Tuesday 3 July 2007

Asískt grill í brakandi sólÞvílíkt og annað eins. Maður er ekki vanur því að fá svona veðursæld. Ég hafði nefnt í fyrri bloggum að ég hafi verið að vinna á slysa og bráðadeild í seinustu viku. Á meðan var sól og sæla - það má segja að ég hafi sofið frá mér sólina. Helgin var meiriháttar en hver hefði trúað því að þetta myndi halda áfram. Þetta er eins og að horfa landsleik og krossa fingurnar og vona að strákarnir okkar (stelpurnar vinna nú yfirleitt) muni klára dæmið. Svo ætlar þetta bara að hanga. Að minnsta kosti í dag, spáin er eitthvað drungalegri fyrir morgundaginn en eftir svona daga segir maður bara að það sé gott fyrir gróðurinn.

Það er búið að vera mikil sókn í heimasíðuna í dag. Fyllist bara stolti yfir því hve margir skuli vilja lesa bloggið mitt. Maður er ekki einu sinni að skrifa um konur með brókarsótt eða lausgirta svæfingarlækna ... bara um mat og sósur og svoleiðis. Ég þakka bara fyrir áhugann og vona að ég haldi áfram að vekja áhuga fólks um matseld og lífsgæðin sem góðum mat fylgir. Fátt er betra.

Ég eldaði úti á svölum í kvöld. Ég elska að elda úti á svölum. Ég er með frekar stórt grill sem hefur auka gashellu og svo gott standborð - butcher's table - sem ég fékk einhvern tíma úr IKEA. Það hefur sannarlega nýst mér vel á svölunum. Þegar maður horfir á nýlega matreiðsluþætti er mikið um það að eldað sé utan dyra. Það er allavega stemmingin í mörgum evrópskum þáttum sem ég hef horft uppá. Það má því segja að ég sé undir áhrifum frá þeim þáttum - raðaði öllu í kringum mig. Stillti öllu upp á diska og platta og var mjög kalkúleraður í eldamennskunni. Asískt grill í brakandi sól
Þetta var samvinnuverkefni okkar hjóna - allavega hvað aðalréttinn snerti. Ég var í dagvinnu í dag - byrja aftur á vöktum á morgun og ég bað Snædísi um að kaupa lax og gera eitthvað gott við hann. Hún gerði það svo sannarlega. Hún keypti 800 gr af sjóöldum lax og lagði í skál. Hún hellti 20 kl af Teriyaki sósu, 40 ml af soya sósu yfir. Raspaði svo 4 hvítlauksrif og 2 cm af þykkri engiferrót yfir fiskinn og lét standa í ísskáp í þrjár klukkustundir. Þetta var svo grillað á álbakka þar til tilbúið - ætli það hafi ekki tekið um 15 mínútur í heildina - sennilega tæki það styttri tíma ef ég hefði fattað að ég slökkti óvart undir laxinum - þannig að hann var eldaður á indirect hita. Með matnum var "roast pepper salad" - eitthvað sem mér datt í hug þegar ég horfði inn í ísskápinn. Það var til babyleaf salat, nokkrir kirsuberjatómatar. Svo sá ég rauða papriku og nokkra sveppi. Papríkuna skar ég í nokkra bita og þræddi upp á tein en sveppina setti ég á teininn í heilu lagi. Þetta var svo penslað með smávegis jómfrúarolíu og saltað og piprað og grillað þar til svarbrúnar renndur voru farnar að myndast á grænmetinu. Þegar grænmetið var eldað var því blandað saman við laufin og tómatana og svo var smá fetaostur mulinn yfir.

Það voru til afgangshrísgrjón síðan kvöldið áður, þannig að ég bjó til hrísgrjónasalat. Það var afar einfalt. 1/3 kúrbítur, 6-7 sveppir, og hálf paprika voru skorin í bita og steikt á pönnu, þegar grænmetið var að verða tilbúið var 2 msk af soya sósu hellt út á og grænmetið látið krauma í sósunni. Þegar soya sósan var soðin niður var grænmetið tekið frá. Því næst voru tvö egg brotin á pönnuna og hrærð saman þannig að úr varð eggjahræra. Eggjahræran var svo tekin til hliðar. Þá voru hrísgrjónin sett á heita pönnuna og steikt í smá stund, grænmetinu bætt saman við, svo eggjunum og steikt aðeins áfram. Smá soya sósu bætt saman við til að grjónin tækju öll lit og svo saltað og piprað. 
Ég bjó einnig til smá grillbrauð - þau eru í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni. 2 tsk af geri er vakið í 250 ml af volgu vatni. 2 msk af sykri er bætt saman við svo að gerið taki við sér. 250 gr af símeljumjöli og 250 gr af hveiti eru sett í skál ásamt smá salti og 2 msk af jómfrúarolíu. Hrært saman. Þegar gerið er vaknað (farið að freyða) er því hellt rólega saman við hveitið. Hnoðað saman í hrærivél þar til mjúkt og fallegt. Látið hefast í 1-2 klst. Þegar deigið hefur hefast er það lamið niður aftur, nokkrir litlir hleifar útbúnir, penslaðir með smá jómfrúarolíu, saltað og piprað og svo grillað þar til tilbúið.

bon appetit og skál.No comments:

Post a Comment