Sunday 5 August 2012

Fleiri borgarar; Með portobello sveppum, gráðaosti og karmelliseruðumrauðlaukÞað þykir nú kannski ekki merkilegt að raða inn færslum um hamborgara hverri ofan í aðra en þar sem ég er sérstakur áhugamaður um hamborgara finnst mér það vel við hæfi. Ég var nýverið með færslu um hamborgara sem ég grillaði þegar við vorum í sumarhúsi í Danmörku. Þá hafði okkur verið fært safn af ostum úr Dölunum - sem voru mjög ljúffengir. Einhverjum blöskraði að ég hefði haft með mér osta til Danmerkur - en ekki gat ég látið þá fara til spillis, þeir voru alltof góðir til þess!

Þessir voru gerðir fyrr í sumar en að einhverri ástæðu hafði mér láðst að skella henni inn - fyrr en núna. Þeir sem eru grænmetisætur þá er þetta klassísk aðferð við að njóta einhvers sem gæti líkst hamborgara - að nota stóran portobello svepp í staðinn fyrir kjötið. En hví ekki að sameina þetta tvennt - gott nautakjöt og svo safaríkan svepp smurðan með hvítlauksolíu og fylltan með mygluosti? Já, hvers vegna ekki?

Meiri borgarar; Með portobello sveppum, gráðaosti og karmelliseruðum rauðlauk

Þetta er í raun afar einfalt - en það er tímafrekt að karmellisera lauk. En það finnast aðferðir til að svindla og kaupa sér tíma. Vík að því síðar.

portobellosveppir

Sveppirnir voru hreinsaðir, stilkurinn fjarlægður. Penslaðir með hvítlauksolíu og svo setti ég vænar sneiðar af bláum kastala.

grænmeti

Fullt af tómötum, blönduðu salati og rauðlaukssneiðum (já, bæði ferskum og karmellisseruðum) var raðað á disk.

karmelliseraður laukur

Tveir heilir laukar voru skornir niður og svo steiktir í vænni klípu af smjöri. Það tekur 30-40 mínútur að karmellisera lauk vilji maður ekki stytta sér leið. Þá er mikilvægt að steikja laukinn við lágan hita og forðast að laukurinn brúnist. Og þetta tekur langan tíma - margar uppskriftir skrökva og segja að þetta sé hægt á korteri eða svo - en svo er ekki! Hinsvegar stytti ég mér leið. Eftir að hafa steikt laukinn í 10 mínútur, þar til að hann varð mjúkur og glansandi hellti ég 2-3 msk af góðu hlynsírópi og leyfði að malla í nokkrar mínútur.

meiri ostur

Kjötið var kryddað með tilbúinni kryddblöndu, Bezt á Borgarann frá Skerjaveri, saltað lítillega til viðbótar. Ég fékk þetta sent frá þeim til smökkunar og finnst þetta prýðisgóð blanda. Svo raðaði ég sneiðum af sænskum cheddarosti frá Kviabille sem mér finnst passa sérstaklega vel á hamborgara.

á grillinu

Girnilegt, ekki satt.

lovely hamborgari

Með matnum drukkum við Masi Campofiorin frá 2008. Þetta vín hef ég drukkið nokkrum sinnum áður. Þetta er vín frá Ítalíu, svæðinu í kringum Feneyjar. Vínið er blanda úr fjórum þrúgutegundum; Corvina, Rondinella, Molinara og Rossignola þrúgum. Það er kirsuberjarautt í glasi. Á tungu ávaxtaríkt og ferskt, örlítil sýra og tannín. Góð fylling og langt eftirbragð. Ljómandi gott vín!

Á myndinni hafði ég stillt sveppnum upp við hliðina hreinlega af fagurfræðilegum ástæðum. Hann var auðvitað hafður með á hamborgaranum. Dásamlegt!

Bon appetit!

3 comments:

 1. Yndislegt að fá svona sælkera inn í bloggheima. Takk.

  ReplyDelete
 2. Lítur mjög vel út. Varðandi vínið, þá var ég aldrei mikill rauðvínsmaður áður fyrr, en eftir að hafa drukkið þetta með nauti nokkrum sinnum fór sú skoðun að snúast mikið og í dag er rautt ómissandi með góðu kjöti.
  Mæli annars með að þú prufir við tækifæri Masi Amarone 07 með hreindýri eða einhverri villibráð. Æðislega gott.

  ReplyDelete
  Replies
  1. Sæll Þorsteinn

   Masi eru ljómandi góð vín. Og ég er fullkomnlega sammála þér að Masi Costasera Amarone er frábært vín!

   mbk,
   Ragnar

   Delete