Saturday, 14 December 2019

Hátíðarmaturinn 2019? Úrbeinaður og fylltur hreindýrahryggur, eldaður sous vide, með púrtvínssósu frá grunni, seljurótarmús, hvítlaukssteiktum strengjabaunum og fullkomnum ofnsteiktum kartöflum



Fyrsti í aðventu er nú um helgina og margir án efa farnir að leiða hugann að jólamatnum. Flestir halda í hefðirnar. Sjálfur er ég íhaldsmaður þegar það kemur að því að elda fyrir jólin. Ég er alinn upp við svínahamborgarahrygg frá blautu barnsbeini en eiginkona mín, Snædís Eva, ólst upp við rjúpur. Á aðfangadag held ég því oftast í hefðirnar - og reyni að sætta báða arma fjölskyldunnar. Aðra hátíðardaga er í raun frítt spil. Kalkúninn kemur auðvitað sterkur inn - og svo hangikjötið.

Fyrir þá sem hafa aðgang að villibráð - þá er í raun fátt hátíðlegra. Þessi uppskrift verður endurtekin - líklega á áramótum.

Þetta er ekki flókin uppskrift - en hún krefst tíma. Þetta er eldamennska sem þarf fjórar til fimm klukkustundir - sem í raun ætti ekki að koma að sök. Bróðurpartur vinnunnar er fólginn í því að bíða eftir soði eða eftir því að hryggurinn verði klár í vatnsbaðinu. Og þó að ég hafi eldað hrygginn "sous vide" þá er lítið mál að elda hann í ofni. Ætli ég myndi ekki ráðleggja að elda hann við 160 gráður og nota kjarnhitamæli. Það skiptir eiginlega höfuðmáli - því auðvitað vill maður ekki klúðra jólaeldamennskunni. Hvaða kjarnhiti er svo æskilegur - er mat hvers og eins - ég kaus að hafa kjötið "medium rare" - og stillti tækið á 54 gráður.

Hátíðarmaturinn 2019? Úrbeinaður og fylltur hreindýrahryggur, eldaður sous vide, með púrtvínssósu frá grunni, seljurótarmús, hvítlaukssteiktum strengjabaunum og fullkomnum ofnsteiktum kartöflum

Fyrir sex til átta

hreindýrahryggur
handfylli bláber
villibráðakryddblanda frá Kryddhúsinu
1 msk blóðberg
2 msk jómfrúarolía
1 msk ferskt timjan
1 msk ferskt rósmarín

Fyrir sósuna

2 gulrætur
2 sellerísstangir
1 gulur laukur
2 hvítlauksrif
2 lárviðarlauf
100 ml púrtvín
2 l af vatni
salt og pipar

Smjörbolla (60 g smjör, 60 g hveiti)
Edmont Fallot cassis bragðbætt sinnep (í staðinn fyrir sinnep og sultu)

Meðlætið

1 seljurót
100 g smjör
150 ml rjómi
salt og pipar

250 g strengjabaunir
50 g smjör
1 hvítlauksrif
100 ml hvítvín
salt og pipar

700 g kartöflur
2 msk hveiti
2 msk andarfita
salt og pipar


Fyrsta skrefið er að úrbeina hrygginn. Það mun reynast einhverjum aðeins snúið. Það er upplagt að lesa sér aðeins til áður en hafist er handa. Án efa er hægt að leita fanga á netinu - og áreiðanlega má finna einhver myndskeið. Hér er myndskeið þar sem verið er að úrbeina lambahrygg - sem gott er að hafa til hliðsjónar. Galdurinn er að fylgja beininu - í hvívetna.

Næsta skref er að nudda kjötið með jómfrúarolíu og bragðbæta með kryddblöndunni, blóðbergi, ferskum kryddjurtum og bláberjum.


Þá er að binda hrygginn upp og koma fyrir í poka og innsigla með vakúmvél. 


Eins og ég nefndi hér að ofan þá stillti ég tækið á 54 gráður og eldaði kjötbitana í þrjár klukkustundir.


