Wednesday 24 January 2007

Vetrargúllassúpa með hafrakexi og mogginn í heimsókn

Það var hringt í mig frá morgunblaðinu í vikunni og ég var beðinn um að veita viðtal. Þá hafði einhver á morgunblaðinu lesið bloggið mitt - það var þá hann sem var að hreyfa teljarann hjá mér. Mér fannst þetta bara skemmtilegt og ræddi við Sigrúnu Ásmundardóttur blaðamann. Við ræddum stuttlega saman og svo spurði hún mig hvort að ég hefði ekki áhuga á því að fá ljósmyndara til að taka myndir af réttum sem ég væri að elda þennan daginn - mér leist bara vel á það - heimsyfirráð eða dauði!!! Mamma og pabbi eru að koma í mat. Það verða bara fjórir í mat í kvöld en ég er viss um að maturinn dugi fyrir 8 - ég er alveg vonlaus í að áætla rétt hvað magn varðar. Skýrir sennilega hvað ég þarf alltaf að vera að böðlast í ræktinni.

Fyrir valinu varð réttur sem ég eldaði fyrst í fyrra. Hugmyndin frá þessum rétt er fengin frá Michael Smith sem er kandískur kokkur - sem starfar mikið í sjónvarpi, hefur gefið út þrjár matreiðslubækur og á veitingastað í Halifax sem er í Kanada. Ég hef séð tvo þætti með honum - annars vegar Chef at large sem er frekar leiðinlegur ferða/matar þáttur og svo annar sem heitir Chef at home - sem er mjög góður. Sá þáttur fjallar um það hve auðvelt það er að spinna fram uppskriftir án þess að fara svo mikið eftir uppskriftum. Mjög skemmtilegur.

Allavega sá ég hann gera svona nautagúllaskássu sem tók fremur stuttan tíma að elda þar sem hann brytjaði grænmetið afar smátt og náði þannig góðum krafti upp á skömmum tíma.

Fyrst er 1 kíló af nautagúllasi steikt í heitri olíu. Bitarnir munu festast aðeins við - það er allt í lagi - þeir munu líka losna frá pönnunni þegar þeir eru tilbúnir (ráð frá Michael Smith). Á meðan þeir eru að brúnast eru 2 litlir laukar, 2 gulrætur, 3 sellerí stangir og 5 hvítlauksrif hökkuð með svona töfrasprota eða í magimix (eða bara því sem fólk á). Kjötið er sett til hliðar í skál og smá olíu bætt í pottinn og grænmetið sett útí og steikt aðeins. Þegar grænmetið er orðið fallega glært og ilmurinn mjúkur og góður er kjötinu bætt útí með öllum vökva sem fylgir. Saltað og piprað. Steikt í smástund og leyft að blandast vel. Því næst er 1, 5-1,7 L af vatni bætt útí og einnig hálfri flösku af rauðvíni. Svo er nautakjötkrafti bætt útí - skv leiðbeiningum miðað við vatnsmagnið. 1 lítil dós af tómatpure er sett útí, 6 meðalstórar kartöflur sem hafa verið flysjaðar og skornar í fernt, 250 af sveppum sem hafa verið sneiddir í helminga og tvær niðurskornar gulrætur. 3 lárviðarlauf og ferskt rósmarín - af einni grein - saxað niður.  Saltað og piprað aftur.  Þetta var svo soðið í 30 mínútur með lokið á og svo í um 1 klukkustund við lágan hita - og soðið þannig niður um nær helming.

Á meðan var kexið undirbúið. 2 bollar af hveiti, 2 bollar af heilhveiti, 1 1/2 msk lyftiduft, smá haframjöl, 1 1/2 bolli af léttmjólk og síðast en ekki síst 100 gr af smjöri (sem hefur verið fryst aðeins og brytjað niður með grófu rifjárni) er blandað saman og hrært vel þannig að úr verði þétt deig sem er örlítið blautt viðkomu en þó ekki þannig að það límist við. Bitnar eru klipnir af deiginu og flatt vel út og svo stungið á kexið með gaffli. Raðað á ofnplötu og bakað í heitum ofni í ca 8 mínútur við 190 gráðu hita.

Salatið var einfalt. Klettasallat var lagt á flatan disk. Pera var flysjuð og sneidd niður í langar grannar sneiðar og lagt ofan á. Því næst var blár kastali sneiddur niður og lagt ofan á. Plómutómatur var skorin niður og lagður með. Fersku basil og kóríander var svo dreift yfir. Smá extra virgin ólífuolíu var dreift yfir og svo saltað og piprað.

Ég er ekki vanur að hafa eftirrétt á virkum dögum en fyrst að maður verður á síðum dagblaðanna var nú ekki annað hægt en að hafa smá desert. 250 gr af hveiti, 90 gr af dökkum Muscovado sykri, 60 gr af hvítum sykri, 100 gr af smjöri, 1 tsk vanilludropar og 50 ml af mjólk var blandað saman í hrærivél. 350 gr  (1 1/2 box) jarðaberjum voru hreinsuð og tekin í tvennt og 150 gr af bláberjum (1 box) er blandað saman. Berin eru blaut eftir að hafa verið skoluð og eru þau sett í eldfast mót og sykruð með smá hvítum sykri og bakað í 190 gráðu heitum ofni í 10 mínútur. Þegar þau eru tilbúinn eru berin flutt yfir í minni eldföst mót (1 á mann) og deiginu sáldrað yfir. Bakað aftur í um 10 mínútur. Borið fram með rjóma eða vanillu ís. Í þetta sinn var vanillu ís.

Vesigú.

No comments:

Post a Comment