Sunday 27 October 2013

Grillaður grænn aspas með heimagerðri hollandaise sósu


Aspas er eitt af mínu uppáhalds meðlæti. Ég hreinlega fæ ekki nóg af aspas. Hægt er að fá ferskan aspas allt árið - á veturna er hann sóttur alla leið til Perú, sem er nú heldur langt í burtu. Þannig að ég reyni að hafa neysluna á honum í lágmarki yfir vetrarmánuðina en bæti svo fyrir það með því að borða mikið af honum á vorin þegar maður fær hann úr næsta nágrenni. Og mikið af aspas er ræktaður í kringum Lund og kallast þá Lundasparris og hérna eru menn stoltir af framleiðslu sinni. Og ekki að ástæðulausu.

Það er frábært að kaupa nýskorinn aspas þar sem stilkurinn er ennþá rakur og jafnvel ætur. Sumir ganga svo langt að segja að bragðið minnki líka eftir því sem lengra líður frá því að hann var skorinn. Það er gaman að sækja matinn sinn beint til bóndans - en aspasbændur í nágrenninu stilla aspasnum gjarnan upp í litlum bás við landareignir sínar og tylla lítilli krukku við hliðina þar sem maður getur sett peninginn.

Hollandaise sósa passar einkar vel með aspas - eins og svo mörgu öðru. Þetta er ein af frönsku móður sósunum og er að mestu gerð úr smjöri og eggjum. Dásamlegt!

Grillaður grænn aspas með heimagerðri hollandaise sósu


Hráefnalisti

Búnt af aspas
Salt og pipar
2 msk jómfrúarolía
3 msk  hvítvínsedik
Safi úr hálfri sítrónu
5 eggjarauður
1 matskeið af vatni
250 gr smjör



Veltið aspasnum upp úr olíu. Saltið og piprið. Grillið á blússheitu grilli.


Það þarf að snúa aspasnum nokkrum sinnum - gætið þess að hann brenni ekki.



Setjið þrjá msk af góðu hvítvínsediki og safa úr hálfri sítrónu í skál. Saltið og piprið. Setjið edikið, saltið og piparinn í pott og sjóðið niður um tvo þriðju þannig að aðeins ein matskeið verði eftir. Hellið síðan í stálskál.



Bætið fimm eggjarauðum saman við ásamt einni matskeið af vatni og þeytið vel saman með písk. Setjið skálina með eggjarauðunum yfir vatnsbað og hitið.



Þegar eggin fara að hitna er hægt að byrja að bæta smjörinu út í - samtals 250 gr. Verði skálin of heit takið þið hana af hitanum (vatnsbaðinu), bætið meira smjöri út í og þeytið kröftuglega. 



Þegar sósan er orðin þykk og glansandi er hún tilbúin.



Hellið yfir aspasinn.



Berið fram með góðri steik, eða jafnvel bara sem aðalrétt.

Tími til að njóta!

Og já - bókin mín er kominn í búðir! 1. nóvember næstkomandi verður útgáfuveisla í Eymundsson Skólavörðustíg kl 17-19. Verið hjartanlega velkomin!



No comments:

Post a Comment