Á meðan kjötið var í vatnsbaðinu þurfti að huga að sósunni. Ég nuddaði beinin upp úr jómfrúarolíu, saltaði og pipraði og brúnaði í heitum ofni í nokkrar mínútur. Sneiddi gulrætur, sellerí, lauk og hvítlauk í bita og steikti upp úr olíu. Saltaði og pipraði. Brúnuðu kjötinu var svo bætt saman við ásamt lárviðarlaufunum og blandað vel saman.


Bætti svo við púrtvíninu og sauð áfengið upp. Næst var bætt við vatni - það hitað að suðu og látið krauma í tvær klukkustundir. 


Soðið var svo síað og soðið áfram niður þar til um 700 ml voru eftir. Sósan var þykkt með smjörbollu, bragðbætt með sinnepi, salti og pipar. Fullkomin!

Auðvitað þurfti að huga að meðlætinu.

Kartöflurnar voru flysjaðar og forsoðnar í 6 mínútur í söltuðu vatni. Þá var vatninu hellt frá og þeim velt upp úr hveitinu. Næst voru þær steiktar í andafitu þangað til að þær tóku á sig lit og svo voru þær færðar í eldfast mót þar sem þær voru steiktar í ofni í klukkustund þangað til að þær voru fallega brúnaðar. Fullkomnar ofnsteiktar kartöflur.

Strengjabaunirnar voru snyrtar og svo steiktar upp úr smjöri og hvítlauk. Þá var hvítvíni bætt á pönnuna, saltað og piprað. Áfengið var soðið nær alveg upp.

Seljurótin var flysjuð og skorin í bita og soðin í söltuðu vatni þangað til að bitanir voru mjúkir í gegn. Þá var vatninu hellt frá og smjöri og rjóma bætt saman við og maukað með töfrasprota þangað til að hún er fallega kremuð. Bragðbætt með salti og pipar.


Þegar kjötið er tilbúið er smjör brætt á pönnu. Þegar smjörið hefur tekið fallegan lit er kjötið brúnað að utan.


Svo er bara að raða á diskana. Fyrst seljurótarmúsin, kjötbitum tyllt ofan á, skreytt með strengjabaunum og kartöflum raðað á diskinn. Nóg af sósu. 


Með matnum nutum við Baron De Ley Gran Reserva frá því 2012. Þetta er þrælgott vín sem ég hef bragðað áður - annan árgang þó. Þetta vín fær 4,1 í einkunn á Vivino. Dökkt í glasi og ilmar af dökkum ávexti - plómur og krydd á tungu með góðri fyllingu og fínu jafnvægi. Eftirbragð lifir á tungu.


Svo var bara að skreyta steikina með smáræði af fersku timjan og setjast niður og skála með gestunum.

Og svo að njóta. Gleðilega hátíð!

------

Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 8 December 2019

Safaríkar fylltar kalkúnabringurúllur með hvítlauksbættu graskersmauki og karmellisseruðum nípum


Þessi uppskrift er smá snúningur á kalkúnauppskrift sem ég geri gjarnan á jóladag. Ég hef sagt frá þessari uppskrift nokkrum sinnum áður á blogginu mína, t.d. hérna. Þetta er hefð sem er komin úr móðurfjölskyldunni. Eiginlega frá því að ég man eftir mér var eldaður kalkúnn á jóladag. Mín vegna mætti hafa kalkún oftar - mér þykir hann einstaklega ljúffengur. Og þessi uppskift heppnaðist einkar vel. Og hún var eiginlega heldur fljótleg - svona miðað við margan veislumat.

Safaríkar fylltar kalkúnabringurúllur með graskersmauk og karmellisseruðum nýpum

Fyrir fjóra til fimm 

1 kalkúnabringa (þessi var rúmlega 1,1 kg) 
300 g svínahakk
1 laukur
2 hvítlauksrif
10 þurrkaðar apríkósur
10 pekanhnetur
handfylli steinselja og timjan
2 msk hlynsíróp
50 g smjör

1/2 butternut grasker
4 msk hvítlauksolía
50 g smjör 
50 ml rjómi
salt og pipar

4 stórar nípur
2 msk jómfrúarolía
2 msk hlynsíróp 
salt og pipar

Sósan

2 msk smjör
2 gulrætur
2 sellerístangir
1 laukur
3 hvítlauksrif
salt og pipar
lárviðarlauf
600 ml kalkúnasoð
2 msk worchestershire sósa
vökvi af kalkúninum
25 g smjörbolla (25 g smjör/25 g hveiti)
rjómi
sulta

Jæja, vindum okkur í þetta.



Fyrst er auðvitað að hreinsa og þerra bringuna.


Næsta skref er svo að skera í bringuna og fletja hana út. Það er gert með því að skera í gegnum neðri hlutann af bringunni, bara ekki skera alveg í gegn og fletta henni upp. Svo sker maður í gegnum miðju hlutann og flettir þeim hluta upp eins og bók. Þannig er komin bringa sem er orðin rúmlega tvisvar sinnum stærri en byrjað var með.


Svo er að huga að fyllingunni. Byrjaði á því að steikja laukinn og hvítlaukinn upp úr smjöri og bætti honuð svo saman við grísahakkið, hakkaðar pekanhnetur, apríkósur og niðurrifnar kryddjurtir. Bleytti upp í kjötinu með hlynsírópi, saltaði og pipraði. 


Svo dreifði ég fyllingunni í þunnu lagi yfir tvo þriðju hluta kalkúnabringunnar og rúllaði henni upp.


Batt svo rúlluna vandlega upp með þræði, nuddaði að utan með jómfrúarolíu og kryddaði aðeins með blöndu af þurrkuðu oregano, sítrónupipar, majoram, timjan og salti og lagði ofan á beð af lauk, sellerí, gulrótum. Smá hvítvín og svo inn í 180 gráðu heitan ofan og bakað þangað til að kjarnhiti var kominn í 70 gráður.


Skar graskerið niður í sneiðar, penslaði með hvítlauksolíu og ristaði í ofni í nokkrar mínútur þangað til að það var mjúkt í gegn. Setti það svo í skál með rjóma og smjöri og maukaði vel og vandlega. 


Nípurnar voru eins einfaldar og hugsast getur. Flysjaðar og sneiddar niður í fjórðunga og svo velt upp úr olíu og sírópi og svo bakaðar inn í 180 gráðu heitum ofni í rúmlega 30 mínútur. 

Svo er það sósan. 

Flysjið og skerið grænmetið smátt og steikið í smjörinu þangað til að það er mjúkt og ilmandi. Bætið lárviðarlaufinu saman við. Þegar grænmetið er mjúkt hellið þið kalkúnasoði ásamt worchestershiresósu saman við og látið krauma við lágan hita í 30-45 mínútur. Síið síðan soðið og setjið í skál. Útbúið smjörbollu og hellið síðan soðinu saman við og blandið vel saman. Smakkið nú til með rjóma, sultu, salti og pipar. Bragðbætið með vökvanum sem fellur til við eldun kalkúnabringunar. Smakkið áfram til þangað til að sósan er orðin ljúffeng. Sósu þarf alltaf að deddúa aðeins við!


Bætið vökvanum sem fellur til af kalkúnabringunni saman við sósuna.


Ég veit ekki um ykkur - en mér fannst þetta kalkúna "rúlla" heppnast ansi vel.


Með matnum drukkum við þetta ljúffenga spænska rauðvín - Alexander vs. the ham factory. Þetta vín er framleitt í Ribera del Duero dalnum. Vínið er framleitt úr Tinto Fino þrúgum og er einstaklega ljúffengt. Ilmar af ljúffengum dökkum berjum - bragðið með miklum ávexti, eik og súkkulaði. Mjög gott vín.


Þessi máltíð heppnaðist einkar vel og rann ljúflega niður.

Bon appetit!

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 1 December 2019

Höfðingleg skyrterta með hvítu súkkulaði, þeyttum rjóma, hindberjamarmelaði og ferskum hindberjum

Í október fór ég í boði íslenska fyrirtækisins Kerecis og eldaði fyrir gesti á ráðstefnu sem haldin var í Las Vegas. Sú borg er vægast sagt furðuleg - ætli absúrd sé ekki lýsingarorðið sem á best við, alltént að mínu mati. Ég sá ekki mikið af borginni - fór í stutta gönguferð um "The Strip" og heimsótti svo Ceasar's Palace nokkrum sinnum en þar var veislan sem ég eldaði fyrir haldin.

Ég varði bróðurpart tímans í Las Vegas bak við eldavélina ásamt bróður mínum - og við áttum saman góðar stundir. Hlustuðum á tónlist, smökkuðum á craftbjór og elduðum níu rétta veislu fyrir 100 manns.

Og þó að ég segi sjálfur frá þá heppnaðist hún ljómandi vel. Þennan eftirrétt bjó ég til - en hann byggir á annarri uppskrift sem ég gerði fyrir nokkrum árum. En niðurstaðan er frábrugðin - þessi er mun meira frískandi.

Ég ætlaði að byggja þetta upp eins og litlar tertur á disk en þegar á hólminn var komið áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt mótunum mínum - í Las Vegas.

Þessi færsla birtist nýverið á heimasíðunni Gott í matinn, sjá hér, sem er heimasíða á vegum Mjólkursamsölunnar en þar kennir ýmissa grasa, sjá hérna.

Höfðingleg skyrterta með hvítu súkkulaði, þeyttum rjóma, hindberjamarmelaði og ferskum hindberjum

Fyrir sex

Fyrir botninn

100 g pekanhnetur
130 g haframjöl
100 g smjör
4 msk hlynsíróp

350 g hreint Ísey skyr
300 hvítt súkkulaði
250 ml þeyttur rjómi
2 gelatínplötur

12 msk hindberjamarmelaði
2 öskjur af hindberjum

1. Byrjið á því að mala hneturnar í matvinnsluvél og blanda saman við haframjölið.
2. Bræðið smjör og blandið saman við mjölið ásamt hlynsírópinu.
3. Smyrjið deiginu á ofnskúffu og bakið í 15 mínútur við 180 gráður. Látið kólna.
4. Brjótið svo kexið niður og raðið í skálar.
5. Blandið saman skyrinu, þeyttum rjóma og bræddu hvítu súkkulaði og svo gelatínplötunum (hægt að leysa þær upp í heitu súkkulaðinu).
6. Setjið því næst skyrblönduna ofan á kexið og setjið í ísskáp til að kólna og stífna.
7. Dreifið hindberjamarmelaðinu ofan á og skreytið með hindberjum.


------



Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Tuesday, 19 November 2019

Dásamlega Frakkland - Tartiflette - löðrandi ostagratín með lauk og beikoni með baguettu, salati og ljúffengu Pinot Noir rauðvíni


Liðna viku dvöldum við í Frakklandi við tökur á sjónvarpsþættinum Læknirinn í Eldhúsinu, ferðalag bragðlaukanna. Mig hefur lengi langað til að fara til Frakklands með sjónvarpsþáttinn enda er ég mikill Frakkaunnandi. Ég hreinlega elska franskan mat og franska matargerð. Ekki spillir svo fyrir að þeir gera dásamleg vín - hreinlega unaðsleg og svo er landið líka svo fallegt. 

Við heimsóttum Búrgúndarhérað - bæinn Beaune - sem er hjarta víngerðar í héraðinu og ókum svo til Champagne þar sem við heimsóttum bæði Reims og svo miðborg Kampavínsframleiðslu - Eperney. Hlakka mikið til að sýna ykkur þáttinn - ætli hann fari ekki í sýningar fljótlega upp úr áramótum. 

