunum var núna bætt útí og soðið smakkað til. Saltað og piprað. Þegar sósan var að verða tilbúinn var 2 msk af gullgráðaosti bætt útí ásamt 2 msk af rifsberjasilli og svo pela af rjóma er bætt útí og sósan soðin áfram og þykkt aðeins með maizenamjöli. Ég maukaði grænmetið sem kom úr soðinu með töfrasprota og bragðibætti sósuna með þessu - það bæði bragðbætir og þykkir hana - ég endaði með því að nota um um fjórðung af grænmetinu aftur ofan í sósuna
Meðlætið að þessu sinni var þrennskonar. Fyrst voru kartöflur og sætar kartöflur skornar í bita og lagt í eldfast mót, ólívuolíu hellt yfir, saltað og piprað og nóg af rósmarín sett með. Bakað í ofni í 40 mínútur við ca 200 gráður.

1 1/2 haus af rauðkáli var sneitt niður. 1 pakki af beikoni var skorinn í bita og steikt í potti og tveimur söxuðum grænum eplum var því næst sett útí ásamt rauðkálinu. Þetta fékk aðeins að mýkjast í pottinum. Svo var 100 ml af Balsamic vinegar bætt saman við sem og 2 msk af Maple sýrópi. Saltað og piprað. Rauðkálið, eplin og beikonið er því nánast soðið niður í edikinu. Lyktin er alveg dásamleg sem kemur af þessu.
Í lokin var svo hvítlaukssteiktur aspas. Smár ferskur aspas var snyrtur og skolaður. Smjör hitað á pönnu og 5 smáttskornum hvítlauksrifjum bætt útí og látið mýkjast í smjörinu. Því næst er aspasinn settur útí og látin malla í hvítlaukssmjörinu.

Með matnum var drukkið Vicar's Choice Pinot Noir 2005, sem passaði afar vel með matnum. Bon appetit.

No comments:

Post a Comment