Monday 23 July 2007

Grillað kebab með jógúrtsósu og heimagerðu tómatmauki

Bróðir minn átti afmæli núna rétt fyrir helgina. Litli bróðir orðinn 26 ára gamall...OMG. Hann, eins og allir, er að eldast. Ég er með svona aldurskomplex, mér lýst ekkert á hvað árin eru að færast hratt yfir. Mér finnst, eins og svo mörgum öðrum, tíminn líða alveg hreint á ógnarhraða. Það er eiginlega alltaf föstudagur (eða mánudagur...fer eftir andlegu ástandi) og vikurnar þjóta áfram. Þannig að það er um að gera að njóta augnabliksins eins og maður getur. Þá verða alltént minningarnar góðar.

Þessi vika er búinn að vera miklu skaplegri en undanfarnar vikur. Eins og getið hefur verið í fréttum, þá vantar mannskap á spítalana á sumrin (þeas. meira en á veturna) og þeir sem eru í vinnu þurfa að vinna lengri daga og vinna hraðar. En þessi vika var frábrugðin fyrri vikum, það var gott að vera bara í dagvinnu þessa vikuna, vera búinn í fyrra fallinu og ná að slaka aðeins á. Góð tilbreyting.

Þessi réttur sem á eftir kemur var tilraun til að útbúa kebab stemmingu á snöggan hátt. Ég held að margir Íslendingar tengi kebab helst við að vera niðri í bæ á djamminu. Þegar kebabstaðurinn opnaði niðri í miðbæ varð flóran í fylleríismatarmenningu Íslendinga aðeins alþjóðlegri. Hér á árum áður var það fyrst pulsan sem er nátturulega sígild, svo Hlöllabátar og Nonnabitar. Svo minnir mig að einhvern tíma hafi verið hægt að fá kínarúllur í einum básnum - en ég gæti verið að rugla, maður var náttúrulega í glasi. Svo kom kebabið, ansi gott svona síðla kvölds, sem nætursnarl eða í versta falli snemmkominn morgunverður. Maður hefur alltént slafrað í sig ansi marga kebabba á háskólaárunum eftir erfiðar vísindaferðir þegar fór að halla undir morgun. Nokkuð sannfærður að það hafi gert manni gott, allavega hvað samkvæmiskveisuna sem oft hrjáir mann daginn eftir.

Grillað kebab með jógúrtsósu og heimagerðu tómatmauki

Eins og áður sagði þá var þetta einföld eldamennska. Undirbúningurinn fólst aðallega í því að skera hráefni niður, þræða upp á tein og undirbúa fyrir grillið þannig að það varð allt tilbúið á sama tíma. Ég á svona flata plötu til að nota á grillið í staðinn fyrir rimla, það hentar vel til þess að steikja þunnar sneiðar sem annars eiga í hættu að detta á milli rimlanna.

Ég hafði tekið klump útúr frystinum nokkru áður og leyft að þiðna í ísskápnum. Klumpur er sæmilegur biti, ekki mikil fita í honum. Ég skar hann þunnt niður og penslaði með hvítlauksolíu. Sneiðarnar voru svo steiktar örstutt á plötunni og voru svo færðar á efri hluta grillsins á meðan annað kláraðist. Saltað og piprað. Afar einfalt!

Jógúrtsósan var líka einföld. Ég geri oft svona jógúrtsósur, mér finnst þær afar góðar - léttar og frískandi. Í þetta sinn tæmdi ég tvær jógúrtdósir, hrein jógúrt, og bætti síðan fjórum stórum pressuðum hvítlauksrifjum, 1/2 smátt skorinni agúrku, 1/5 búnt af gróft saxaðri ferskri myntu. Í lokin var svo saltað og piprað og svo bætti ég einni msk agave síróp til að fá gott jafnvægi í sósuna.

Tómatmaukið var gert á eftirfarandi hátt; í fyrstu voru þrír stórir tómatar skornir smátt niður, 1/2 dós niðurskornum tómötum,sex sólþurrkaðir tómatar, 1 chilli (hreinsaður og fræin fjarlægð, tvö pressuð hvítlauksrif, 1/3 búnt steinselja blandað saman í pott. Soðið upp og þegar þetta var farið að malla var blandan maukað með töfrasprota. Saltað og piprað eftir smekk.

Eins og áður sagði var meðlætið einfalt. Einn kúrbítur var skorinn í eins cm sneiðar, penslaður með olíu, saltað og piprað og grillaður á báðum hliðum. Sveppir skornir í helminga, paprika í fjórðungum og laukur skorin í fernt var þrædd upp á spjót og penslað með olíu og grillað.

Auðvelt er að búa til pítubrauð með matnum hafi maður ekki keypt þau tilbúinn. Meðfylgjandi er uppskrift sem ég gerði nýverið. Tvær tsk af geri er vakið í 250 ml af volgu vatni. 2 msk af sykri er bætt saman við svo að gerið taki við sér. 500 gr af hveiti eru sett í skál ásamt smá salti og 2 msk af jómfrúarolíu. Hrært saman. Þegar gerið er vaknað (farið að freyða) er því hellt rólega saman við hveitið. Hnoðað saman í hrærivél þar til mjúkt og fallegt. Látið hefast í 1-2 klst. Þegar deigið hefur hefast er það lamið niður aftur, nokkrir litlir hleifar útbúnir, penslaðir með smá jómfrúarolíu, saltað og piprað og svo grillað þar til tilbúið.

Auðvitað er gott að drekka með þessu létt rauðvín en sódavatn getur líka stundum átt við...stundum!

Bon appetit.

 


No comments:

Post a Comment