Wednesday 10 January 2007

Chukkalukah - suðurafrísk stemming og fjúsion

Einhvern tíma þegar ég var í feðraorlofi sá ég matreiðsluþátt þar sem suður afrísk kona fór um land sitt og eldaði í framandi umhverfi. Í einum þættinum var hún í hverfi svartra og eldaði frekar einfaldan pottrétt sem hún nefndi Chukkalukah - hún vissi ekkert hvað nafnið þýddi - en taldi að það hafi átt uppruna sinn í suðurafrískum fangelsum þegar fangar sem fengu naumt skammtað lögðu í púkk og gerðu kássur sem þeir svo borðuðu saman. Ég leitaði að þessu á netinu, fann ekkert um þetta, kannski stafaði ég þetta vitlaust eða konan var hreinlega að búa þetta til. Hvað um það, ég reyndi að herma eftir henni í kvöld og bjó til mína útgáfu af Chukkalukkah. Eftir á að hyggja þá er þá er grunnuppbyggingin lík því sem hún gerði en öll krydd sem urðu fyrir valinu - var eitthvað sem ég henti saman - veit ekkert hvort að það sé einhver suðurafrísk stemming í því.

Fyrst hitaði ég olíu á pönnu og steikti tvo litla smáttskorna rauðlauka, 5 pressuð hvítlauksrif, tvær niðursneiddar sellerí stangir, tvær niðursneiddar gulrætur og eina niðursneidda rauða papriku. Þetta fékk að svitna aðeins í olíunni. Því næst var ein dós af hökkuðum niðursoðnum tómötum hellt yfir og 500 ml af vatni. Því næst var 1 lítil dós af tómatpaste, 3 lárviðarlauf, 2 greinar af fersku rósmarín sett útí ásamt 1 tsk af paprikudufti. Saltað og piprað. Setti smá kraft út á - notaði fljótandi nautakraft. Suðan fékk svo að koma upp.

Á meðan voru kjötbollur útbúnar. 10 kúlur af Allspice (sem stundum er kallaður Jamískur pipar skv Wikipedia), 1 tsk kúmen og 1/2 tsk kóríander var mulið í morteli og blandað saman við 500 gr af nautahakki, 1 eggi og smá brauðmylsnu var sett útí til að binda. Litlar bollur voru svo búnar til og látnar detta ofan í sósuna. Lokið sett á og látið malla í 30 mínútur.

Með þessu voru brún basmati hrísgrjón sem voru soðin með smá linsubaunum. Einfalt salat með. Heppnaðist vel - kannski aðeins of dóminant bragð frá allspiceinu - mun nota minna af því næst.

No comments:

Post a Comment