Tuesday 8 October 2013

Lúxus hvítvínskjúklingur með rjómalagaðri kantarellusósu og grilluðum aspas

Ég hef verið grasekkill þessa helgi. Snædís eiginkona mín fór ásamt vinkonu sinni, Arnfríði Henrýsdóttur, til London í húsmæðraorlof. Mér skilst að þær hafi notið sín í botn - enda var það líka tilgangur ferðarinnar. Bróðir minn hefur verið hjá mér til halds og trausts og ég get ekki séð betur en að þessi helgi hafi gengið stórslysalaust fyrir sig.

Á föstudaginn fengum við óvænta heimsókn. Vinur minn, Harold Koendgen, læknir í Sviss var á ráðstefnu í Kaupmannahöfn. Honum kynntist ég á námskeiði í Portúgal ásamt nokkrum öðrum læknum og við höfum síðan hist reglulega. Vorum síðast í vor í brúðkaupi í Somerset í Englandi, sjá hérna. Og svo höfum við líka hist nokkrum sinnum í Ölpunum, sjá hérna. Á föstudaginn eldaði ég grísakinnar, í gær svínarif og í dag, sunnudag, þennan ljúffenga kjúkling.

Kjúklingur með bjór í endanum er klassísk uppskrift - en hérna breytti ég aðeins út af og hellti hvítvíni í dósina. Ætli hugmyndin hafi ekki verið að sameina nokkrar góðar uppskriftir í eina. Hér kemur saman bjórdósin, kantarrellusósan sem ég gerði fyrst í Frakklandi fyrir þremur árum, sjá hérna, og svo kjúklingur með 40 hvítlauksrifjum, sjá hérna, nema hvað að ég notaði bara tuttugu að þessu sinni. Þessi uppskrift er því nokkurskonar bræðingur af þessum frábæru uppskriftum.

Lúxus hvítvínskjúklingur með rjómalagaðri kantarellusósu og grilluðum aspas

Og þetta er eiginlega matur sem eldar sig sjálfur.


Fyrst er að bræða 75 gr af smjöri og nudda vel inn í kjúklinginn. Salta vel og pipra og jafnvel nota örlítið hvítlauksduft. Drekka bjórinn í dósinni og setja svo hvítvín í staðinn, kannski 200 ml. Setja á grillið.



Skerið kantarellurnar  gróflega niður og steikið síðan upp úr smjöri, saltið og piprið. Hellið svo 100 ml af hvítvíni á pönnuna og sjóðið upp áfengið. Setjið síðan 200 ml af kjúklingasoði og svo 150 ml af rjóma. Sjóðið upp. Smakkið til með salti og pipar. Hægt er að þykkja sósuna með því að nota maizenamjöl eða bara smjörbollu.



Veltið aspasnum upp úr góðri jómfrúarolíu og saltið og piprið.



Þegar kjúklingurinn á tíu mínútur eftir grillið þið aspasspjótin.



Færið síðan yfir á disk, saltið vel og piprið og raspið síðan parmaost yfir. Vængbroddarnir á kjúklingnum brunnu aðeins - en það gerði lítið til þar sem restin af húðinni var eins og kex!



Ofnbakaður hvítlaukur - er eitthvað fegurra í heiminum? Hann verður dísætur með djúpt en milt hvítlauksbragð.

Síðan útbjó ég einfalt salat, romaine salat, nokkir plómutómatar og einföld vinagretta gerð úr góðri jómfrúarolíu og balsamediki.



Með matnum gæddum við okkur á Masi Campofiorin frá 2009. Þetta vín hef ég drukkið nokkrum sinnum áður - og kann alltaf jafnvel við!. Þetta er vín frá Ítalíu, svæðinu í kringum Feneyjar. Vínið er blanda úr fjórum þrúgutegundum; Corvina, Rondinella, Molinara og Rossignola þrúgum. Það er fallega kirsuberjarautt í glasinu. Á tungunni er vínið heldur ríkt af ávexti með smá sýrukeim og vott af mildum tannínum. Góð fylling og langt eftirbragð. Gott vín!


Svo er bara að raða matnum á disk, einn vænt kjúklingalæri, salat, aspas og svo kantarellurjómasósu!


Og aðeins meira af sósunni! 

Þetta var fullkomin sunnudagsmáltíð!

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment