Thursday 24 October 2013

Smjörsteiktur lax með heitri balsamvinagrettu, hnetumulningi og þeyttu spínati.



Nú fer að líða að því að bókin mín verði aðgengileg í verslunum. Ég vona að þið, lesendur góðir, eigið eftir að kunna að meta hana. Nóg hafði ég gaman af því að búa hana til. Í bókinni eru margar af vinsælustu og bestu réttunum af blogginu mínu (allt í nýjum búning) og svo fjöldi nýrra uppskrifta. Það er ekkert betra en að elda mat - jú, kannski að borða ljúfengan mat. Fátt er meira verðlaunandi en að setjast niður með fjölskyldu og vinum við matarborðið og njóta þess sem maður hefur verið að sýsla í eldhúsinu og vonandi, já vonandi, verða allir saddir og sælir af því sem matreitt var. Fátt gleður mitt kokkahjarta meira!

Þessi réttur var einn af fyrstu réttunum á blogginu mínu, hann birtist 17. janúar 2008. Þá var ég að vinna sem deildarlæknir á blóðmeinafræðideildinni með frábærum kollegum og öðru samstarfsfólki. Mér er það afar minnistætt þegar Brynjar Viðarsson læknir sagði við mig að loknum stofugangi að hann og konan hans hefðu prófað réttinn og höfðu verið yfir sig sæl með niðurstöðuna. Þeir sem blogga, vita hvað svona athugasemdir vekja hjá manni mikinn eldmóð. Og það þarf ekki mjög margar jákvæðar athugasemdir til að gleðja mann.

Á næstu vikum mun ég verða með smá upprifjun á gömlum réttum af blogginu, að sjálfsögðu ú uppfærðum búningi. Sumir þeirra komust í bókina mína - en aðrir ekki. Þannig að nóg er í pípunum! Og auðvitað taka allir réttir einhverjum breytingum og þróast lítillega - nokkur skref áfram og fáein til hliðar, þannig er það nú bara. Þessi réttur varð, að ég held, aðeins betri við smávægilegar breytingar.

Smjörsteiktur lax með heitri balsamvinagrettu, hnetumulningi og þeyttu spínati.



Lax
1/2 skarlottulaukur
3 hvítlauksrif
1/2 rauðlaukur
1 msk cashew-, furu- og heslihnetur
6 msk jómfrúarolía
3 msk edik
2 msk smjör
Börkur of safi af hálfri sítrónu
300 gr spínat
Salt og pipar


Keypti lax frá Noregi - sem mun hafa verið sjóalinn. Ég er vanur að velja fremur sjóalinn eldislax. Hann hefur þó allavega fengið að synda á móti straumnum.



Skar laxinn í fjóra bita - hver biti sérsniðinn að óskum hvers fjölskyldumeðlims.



Svo var bara að undirbúa hráefnin. Byrjaði á því að skera hálfan skarlottulauk smátt.



Svo hálfan rauðan chilipipar sem ég hafði kjarnhreinsað. Og loks þrjú hvítlauksrif - smátt söxuð.



Tók rúma matskeið af cashew-, furu- og heslihnetum sem ég þurrristaði á heitri pönnu. Færði svo yfir í mortél og svo fékk Villi Bjarki að mylja þær gróft niður.



Næst var að steikja skarlottulaukinn, hvítlaukinn og chilipiparinn í þrem matskeiðum af góðri jómrúarolíu og einni matskeið af smjöri. Steikti í 3-4 mínútur og bætti svo við tveimur matskeiðum af olíu, tveimur af ódýrari tegund af balsamediki og svo einni af því góða (sem hafði fengið átta ár til að þroskast í tunnu - mun sætara) og leyfði að krauma á lágum hita. Vitaskuld var saltað og piprað. Bætti líka við söxuðum berki af hálfri sítrónu.



Setti matskeið af smjöri og olíu á heita pönnu og steikti laxinn fyrst í 5-6 mínútur með roðið niður og snéri síðan laxinum við og steikti í 3-4 mínútur til viðbótar, til að elda í gegn.



Bræddi smá smjör á pönnu og setti 300 gr af spínati á pönnuna sem verður fljótt að mauki. Hellti ríflegri matskeið af sherríi á pönnuna og sauð upp. Saltaði og pipraði.



Það er mikilvægt að hella smjörinu yfir laxinn á meðan hann er að steikjast. Þannig tryggir maður að roðið verði stökkt. Saltaði og pipraði og dreifði að lokum safa úr hálfri sítrónu yfir hjúpinn.



Villi sá um að skera tómatana. Keypti blöndu af rauðum, gulum og svo grænum tómötum til að setja í salat með nokkrum söxuðum grænum laufum.


Skvetti jómfrúarolíu yfir salatið, saltaði og pipraði og að lokum var smá sítrónusafa dreift yfir.



Svo var ekkert annað að gera en að raða á diska. Fyrst spínatið. Svo laxinn. Og svo rausnarlega af heitri vinagrettunni. Að lokum sáldraði ég hnetumylsnunni yfir réttinn. 


Með matnum drukkum við smáræði af hvítvíni. Ekki er annað hægt þegar um svona veislumat er að ræða. Ég átti flösku af Cloudy Bay Chardonnay sem er hreint afbragð og við höfum drukkið nokkrum sinnum áður. Þetta vín er fallega sítrónugult í glasi, ávaxtaríkt á tungu með keim af eplum, sítrónum - smjörkennt með góðu og mildu eftirbragði. Hvítvín getur verið það eina rétta á vissum stundum.



Skreytt með myntulaufi.

Tími til að njóta!



Það held ég nú!

No comments:

Post a Comment