Tuesday 31 July 2007

Nýtt gómsætt lasagna með hvítlauksbrauði og fersku salati

Eins og oft áður hefst bloggið á því að ég hafi verið á vaktarunu, sem er rétt, þess vegna hefur verið lítið bloggað - mikið af tíma manns er varið í vinnunni. Ég er búinn að vera á vakt undanfarnar fimm nætur. Það er búið að vera mikið að gera. Eins og fram hefur komið fréttum hefur verið mikið álag á bráðamóttökunni síðustu daga. Sem betur fer vinnur mikið af frábæru fólki á bráðamóttökunni og maður vonar að fólkið sem notar þjónustuna finnur hverslags afburðafólk velur að vinna á þessum stað. Sem einn af mörgum í stóru teymi veit maður að maður er umkringdur góðu og vönduðu starfsfólki. Og ekki veitir af!!!

Talandi um starfsfólk bráðamóttökunnar þá var einn af starfsmönnum hennar, Guðrún María, sem er læknir í sérnámi í Svíþjóð í bráðalækningum, heima á Fróni í sumarfríinu sínu. Og að sjálfsögðu var hún að vinna í sumarfríinu! Hún sagði mér frá góðu matarboði sem hún fór í á dögunum. Þar sagði hún mér frá lasagnarétt í einni af bókum Jamie Oliver, Jamie's Dinners, sem er afar góð matreiðslubók. Ég hafði lesið þessa uppskrift, en þó aldrei látið til skarar skríða að búa til þennan rétt. Og hann er frábær.

Ég var einnig að vinna með dönskum lækni um helgina, Ulrik heitir hann, þvílíkur nautnaseggur - ég fylltist bara lotningu. Hann er það sem kallast coffeegeek og þá er vægt til orða tekið. Hann sagði mér allt frá aðaláhugamáli sínu um helgina, sem er kaffiristun, bruggun og neysla. Eftir spjallið við hann var ég svo uppveðraður að það endaði með þvi að þegar ég vaknaði eftir vaktina í dag fór strax á Barónstíginn og keypti mér kaffivél - Rancilio Silvia - svona ekta expresso vél - og nú hefst sá leiðangur. Framundan er almennilegt kaffi, cappucino og latté. Ruddinn verður alveg lagður á hilluna. Búinn að gera nokkra bolla af kaffi síðan að ég kom heim með vélina - þvílíkur lúxus.

Nýtt gómsætt Lasagna með hvítlauksbrauði og fersku salati

Eins og áður sagði er þessi uppskrift að miklu leyti fengin frá Jamie Oliver úr bókinni hans Jamie's Dinner's. Þessi réttur var í kaflanum sem einn af hans uppáhaldsréttum. Eins og oft áður þegar verið er að breyta úr erlendum uppskriftum í íslenskar þarf aðeins að hagræða hráefninu. Ég breytti úr butternut squash í sætar kartöflur og bætti einnig sveppum við í uppskriftina.

Fyrst var 1 1/2 smáttskornum rauðlauk, tvær smátt skornar gulrætur, 6 smáttskorin hvítlauskrif steiktar upp úr 3 msk af jómfrúarolíu þar til það var farið að gljáa. Þá var 500 gr af gúllasi sem hafði verið skorið nokkuð smátt (svona munnbitar) ásamt 200 gr af beikoni sem hafði verið skorið í bita bætt við og steikt um stund. Svo var tveimur dósum að niðurskornum tómötum bætt á pönnuna. Svo einni dós af tómatapúrru, 100 ml af vatni, 2 glösum af rauðvíni, 2 lárviðarlaufum, 1 tsk af kóríander dufti og svo hnífsoddi af kanil. Því næst var sett 1/3 búnt af steinselju, basil og lauf af 3 rósmaríngreinum - allt smátt saxað niður. Leyft að sjóða um stund á meðan restin af máltíðinni var undirbúin.

Ég bjó ekki til hefðbundna bechamel sósu - þessi var mun fljótlegri (komin frá Jamie Oliver). 500 gr af kotasælu, 2 dósir af 10% sýrðum rjóma var blandað saman í skál og því næst var 1 dós af smátt skornum ansjósum í ólívuolíu bætt saman við. Ein stór sæt kartafla var flysjuð og skorin þunnt niður. Einnig var 150 gr af sveppum skorið þunnt niður.

Þessum hráefnum var svo raðað niður, fyrst smá olía í botninn, svo lasagnablöð, svo hvíta sósan, kjötsósa, sætar kartöflur, sveppir. Þetta var endurtekið þar til að djúpt fat var fullt af gómsætu lasagna. Parmesanosti og goudaosti var dreift yfir og bakað í 40 mínútur þar til tilbúið.

Borið fram með hvítlauksbrauði og einföldu salati; græn lauf, ólívur, rauðurlaukur, tómatar. Með matnum var gott rauðvín. Maturinn var mjög ljúffengur. Þessi verður endurtekin ... ekki spurning.

Bon appetit!


No comments:

Post a Comment