Dásamlega Frakkland - Tartiflette - löðrandi ostagratín með lauk og beikoni með baguettu, salati og ljúffengu Pinot Noir rauðvíni

Þessi réttur er þó ekki frá Búrgúndarhérðainu né er hann frá Champagne. Hann er úr Savoy héraði í frönsku Ölpunum. Hann á sér ekki sérlega langa sögu - tæplega fjörutíu ár. Hann varð til þegar gerð var tilraun til að markaðssetja ostinn sem leikur langstærsta hlutverkið í uppskriftinni - Reblochon - sem er rjómakenndur hvítmygluostur - mildur og ljúffengur. Sölutölurnar voru á hallandi fæti og menn þurftu að girða sig í brók.

Orðið Tartiflette á sér lengri sögu, skv. wikipediu - þar sem það kom fram í matreiðslubók eftir Francois Massialot og aðstoðarkokk hans Mathieu og er vísun í kartöflurnar sem notaðar voru og átti réttur þeirra lítið skylt við þennan. 

Það breytir þó litlu um að niðurstaða þessarar markaðsherferðar frá áttunda áratugnum sló í gegn - enda syndsamlega ljúffengur "decadent" réttur - löðrandi í osti, rjóma og beikoni. Ekki ætti að neita hans oft á ári - kannski bara á nokkra ára fresti. 

Hráefnalisti - dugar vandræðalaust fyrir 8 sem aðalréttur (já, ég veit að það skrítið að hafa gratín sem aðalrétt, en þessi er bara þannig)

1,5 kg kartöflur
700 ml rjómi
250 g þykkt beikon
500 g Reblochon ostur (eða annar hvítmygluostur)
4-5 greinar ferskt timjan 
salt og pipar

Meðlæti 

Einfalt salat 
frönsk salatdressing (3 hlutar olía, 1 balsamedik, smá djion, smá hvítlaukur, salt og pipar)

Baguette 


Ég keypti þennan ost í Gallerie Lafayette í Operu hverfinu - en við hjónin gistum þar í tvær nætur áður en við flugum heim til Íslands. Margir þekkja þessar búðir sem eru í nokkrum stórum byggingum - einni sem er tileinkuð konum, önnur körlum og svo mín uppáhalds - tileinkuð mat, eldhúsi og heimili. Í þeirri síðastnefndu fann ég mig. Í kjallaranum var dásamlegt úrval af góðgæti frá Frakklandi - dásemdarúrval af ostum. Og þegar ég sá þennan í ostaborðinu, rifjaðist þessi uppskrift upp fyrir mér.


Fyrsta skrefið var að sneiða niður beikonið og steikja það á pönnu. Það er steikt þar til það er eldað í gegn.


Næsta skref er svo að flysja kartöflurnar og skera þær í þunnar sneiðar - þetta á að vera gróflega skorið þannig að sneiðarnar mega vera ójafnar. Svo sneiða laukinn.

Svo þarf bara að raða. Ég smurði eldfast mót (nýja Han Solo mótið frá Le Creuset) með olíu og raðaði svo kartöflum, lauk, beikoni, timjan, salti og pipar á víxl. Laumaði með nokkrum smjörklípum,


Það þarf nóg af rjóma. 


Svo er það þessi ljúfi ostur. Hann hafði flatst aðeins út í ferðatöskunni en það kom ekki að sök.


Skar ostinn í þunnar sneiðar, saltaði og pipraði og bragðbætti með meira timjan. Lokið á og inn í 180 gráðu heitan ofn í 60 mínútur - svo lokið af og eldað áfram í 15-30 mínútur þar til osturinn fer að brúnast.


Með matnum nutum við þessarar flösku - Moillard Pommard Premier Cru - Les Grands Epenots sem er frá Búrgúnd. Þetta vín er eingöngu úr Pinot Noir eins og nær öll rauðvín í Búrgúndarhéraði. Þetta vín fékk ég að gjöf eftir heimsókn í víngerð Moilliard skammt fyrir utan Beaune. Þetta er einstaklega ljúft vín - rúbínrautt, ilmar af rauðum ávexti, smá cassis og aðeins jörð og eikartónar. Kannski hefði ég átt að spara flöskuna að næstu lambasteik - en mér fannst það standa sig vel við hliðina á feitu gratíninu.


Einfalt salat, frönsk salatdressing. Hitaði baguettuna upp í ofni í nokkar mínútur.


Gratínið ilmaði dásamlega.


Mikið er alltaf gott að koma heim til sín.

Bon appetit!

------

Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 3 November 2019

Gamlir vinir í heimsókn: Marókósk veisla - ofnbakaður kjúklingur með harissa og ólívumauki, spæsí eggaldinturn með granatepli, kúskús með feta og petispois, marglitar gulrætur með hunangi og fennel og flatbrauð steikt á flatoppnum


Mér finnst endalaust gaman að elda. Og best er að elda fyrir vini og vandamenn. Að þessu sinni voru gamlir vinir okkar hjóna í heimsókn. Við bjuggum í sömu götu í Lundi í Svíþjóð - Álfhildur býr þar enn ásamt eiginmanni sínum og þremur sonum.


Hún er á landinu í nokkra daga ásamt yngsta syninum, Grími. Við buðum einnig Addý og Gumma og þau komu með þrjár yngstu dætur sínar með sér, Önnu, Ellu Mæju og Helenu. Úr varð ekta sænsk veisla - fullt af ærslafullum krökkum og góðum vinum. Við erum endalaust að vona að Álfa, Jón Þorkell og drengirnir fari nú að flytja heim. Við söknum þeirra!

Þannig að til að reyna að lokka þau heim - var lagt í heljarinnar veislu! Og hún heppnaðist stórvel!

Gamlir vinir í heimsókn: Marókósk veisla - ofnbakaður kjúklingur með harissa og ólívumauki, spæsí eggaldinturn með granatepli, kúskús með feta og petispois, regnbogagulrætur með hunangi og fennel og flatbrauð steikt á flatoppnum

Fyrir kjúklinginn

1,8 kg af kjúklingaleggjum og lærum.
1 bolli heimagert ólívumauk (krukka af svörtum ólífum, hvítlaukur, salt og pipar og jómfrúarolía)
4 msk heimagerð harissa (siracha, jómfrúarolía, harissablanda frá Kryddhúsinu)
handfylli af steinselju
2 msk sítrónupipar
1 msk salt
2 msk broddkúmen
1 msk túrmerik
250 g kalamataólívur
1/2 bolli jómfrúarolía
4 msk hunang

Fyrir eggaldinturninn

4 eggaldin
250 ml bragðbætt grísk jógúrt (bragðbætt með 3 hvítlauksrifjum, safa úr heilli sítrónu, hunang)
spæsí tómatsósa (laukur, hvítlaukur, karríduft, 2 dósir tómatar og 1 krukka af tómatachutney frá Friðheimum, salt og pipar)
1/2 granatepli
mynta til skreytingar

Fyrir kúskúsið

1 pakki kúskús
1 fetakubbur
1 rauð papríka
1 græn papríka
1 bolli petit pois
góð jómfrúarolía
salt og pipar
mynta til skreytingar

Fyrir gulræturnar

400 g íslenskar regnbogagulrætur
3 msk jómfrúarolía
2 msk hunang
1 msk fennelfræ
salt og pipar

Fyrir flatbrauðið, sjá hérna - nema að ég sleppti kjúklingabaununum.


Fyrsta skrefið var að marinera kjúklinginn. Ég hafði gleymt að kaupa ólífumauk - svo ég bjó til mitt eigið. Tók krukku af svörtum ólífum, skolaði og setti í litla matvinnsluvél ásamt heilum sólóhvítlauk, salti, pipar og jómfrúarolíu og maukaði.


Svo var að útbúa chilimaukið - harissa, sem ég átti ekki heldur. Þá var ekkert að gera annað en að henda saman sirachasósu, jómfrúarolíu og 1 msk af marókkóskri chiliblöndu.


Næsta skref var að mala broddkúmenið í mortéli. 


Að lokum var að sameina hráefnin - ólívumaukið, steinseljuna, chilimaukið, túrmerikið, sítrónupipar, salt og hunang.


Notaði góða jómfrúarolíu.


Sett í stóra skál og látið marinerast í fjórar klukkustundir.


Næsta skref var að gera tómastósuna. Steikti laukinn, hvítlaukinn og karríið saman upp úr jómfrúarolíu og bætti svo tómötunum saman við. Næst var að bæta tómatmaukinu saman við og láta krauma í um klukkustund við lágan hita. 


Tók þessu næst eggaldin og skar niður í ámóta stóra bita, penslaði með jómfrúarolíu og bakaði í 200 gráðu heitum ofni í um 30 mínútur. Sneri einu sinni.

Á meðan eggaldinið var í ofninum bjó ég til jógúrtsósuna. Blandaði saman grískri jógúrt, sítrónusafa, smátt söxuðum hvítlauk, hunangi, salti og pipar og lagði til hliðar.


Svo var bara að raða þessu upp. Fyrst eitt lag af eggaldini, svo tómatsósa, svo jógúrt og endurtaka þar til hráefnið var uppurið.

Sáldraði fullt af myntu yfir. Áður en ég bar réttinn á borð skóf ég innan úr hálfu granatepli og setti yfir. Klikkaði á því að taka ljósmynd, afsakið það.


Gulræturnar voru ofureinfaldar. Flysjaði tvo poka af regnbogagulrótum og skar í fernt eftir lengdinni og lagði í eldfast mót. Velti upp úr jómfrúarolíu og hunangi, salti og pipar. Sáldraði svo fennelfræjum yfir og bakaði í 180 gráðu heitum ofni í þrjú kortér. Velti þeim nokkrum sinnum á eldunartímanum til að hindra að þær myndu brenna. 


Þær urðu líka alveg fullkomar. Skreytti með myntulaufum.


Hrærði í brauðinn fyrr um daginn svo að þau fengu tíma til að hefast, þar verður bragðið af þeim til. Hægt er að sjá uppskriftina hérna. Eins og fram hefur komið sleppti ég kjúklingabaununum og steikti brauðin frekar en að grilla þau. Þau heppnuðust ljómandi vel!


Kúskús er líklega einfaldasta meðlæti sem um getur. Setti kúskúsið í skál og hellti sjóðandi kjúklingasoði yfir og setti plastfilmu yfir skálina og beið í fimm mínútur. Voila - tilbúið. Svo setti ég það á skálar og skreytti með fetaosti, petis pois, rauðlauk, papríku, ferskri myntu og svo góðri jómfrúarolíu. Og salt og pipar að sjálfsögðu.


Kjúklingurinn ilmaði dásamlega þegar ég sótti hann í ísskápinn. Lagði hann í eldfast mót, hellti 250 g af kalamataólífum yfir og bakaði í 180 gráðu heitum ofni í fimm kortér. 


Kjúklingurinn ilmaði ennþá betur þegar hann kom út úr ofninum. Skreytti með ferskri steinselju. Ferskt kóríander hefði einnig verið ljúffengt en sumir í minni fjölskyldu þola ekki kóríander - svo að úr varð steinselja, sem er líka dásamlega ljúffeng.


Maturinn var lagður á borð - og úr varð sannkallað hlaðborð. 


Með matnum nutum við svo rauðvíns sem ég hef drukkuð áður og meira að segja heimsótt víngarðinn. Við tókum upp sjónvarpsþætti á vínekrunni fyrir rúmum tveimur árum. Valiano 6.38 Gran Selezione Chianti Classico frá 2010. Þetta vín er að mestu unnið úr Sangiovese þrúgum (90%) eins og flest vín frá Toskana. En til að gefa því en meira fútt er það blandað með Merlot þrúgu. Og þá kallast vínin oft Super Toskana vín. Þetta er kraftmikið vín, sultað - með kirsuberjum og ögn kryddað með mjúku og bragðmiklu eftirbragði. Passaði vel með matnum. Seinast þegar ég smakkaði þetta vín paraði ég það líka með maróskóskum mat, sjá hérna!


Þetta var ótrúlega ljúffeng máltíð.

Kannski að okkur takist að lokka Álfu, Jón Þorkel og drengina til Íslands. Hver veit?

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa