Sunday 6 October 2013

Gómsætar grísakinnar og gulrætur langeldaðar í rauðvíni með kartöflumús



Einhverjir kunna að setja í brýrnar við að lesa um grísakinnar - þetta hefur ekki verið vinsæll partur af grísnum. Sem er eiginlega ótrúlegt þar sem þessi biti er einstaklega bragðgóður - og sé farið rétt með hann verður hann lungamjúkur og dásamlegur undir tönn. Og þessi hluti dýrsins kallar á langa og rólega eldun í nokkrar klukkustundir yfir vægum eldi eða í ofni.

Ég smakkaði grísakinnar í fyrsta sinn þegar ég var í Austurríki. Þar höfum við síðastliðin ár farið á skíði í Ölpunum og gist hjá vinum okkar, Dodda og Þurý, í góðu yfirlæti. Þau hafa haft þá hefð að einu sinni í viku er boðið upp á heilan langeldaðan grís sem hefur alltaf verið einstaklega ljúffengur. Einhvern tíma spurði ég kokkana sem koma með grísinn hver væri besti bitinn á grísnum og það kom mér verulega á óvart að hann skar út þennan bita handa mér. Og hann var ekki að ljúga - þetta er dásamlega meyr og mjúkur biti sem bráðnar á tungu.

Og ég hef alltaf verið á leiðinni að elda grísakinnar heima - en einhvern veginn aldrei komið mér að verki fyrr en í kvöld þegar ég var staddur í ICA hverfisbúðinni minni og þar var verið að kynna grísakinnar frá Bondens bästa (sem er fyrirtaks grísabændur). Og það var ekki lítið sem þetta var gott. Ég sló til - og hvað er betra en að elda mat upp úr rauðvíni (besti drykkur í heimi).


Og eins og síðasta uppskrift - þá er þetta ekta matur til að elda á haustmánuðum þegar farið er að rökkva og vindarnir fara að blása - þá ylja svona réttir næstum því meira en kærleikurinn.

Gómsætar grísakinnar og gulrætur langeldaðar í rauðvíni með kartöflumús



Hráefnalisti

1 kg svínakinnar
2-3 msk jómfrúarolía
Salt og pipar
1 gulur laukur
2 sellerísstangir
3 hvítlauksrif
1 flaska rauðvín
500 ml kjötsoð
Kryddvöndull úr 3 lárviðarlaufum, 2 greinum af rósmaríni og 10 greinum af fersku timian
30 gr hveiti
30 gr smjör



Og enn og aftur þetta er einföld eldamennska - raða hráefnum í pott og leyfa tímanum og hitanum að gera rest. Og ég lofa niðurstaðan verður dásamleg!



Fyrst er að velta einu kílói af grísakinnum upp úr 2-3 msk af jómfrúarolíu og salti og pipar.



Steikið síðan grísakinnarnar upp úr 2-3 msk af jómfrúarolíu í vel heitum potti (sem þolir að fara inn í ofn) og brúnið þær að utan.


Setjið til hliðar.



Skerið síðan niður einn gulan lauk, tvær sellerísstangir og þrjú hvítlauksrif niður smátt og steikið í fitunni sem er í pottinum.



Flysið og skerið gulræturnar í stóra bita.



Gætið þess að skrapa upp allt sem situr fast á botninum á pottinum (þarna er bragðið). Setjið síðan kjötið aftur ofan í pottinn ásamt einni flösku af kröftugu rauðvíni og hálfum lítra af kjötsoði. Gætið þess að salta og pipra.



Útbúið næst bouqet garni (kryddvöndul) úr þremur ferskum lárviðarlaufum, tveimur greinum af rósmaríni og tíu greinum af fersku timian.


Sjóðið upp á eldinum og færið síðan yfir í 160 gráðu heitan forhitaðan ofn og látið lúra þar í tvær til þrjár klukkustundir.



Takið síðan pottinn úr ofninum og veiðið kjötið og gulræturnar upp úr og setjið í skál. Setjið síðan pottinn aftur á hlóðirnar og hitið að suðu og sjóðið niður um þriðjung. Hellið síðan soðinu (sósunni) í gegnum sigti og þykkið með smjörbollu. Það verður um hálfur lítri af rauðvínssósu eftir í pottinum. Fyrir það magn þarf 30 gr af smjöri og jafnmikið af hveiti.



Flysjið og sjóðið kartöflur og útbúið kartöflumús til að bera fram með kjötinu.



Útbúið einfalt salat - bara grænlauf sem hægt er að klæða bara með jómfrúarolíu, salti og pipar og síðan smávegis af ferskum sítrónusafa. Vilhjálmur Bjarki sá um salatgerðina.



Og þá að víninu, RODA I Reserva 2006. Þetta er kraftmikið vín sem hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Ég er búinn að eiga þessa flösku í tvö til þrjú ár inni í skáp. Vínið er unnið úr 100 prósent Tempranillo þrúgum af framleiðendum sem eiga sér ekki langa sögu. Þeir hófu víngerð í upphafi níunda áratugarins. Samt eru þetta margverðlaunuð vín, kannski ekki að undra þegar maður les manifesto framleiðendanna, þeirra Mario og Carmen - http://www.roda.es/english/index.html. Þetta er geipilega gott vín með mikið af dökkum berjum, kannski kirsuberjum, jafnvel dökku súkkulaði og svo munnfylli af eik. Dvelur lengi á tungu með ljúfu eftirbragði. Og mikið rosalega var það gott með þessum sérstaklega góða mat!



Kjötið bráðnaði í munni og var ótrúlega ljúffengt!

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment