Friday 27 July 2007

Meiriháttar pastaréttur með lambakjöti og muldum valhnetum

Ég gerði þennan pastarétt núna á sunnudaginn var, en þá fékk ég góða vini okkar hjóna og nýja strákinn þeirra í heimsókn. Litli strákurinn er rétt tæplega mánaðargamall og alveg gullfallegur. Það var ekki mikið haft fyrir honum svaf meira og minna allt kvöldið, aðeins tíst í honum af og til.  

Ég er aðeins eftirá með bloggið - næ ekki alveg að vera current - þannig að síðustu færslur eru nokkra daga gamlar þegar þær birtast. Einnig skulda ég nokkrar færslur sem ég kem til að birta þegar aðeins meiri tími gefst til. Það er búið að vera ansi mikið að gera í sumar. En það er bara stundum svoleiðis.

Hugmyndin af þessum rétt er fengin frá Nönnu Rögnvaldsdóttur matargúrú. Ég á bókina hennar Matarásten rétturinn var ekki í henni heldur í litlum bæklingi sem fylgdi með tímaritinu Gestgjafanum. Sá bæklingur var tileinkaður lambakjöti og þar lýsir hún einum pastarétt þar sem lambakjöt kemur við sögu. Man ekki alveg hvernig sú uppskrift hljómaði en hugmyndin um lambakjöt með pasta í svo jómfrúarolíuuppbyggðri sósu fékk að fljóta yfir í mína uppskrift. Maturinn heppnaðist ákaflega vel og það er vel þess virði að gera þessa uppskrift aftur.

Meiriháttar pastaréttur með lambakjöti og muldum valhnetum

Ég keypti tvær miðlungsstórar lambalærissneiðar, kannski um 450 gr, sem ég þvoði og lagði í eldfast mót. Svo var heimagerðri hvítlauksolíu dreift yfir, því næst 50 gr af valhnetum sem höfðu verið muldar í mortéli og í lokin 1/6 búnti af ferskri steinselju. Saltað og piprað. Þessari blöndu var svo nuddað vel í sneiðarnar og þær svo bakaðar í 180 gr heitum ofni í 20 mínútur.

Á meðan lærisneiðarnar voru í ofninum skar ég 200 gr af sveppum niður í grófar sneiðar, hitaði 3 msk af hvítlauksolíu (með miklum hvítlauk) á pönnu og steikti svo sveppina þar til þeir fóru að brúnast aðeins. Þá var 20 gr af muldum valhnetum bætt saman við og steikt áfram. 3 msk af rjómaosti með pipar var svo bætt útí og í lokin 30 gr af rifnum parmesanosti sem fékk að bráðna samanvið. Saltað og piprað. Ferskri steinselju, kannski 1/3 búnti var svo bætt útí. Þegar lærissneiðarnar voru tilbúnar, voru þær skornar í þunnar sneiðar, og bætt útí pönnuna ásamt öllu hráefninu í eldafasta mótinu (þetta var skafið út með sleikju til að fá allt góða bragðið).

Gott pasta, ég notaði pipe rigate - sem eru bogin rör, er soðið í miklu söltuðu vatni samkvæmt leiðbeiningum. Þegar pastað er orðið al dente er vatninu hellt frá og sósunni á pönnunni hellt saman við pastað og blandað vel saman. Saltað og piprað eftir smekk og skreytt með smávegis steinselju og nýrifnum parmesan osti.  

Með matnum bar ég fram hvítlauksbrauð og salat; smávegis af klettasalati, 2 niðurskornir plómutómatar, mulin fetaostur og nokkur olíulegin þistilhjörtu.

Með matnum var svo gott ítalskt rauðvín. Smakkaðist afar vel.

 Bon appetit


No comments:

Post a Comment