Tuesday 22 October 2013

Gómsætt mousakka að hætti Valdísar með góðu salati

Dóttir mín, Valdís Eik, hefur það verkefni að kaupa inn og elda kvöldverð fyrir fjölskylduna einu sinni í viku. Þetta hefur gengið mjög vel hjá henni - þriðjudagskvöld eru hennar kvöld í eldhúsinu. Hún gerði fyrst kjöt í karrí, sjá hérna - sem var einkar vel heppnað. Hún hefur gert spaghetti rétt og svo tacos. Sjálftraustið eykst með hverri vikunni. Núna var það sérstaklega eftirtektarvert að hún tók til jafnharðan og hún eldaði. Stóð sig með prýði. 

Mousakka er svar Grikkja við lasagna Ítalanna - já, eða lasagna svar Ítalanna við mousakka Grikkjanna - hvað veit ég? Þetta byggir að miklu leyti á sömu prinsippum nema hvað í mousakkanu eru lasagnaplöturnar ekki með í spilunum sem breytir áferð réttarins mikið og einnig hefur lambahakk í stað nautahakks/grísahakks mikil áhrif á lokaáferð réttarins. Í stað lasagnaplatanna þá kemur eggaldin í staðinn. Sumir segja að maður eigi að raða þessu upp í lögum eins og lasagna, en ég held að maður hljóti nú að stýra því sjálfur. Fleiri uppskriftir en færri ráðlögðu að gera þetta á þann hátt sem ég sýni. 

Núna var svo komið að Valdís vildi gera þennan rétt - hún ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur en þegar við vorum búinn að hugsa í gegnum uppskriftina, þá er hún langt frá því að vera flókin.Hugmyndin að því að gera þennan rétt var fengin frá hinum stórkostlega Rick Stein, úr sjónvarpsþætti hans - Food heroes; another helping, þar sem hann ferðast um Bretlandseyjar og með innblæstri af því sem hann finnur á ferðalögunum eldar hann bæði hefðbundinn breskan mat en einnig þekkta rétta út góðu bresku hráefni. Í einum þættinum ræðir hann við velskan sauðfjárbónda sem leggur til hráefni fyrir þennan ljúffenga rétt.

Gómsætt mousakka að hætti Valdísar með einfaldri hvítri sósu og salati

2 eggaldin
1 stór hvítur laukur
3-4 hvítlauksrif
Salt og pipar
700 gr nautahakk
1 glas hvítvín
1 kanilstöng
Handfylli fersk bergmynta
Handfylli steinselja
Nokkur blöð basil
1 dós niðursoðnir tómatar
500 ml sýrður rjómi
2-3 ansjósuflök
150 gr ostur


Réttur sem þessi myndi kannski falla undir það sem kallast slowfood. Fyrir þá sem eru áhugasamir um eldamennsku á borð við þetta þá eru til samtök sem helga sér þessu hugtaki, sjá hér.  Alltént tók þessi réttur rúman einn og hálfan tíma í undirbúningi. Meira að segja í höndum dóttur minnar.


Hvað eggaldinin varðar þá voru þau steikt á undan. Olíu er hellt í pönnu og þegar olían er orðin heit þá eggaldinu sett útí og steikt. Eggaldinið sogar í sig mikið af olíu. Sumir segja að maður viti að eggaldinið er tilbúið þegar það gefur frá sér olíuna á nýjan leik - þannig að svipað magn af vökva sé í pönnunni fyrir og eftir. Valdís notaði tvö eggaldin sem hún skar eftir lengdinni.


Fyrst var að undirbúa hráefnin í réttinn. Byrja með  að undirbúa kjötsósuna. Hún var í raun afar einföld. Fyrst steikja einn stóran, smátt skorinn hvítan lauk, nokkur hvítlauksrif - einnig smátt skorin, saltað og piprað og svo steikt þangað til að þetta er mjúkt og gljáandi. Þá var um það bil 0,7 kílói af nautahakki bætt á pönnuna og steikt, saltað að nýju og piprað. Glas af hvítvíni bætt saman við og soðið upp. Þá er næst að bæta við einni kanilstöng og handfylli af ferskri bergmyntu og blanda vel saman, handfylli af steinselju og nokkur blöð af basil. Því næst einni dós af niðursoðnum tómötum. Hrært vel saman og leyft að krauma í rúman hálftíma.  Steiktum eggaldinsneiðum er síðan raðað í smurt eldfast mót.


Kjötið er síðan sett ofan á í jöfnu lagi. Í fyrri færslu vorum við með Bechamél sósu en núna brugðum við á þann leik að nota sýrðan rjóma, 500 ml blandaðan saman við fjögur ansjósuflök sem höfðu verið hökkuð fínt niður. Auðvitað var saltað og piprað. Síðan er hvítu sósunni dreift varlega yfir kjötsósuna. Að lokum er 150 gr af osti, blöndu af venjulegum osti og parmaosti dreift yfir. 


Bakað í 200 gráðu heitum ofni í 30 mínútur eða þangað til að osturinn er orðinn gullinbrúnn.


Borið fram með einföldu salati. Vilhjálmur Bjarki sá um að skera niður hráefnið í salatið. 


Ég er ekki frá því að stelpan hafi bara skákað mínu moussakka sem ég gerði hér um árið. 

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment