Thursday 3 October 2013

Kjúklingur alla cacciatora - Kjúklingakássa veiðimannsins


Nú er farið að hausta. Laufin á trjánum farin að fölna og falla af trjánum. Síðustu daga hefur veðrið leikið við okkur með brakandi frísklegum dögum þar sem Lundur skartar sínu besta. Við feðgarnir hjólum venjulega samferða á morgnana í gegnum Sankt Hans Backa (þar sem Lundarbardagi var háður 1676). Ég skil Villa eftir við Backaskólann sem liggur í jaðri þessa ágæta útisvæðis og held áfram suður að spítalanum sem er nánast í miðbæ Lundar. Ég geri það að leik mínum að taka aðeins lengri rúnt á morgnum eins og þeim sem hafa verið síðustu daga og hjóla í gegnum kirkjugarðinn sem liggur vestan við sjúkrahúsið - einstaklega fallegur og hlýlegur reitur fullur af fallegum og vel hirtum gróðri. Og einhvern veginn mætir maður til vinnu fullur innblásturs.
Þessi uppskrift er kjörið til að hafa á fallegum haustkvöldum. Ætli fyrstu uppskriftirnar af þessum rétt hafi ekki kallað á að kanína yrði notuð í stað kjúklingins sem veiðimaðurinn sótti út í skóg og kom með heim í soðið. En dóttir mín tekur ekki í mál að snæða kanínu og einhvern veginn segir mér svo hugur að lítil stemming (eða hefð) sé fyrir að eta slíkt á Fróni - þó svo kanínur séu úrvals fæða.Þetta er klassískur ítalskur réttur sem á sér langa sögu og til eru margar uppskriftir. Nær allar kalla á tómata, skvettu af léttvíni, kjúklingasoð og svo rósmarín.

Kjúklingur alla cacciatora - Kjúklingakássa veiðimannsins
Hráefnalisti

1 kg kjúklingalæri
500 gr hveiti
Salt og pipar
2 tsk hvítlauksduft

50 gr smjör
1 msk jómfrúarolía
1 laukur
2-3 sellerístangir
3-4 gulrætur

2 hvítlaukar
2 greinar rósmarín
1 grein tímían
5 blöð af  salvíu
2 lárviðarlauf
200 ml hvítvín
1/2 dós ítölskir tómatar
400 ml kjúklingakraftur


Fyrst er að velta kjúklingnum upp úr hveiti sem hefur verið bragðbætt með salti, pipar og hvítlauksdufti.Kjúklingurinn er síðan steiktur upp úr tveimur msk jómfrúarolíu og 50 gr af smjöri þangað til að hann er fallega gullinn að utan. Hann er þá tekinn úr pönnunni og settur til hliðar.Þá er að skera niður - soffrito - sem það sama og Frakkar kalla mire poix (blanda af arómatísku grænmeti - lauk, sellerí og gulrætur).Grænmetið er svo sett í olíuna á pönnuna ásamt tveimur hvítlaukum skornnum í miðju. Við þetta er bætt tveimur greinum af rósmaríni, grein af tímíani, fimm blöðum af niðurskorinni salvíu og tveimur lárviðarlaufum.Steikið grænmetið í nokkrar míntútur. Var eiginlega að vígja nýju Le Creuset pönnuna mína fyrir þennan rétt. Keypti mér hana fyrir bókina sem er að koma út á næstu dögum - og notaði hana í myndatökur fyrir bókina! Frábær panna - og gott að hafa eitthvað á milli þess að vera pottur og svo panna.Næst bætið þið við 200 ml af hvítvíni og leyfið áfenginu að sjóða upp.Svo er sett hálfdós af góðum ítölskum tómötum og svo 400 ml af kjúklingakrafti. Saltað og piprað.Lokið er sett á pönnuna og leyft að krauma við lágan hita í eina klukkustund. Lokið er tekið af síðustu 15 mínúturnar til að leyfa sósunni að sjóða niður.

Fengum okkur tár af þessari ljómandi góðu flösku. Masi Bonacosta Valpolicella frá því 2011. Þetta er ítalskt rauðvín. Það er fallega ljósrautt í glasi. Ágætt fylling - létt, heldur í þurrari kantinn með ágætum berja og kryddkeim. Passaði vel með matnum.Náði því miður ekki að stilla réttninum upp á disk. Allir voru orðnir svangir og því var þetta borðað með bestu lyst - en þó rólega við kertaljós!

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment