Thursday 28 June 2007

Ofnbakaður pestókjúklingur með rótargrænmeti

Ég er á næturvöktum þessa viku, þannig að maður lifir hálfpartinn á milli svefns og vöku. Ég er að taka vaktir á slysa og bráðadeild og það góða við þær vaktir er að þær byrja um tíuleytið þannig að ég næ aðeins að elda. Vegna vinnu er ég búinn að vera hálfóduglegur í eldhúsinu uppásíðkastið en er að reyna að bæta úr núna.

Hugmyndin af þessum rétt er fengin úr mörgum áttum. Ég hef oft eldað ofnbakaðankjúkling áður þannig að það er svosum engin nýlunda. Einhvern tíma hef ég séð Jamie Oliver smyrja pestó á kjúkling og baka í ofni. Ég var í ræktinni um daginn og á sama tíma og ég var á þrekstiganum að heyja mínu reglulegu varnarbaráttu við áhugamálið sem ég blogga um, sá ég sjónvarpsþátt á Skjá einum sem heitir Rachael Ray. Hún er með eindæmum óþolandi þáttastjórnandi, nema hvað stundum eldar hún ansi girnilegan mat. Í þessum þætti bjó hún til kryddjurtaolíu, úr steinselju, estragoni og basil, sem hún smurði á kjúkling sem hún bakaði í ofni á beði af fennel, kartöflum og einhverju fleira grænmeti. Mjög girnilegt.

Ég er búinn að vera að hugsa um að elda þennan mat eiginlega síðan og í dag þegar ég vaknaði eftir vaktina var ég alveg með það á heilanum að gera eitthvað líkt þessu. Ég komst um daginn yfir heilmikið af parmesanosti - þannig að ég ákvað að gera pestó - frekar en bara kryddjurtaolíu. Eins átti ég heilmikið af grænmeti var að koma tími á þannig að ég notaði það frekar en það sem ég sá í þættinum. Eins valdi ég aðeins aðrar kryddjurtir til að ríma betur við það sem ég var að nota í matinn. Alveg eins og estragon passar með fennel, hentar basil parmesanosti, og rósmarín elskar sætar kartöflur. Það er ekkert að því að breyta út af eftir því sem til er í ísskápnum!

Ofnbakaður pestókjúklingur með rótargrænmeti

Fyrst var ein mjög stór sætkartafla, þrjár stórar bökunarkartöflur og tvær stórar gulrætur flysjaðar og skornar niður í fremur stóra bita. Lagt í eldfast mót og saltað og piprað. 1,5 kg af kjúklingabitum - upplærum, leggjum og vængjum (það hefði líka alveg mátt nota bringur eða bara hluta heilan kjúkling niður) var þveginn með köldum vatni, skolaður og þurrkaður og lagður ofan á rótargrænmetið. Svo var heimagerðu pestói (1 búnt af basil, 1 búnt af steinselju og lauf af 2 greinum af rósmaríni, 2 hvítlauksrif, 50-70 gr af parmesanosti hakkað saman í matvinnsluvél - saltað og piprað og svo er góðri jómfrúarolíu bætt út þar til pestóið er orðið eins og pestó á að vera - það tekur enga stund að búa þetta til) dreift yfir kjúklinginn og hann eiginlega nuddaður upp úr pestóinu. Sett í ofn sem hefur verið forhitaður í 160 gráður og bakaður í 75 mínútur eða þar til kjarnhiti er komin í 82 gráður. Ef notaðar eru bringur þar að gæta vel að ofelda ekki þar sem þær verða auðveldlega þurrar.

Með matnum var svo einfalt salat, græn lauf voru lögð á flatan disk, nokkrir plómutómatar voru lagðir ofan á. Svo steikti ég sugarpeas upp úr sirka matskeið af góðri hvítlauksolíu. Þegar baunirnar voru farnir að mýkjast var smá skvettu af hvítvíni hellt út á pönnuna og soðið niður. Heitum baununum var svo dreift yfir salatið. Ferskur parmesanostur var svo rifin yfir salatið. Saltað og piprað.

Með matnum var svo einföld sósa - sem eiginlega var óþarfi þar sem kjúklingurinn var svo safaríkur og vökvinn af kjúklingnum hafði lekið yfir grænmetið og blandast olíunni í pestóinu var eiginlega fyrirtakssósa - en hvað um það. Bróðir minn sem kom í mat bjó til einfalda kalda jógúrtsósu, með hreinni lífrænni jógúrt, niðurskorinni akúru, hvítlauksrifi, smávegis hlynsírópi og salti og pipar. Hún var einnig afar ljúffeng.

Bon appetit.


No comments:

Post a Comment