Thursday 12 July 2007

Heimagerð flatbaka með fjölbreyttu áleggi

Ég hef að minnsta kosti tvívegis áður bloggað eitthvað um pizzur. Bæði sem ég hef gert í ofni og svo sem ég hef grillað. Grillaðar pizzur eru alveg frábærar - þær verða nærri alveg eins góðar og eldbakaðar flatbökur frá Eldsmiðjunni. Pizzur eru "official vaktamatur landspítalans". Þegar starfsmenn spítalans vilja gera vel við sig, til dæmis á föstudögum og maður þarf að dúsa á vaktinni, þá leggja starfsmenn í púkk og panta nokkrar pitsur. Yfirleitt hefur Eldsmiðjan vinninginn - það krefst engra skýringa hvers vegna þær eru valdar ofar öðrum flatbökufyrirtækjum.

Það er einhvern veginn þannig að maður fær aldrei ógeð af pizzum. Eiginlega er sama hve oft maður borðar þær. Ég held að það hafi verið sagt best í bíómyndinni Threesome (ekki klámmynd - verið róleg), sem er afar hallærisleg bíómynd frá 1994 (sem var frábær þá, þegar maður var unglingur - en eldist afar illa) með Lara Flynn Boyle, Stephen Baldwin og Josh Charles - þá sagði ein aðalpersónan um flatbökur að "pizza is like sex...no matter how bad it is...it's still pretty good". Veit þó ekki hvað fólk er almennt sammála þessu en mér finnst þetta passa nokkuð vel. Pitsur eru alltaf helvíti góðar.

Heimagerð flatbaka með fjölbreyttu áleggi

Eins og ég nefndi áður þá hef ég bloggað um pizzugerð - þannig að þetta verður bara svona copy-paste stemming frá fyrri færslum nema hvað áleggið snertir.

Útí 250 ml af ylvolgu vatni er sett 2 tsk þurrger og 30 g af sykur eða hunangi . Blanda saman vatninu, gerinu og sykri (eða hunangi) saman og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. 500-700 gr. hveiti er er sett í skál og saltinu og olíunni blandað saman við. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - þar sem saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma. Deigið er nóg í tvær pizzur.

Það komu upp smá vandamál við gerð flatbökunnar. Gerið kláraðist - eða næstum - ég átti smá eftir. Þannig að ég tók upp á því að vekja það í aðeins meiri sykri en ég geri venjulega. Ég hennti í deigið áður en að fjölskyldan fór saman í sund - þannig fékk það 2 tíma til að klárast. Venjulega fjórfaldast gerið á þeim tíma en núna, vegna gerskorts, var það aðeins tvöfalt. Þetta þýðir að deigið verður ekki eins þjált og þarf meiri vinnu við að fletja það út. Eins og oft áður þá svindlaði ég með tómatsósuna -ég er alveg hættur að nenna að gera mína eigin tómatsósu, þannig að ég kaupi bara þessar stóru dósir frá Hunt's, þær eru til í smá úrvali (núna finnst mér að einshver ætti að senda mér einhverja sposlu) en það sem ég nota er roasted garlic tomato sauce - sem er afar vel heppnuð. Og fljótlegt.

Á fyrri bökunni var skinka, sveppir, þistilhjörtu, ostur, rjómaostur með kryddjurtum og svo í lokin var niðurskorið bacon lagt yfir. Á seinni bökunni notaðir pepperoni (ég keypti óvart endastykki sem ég þurfti að skera niður - því urðu sneiðarnar þykkar og safaríkar). Svo setti ég rauðlauk, ólívur, afgang af höfðingjaost, rifin mozzarella ost og svo í lokin smá pipar. Bakað í 15-20 mínútur í heitum ofni þar til deigið hefur risið talvert mikið og osturinn farinn að verða gullin.

Með góðum mat er gott að fá sér smá rauðvínsglögg - fyrir valinu varð Castillo de Molina, Cab Sauv - afar ljúfengt, flaueliskennt og bragðmikið rauðvín.


No comments:

Post a Comment