Monday 2 July 2007

Lamb á þrjá vegu með tvennskonar kryddsmjöri og bræddum osti

Næturvaktarunu á slysa og bráðadeild er lokið. Við tekur vaktavika á lyflækningadeildum. Við fjölskyldan fórum í bústaðinn til foreldra minna til að jafna okkur eftir vinnuvikuna. Ég keyrði í bústaðinn í gærmorgun eftir vaktina og svaf frameftir degi við fuglasöng. Vaknaði svo við það þegar faðir minn kom með börnin mín seinnipartinn.

Þessar bústaðarferðir með fjölskyldunni eru miklar matarhelgar. Það má eiginlega segja að við keppumst við að njóta lífsins. Veðrið var dásamlegt. Valdís og Villi voru að leika sér út í garðinum umhverfis húsið. Ég og pabbi reyndum að undirbúa að setja upp grindverk. Fyrir kvöldmat var farið í heita pottinn og sólin sleikt með köldum fordrykk.

Dóttir mín fékk að velja hráefnið. Hún hefur dýran smekk. Sjálf segir hún að lambakjöt sé uppáhalds maturinn sinn. Ég get svo vel tekið undir það með henni. Ég elska að elda úr lambakjöti. Uppáhalds maturinn minn er eiginlega troðið lambalæri. En það var ekki á boðstólunum í kvöld. Valdís valdi bæði lambainnralæri, lambalundir og lambafille - reyndar litla bita af hverju. Við ákváðum því að marinera hvern bita á mismunandi máta. Úr varð heljarinnar veisla.

Ég átti að sjá um aðalréttinn og sósugerð, pabbi ætlaði að sjá um meðlætið. Pabbi ætlaði að sjá um að kaupa í matinn og sósugerðina en klikkaði á því að kaupa jógúrtina sem átti að vera undirstaðan í sósuna. Úr varð því kryddsmjör og ostasósa í staðinn. Einhver setti inn athugasemd um daginn að ég notaði alltof mikið af smjöri, feitum ostum og rjóma - það fór engin rjómi í þetta en nóg af ostum og eitthvað af smjöri.

Lamb á þrjá vegu með tvennskonar kryddsmjöri og bræddum osti

Eins og ég nefndi hafði dóttir mín valið þrenns konar bita af lambakjöti. Þeir fengu hver sína marineringuna. Lambainnralærið (sirka 500 gr) var lagt í skál og 1 hvítlaukur var pressaður yfir. Lauf af 5-6 greinum af rósmarín var saxað niður og dreift yfir. Svo var saltað og piprað. Góðri jómfrúarolíu var hellt yfir og svo var vöðvinn nuddaður upp úr kryddinu.

Næst voru svo lambalundirnar. Við vorum með sirka 400 gr. í það heila. Þær voru einnig lagðar í skál, safi úr hálfri sítrónu, væn skvetta af jómfrúarolíu, 1/2 búnt af niðurskorinni myntu, 1/4 búnt af ferskri bergmyntu og smávegis af steinselju, salt og pipar var sett í skálina. Blandað vel saman og látið liggja svona í nokkrar klukkustundir.

Tveir bitar af lambafille (ca 400 gr) voru settir í grunna skál, nuddaðir með jómfrúarolíu, salti og pipar og svo var 2 tsk af lamb Islandia frá Pottagöldrum sáldrað yfir. Almennt finnst mér betra að nota einstaka kryddjurtir, því þá veit ég hvað mikið af hverju fer í réttinn, frekar en að nota svona tilbúnar blöndur. En niðurstaðan var góð. Kjötið fékk svo að marinerast í nokkrar klukkustundir á meðan við lékum okkur úti eða sinntum garðverkunum.

Þar sem faðir minn hafði gleymt að kaupa í sósuna varð að redda einhverju með kjötinu. Ég bjó því til tvennskonar kryddsmjör og svo brædd-ostasósu. 50 gr af mjúku smjöri var sett í skál, 1/5 búnt af smátt saxaðri myntu, 1/5 búnt af smátt skorinni steinselju, 1/2 smátt saxaður rauður laukur, safi úr hálfri sítrónu og nýmalaður pipar. Seinna smjörið var bara klassískt hvítlaukssmjör; 40 gr af smjöri, 1/2 hvítlaukur, kraminn, og fersk steinselja blandað vel saman. Ostasósuna er eiginlega ekki hægt að kalla sósu en það meðlæti reyndist vera leynigestur kvöldsins. Einn gullostur var lagður á álpappír, gataður að ofan með gafli og svo vafinn inn í álpappírinn. Osturinn var svo settur á grillið og fékk að krauma þar á meðan lambið og kjötið var eldað. Bráðinn gullostur - algert sælgæti - svona matseld á ostum verður svo sannarlega í boði aftur í sumar.

Með matnum voru bökunarkartöflur sem höfðu verið skornar í helminga, penslaðar með hvítlauksolíu og grillaðar þar til gullinbrúnar og mjúkar. Einnig bjó pabbi til sveppi fyllta með blámygluostum. Með matnum var drukkið gott rauðvín og smjattað - hvað annað var hægt.

p.s. Faðir minn, Ingvar, hringdi í mig áðan til að láta mig vita hvernig afgangurinn af lambalundunum hafði smakkast. Við elduðum ekki allan matinn þar sem bróðir minn komst ekki vegna þess að hann var að fara að vinna. Hann sagði að sólarhringamarinering hefði verið alveg meiriháttar og maturinn hefði verið alveg frábær. Ekki slæmir dómar - næst marinera ég lengur.

Bon appetit.


No comments:

Post a Comment